Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Jarðstrengir myndu hækka raforkuverð
Föstudagur 30. september 2011 kl. 12:09

Jarðstrengir myndu hækka raforkuverð


Í tilefni af fréttaflutningi vegna samþykktar bæjarstjórnar Voga er rétt að árétta eftirfarandi:
Landsnet hf. starfar eftir raforkulögum og ber samkvæmt þeim að byggja upp og reka raforkuflutningskerfi landsins. Sú skylda er lögð á Landsnet að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku.


Við útfærslur á uppbyggingu flutningskerfisins er óhjákvæmilegt að horfa til heilstæðra lausna óháð sveitarfélagamörkum. Eðli framkvæmda við grunnkerfi, líkt og við meginflutningskerfið, er að það liggur um langan veg og oft um mörg sveitarfélög. Hinir lögbundnu þættir sem taka verður tillit til við uppbyggingu kerfisins gilda þannig ekki eingöngu um ákvarðanatöku Landsnets, heldur verða sveitarfélög einnig að líta til þeirra þátta við sína ákvarðanatöku. Því er ekki mögulegt að byggja útfærslur alfarið á kröfum einstakra sveitarfélaga og verða mjög sterk rök að liggja til grundavallar ef víkja á frá þeirri samfélagslegu skyldu sem hvílir á Landsneti að byggja upp flutningskerfið á hagkvæman og öruggan hátt.


Ríkar kröfur hafa verið um allt land að grafa í jörðu háspennulínur sem tilheyra meginflutningskerfinu og eru fyrir 220 kV spennu og hærri. Stofnkostnaður við háspennulínur á þessu spennustigi er fimm til sjöfalt hærri fyrir jarðstrengi en loftlínur auk þess sem endingartími þessara jarðstrengja er helmingi styttri en loftlína. Þegar upp væri staðið væri verið að auka kostnað við flutningskerfi raforku um tugi og jafnvel hundruð milljarða, sem sjálfkrafa lendir á raforkunotendum. Þetta myndi leiða til verulegra hækkana á gjaldskrá til bæði almennings og minni sem stærri fyrirtækja, hefði neikvæð áhrif á samkeppnishæfni og minnkaði vaxtarmöguleika þeirra.


Sem dæmi yrði viðbótarkostnaður við að grafa fyrirhugaða Suðurnesjalínu 2 í jörð í landi Sveitarfélagsins Voga um 6 milljarðar króna (17,25 km). Komi til fyrirhugaðar tvöföldunar yrði kostnaðurinn 12 milljarðar króna. Til samanburðar má geta þess að Hvalfjarðargöngin, uppreiknað til verðlags dagsins í dag, kostuðu 12,3 milljarða króna. Jarðstrengir hafa einnig ýmsa tæknilega ókosti, s.s. minni sveigjanleika til að bregðast við breyttum forsendum um flutningsgetu og mun lengri viðgerðartíma auk þess sem þeir þola mun verr yfirálag. Þá má benda á að varanleg umhverfisáhrif jarðstrengja á 220 kV spennu og hærri eru meiri en loftlína. Þó sýnileiki loftlína sé meiri á líftíma þeirra er röskun lands við lagningu jarðstrengja umtalsvert meiri, einkum þar sem um er að ræða hraun og þverun fallvatna eða gilja. Þá eru framkvæmdir vegna loftlína að mestu afturkræfar.


Samkvæmt lögunum ber Landsneti að sjá til þess að fyrir liggi áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins. Til þess ber sveitarfélögum að líta við gerð skipulagsáætlana. Háspennulínur Landsnets eru hluti af grunninnviðum samfélagsins og ein af lykilundirstöðum atvinnulífs og velferðar almennings um allt land. Því verður að gera kröfur til þess að einstök sveitarfélög landsins setji ekki í krafti skipulagsvalds steina í götu lögbundinnar og skynsamlegrar uppbyggingar.


Hjá Landsneti hefur stefnan verið að nota jarðstrengi þar sem það er raunhæft og aðrir kostir koma ekki til greina. Þetta er sambærileg stefna og önnur evrópsk flutningsfyrirtæki fylgja. Ef Landsnet féllist á að nota strengi við sambærilegar aðstæður og eru í Vogum myndi það leiða til þess að allt meginflutningskerfi Landsnets yrði grafið í jörð og yrði slíkt kerfi einstakt í heiminum.
Af ofansögðu er ljóst að af óbreyttum forsendum mun Landsnet ekki leggja jarðstrengi í meginflutningskerfinu þar sem spennan er 220 kV og hærri nema í algerum undantekningartilvikum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024