Jöfn tækifæri fólks og fyrirtækja
Páll Valur Björnsson þingmaður Bjartrar Framtíðar skrifar
Mér finnst að stjórnmál í lýðræðisríki eigi að snúast fyrst og síðast um jöfn tækifæri.
Jöfn tækifæri fólks. Jöfn tækifæri fyrirtækja.
Mér finnst að jöfn tækifæri séu sá mælikvarði sem eigi að leggja á allar gerðir stjórnvalda; lög og reglur sem þau setja, ákvarðanir sem þau taka, afskipti þeirra og afskiptaleysi.
Áhugi minn á stjórnmálum byggist á þessari sannfæringu.
Hvernig komum við til móts við þau börn sem þurfa stuðning vegna fötlunar eða skerðinga, félagslegra aðstæðna eða bágs efnahags aðstandenda þeirra? Hvernig tryggjum við að þau fái tækifæri til að fara vel nestuð út í lífið?
Hvernig komum við í veg fyrir að fólk einangrist og dæmist úr leik vegna örorku og fátæktar og hafi úr svo litlu að spila að það hafi ekki tækifæri til að taka þátt í einu eða neinu en geti bara dregið fram lífið og varla það? Samfélag án aðgreiningar.
Hvernig sköpum við rekstrarumhverfi sem einkennist af jöfnum tækifærum fyrirtækja þar sem leikreglurnar eru sanngjarnar, einfaldar og gagnsæjar, samkeppnin virk og árangurinn ræðst af hugviti, dugnaði og ráðdeild en ekki af greiðvikni valdhafa og útsjónarsemi við að stytta sér leiðir, fara á svig við reglur og troða sér fremst í raðirnar?
Hvernig byggjum við upp stjórnsýslu sem þjónar fólki og lagar sig að þörfum þess en hefur ekki ranghugmyndir um að fólkið eigi að laga sig að stjórnkerfunum? Samfélag þar sem kerfin eru til fyrir fólkið og virka jafnt fyrri allt fólk í öllum þess fagra margbreytileika.
Og hvernig tryggjum við að nýting takmarkaðra og verðmætra gæða sem við eigum saman ráðist af hagsmunum almennings en ekki af sérhagsmunagæslu, einkavinavæðingu og annarri spillingu.
Jöfn tækifæri og jöfnuður er alls ekki það sama því að auðvitað nota sumir tækifærin sín betur en aðrir. Leggja meira á sig og hafa meiri metnað. En þó að jöfn tækifæri séu ekki það sama og jöfnuður draga jöfn tækifæri úr ójöfnuði. Það er sýnt og sannað og það er gott.
En ójöfnuður sem byggist á ójöfnum tækifærum er ósiðlegur og ömurlegur.
Og hvernig stenst ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar prófið um jöfn tækifæri?
Hvað finnst þér?
Mér finnst hún hafa skítfallið.