Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Jarðstreng í stað línu
Mánudagur 27. júní 2005 kl. 01:48

Jarðstreng í stað línu

Fyrirhuguð háspennulína Hitaveitu Suðurnesja um Reykjanes að Rauðamel mun liggja um svæði sem er einstakt bæði í jarðfræðilegu og umhverfislegu tilliti.  Þetta get ég fullyrt af eigin reynslu.  Oft hef ég farið með erlenda gesti út að Reykjanesvita,  að Valahnúk, upp að Stampagígaröðinni og að Gunnuhver.  Ég hef leyft ferðamönnunum að stíga út úr bílunum og labba út á gróðursnauð sandorpin hraunin.  Það hefur ekki brugðist að allir erlendir gestir mínir hafa fallið í stafi yfir sérstæðri náttúru utanverðs Reykjaness.  Einkum hafa Þjóðverjar orðið andaktugir og talað um að aðra eins náttúru hafi þeir aldrei séð.  Stampagígaröðin er með fallegri gígaröðum á landinu og jarðmyndanir svæðisins allar einstakar. 


En nú stendur til að leggja stóreflis háspennulínu yfir hraunin við Stampagíga og Reykjanesvita og eyðileggja þar með náttúruupplifun svæðisins.  Sumum verkfræðingum finnast háspennumöstur að vísu afar falleg, einkum þegar þeir hanna þau sjálfir í tölvunum sínum. Hverjum finnst sinn fugl fagur. Samt er það nú svo að háspennulínur skemma útsýni á vinsælum ferðamannastöðum og flokkast undir lýti í landslaginu í augum alls venjulegs fólks.  Háspennulína er mannvirki og það land sem háspennulína liggur um er ekki lengur ósnortið.  Þess vegna viljum við náttúruverndarfólk að Hitaveita Suðurnesja standi við upphafleg áform sín og leggi hluta af fyrirhugaðri háspennulínu í jarðstreng.  Einkum er mikilvægt að jarðstrengur verði lagður um Stampahraun þar sem háspennulína myndi eyðileggja stórbrotið útsýni við Stampagígaröðina.


Framkvæmd þessi sem hér er til umfjöllunar hefur vissulega farið í umhverfismat,  og er það nú til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun.  Það er hins vegar sorglegt en satt að niðurstaða umhverfismatsins var löngu ákveðin áður en vinna við umhverfismatið hófst.  Niðurstaðan er sú að Hitaveita Suðurnesja telur ekki að framkvæmdin hafi umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.  Hvað þýðir þetta á mannamáli?  Einfaldlega það að hitaveitan telur framkvæmdina góða og til bóta.  Hvílík uppgötvun!  Þetta eru alveg nýjar fréttir?  Þessi niðurstaða segir okkur í raun og veru ekkert um hin raunverulegu áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið.  Og til hvers var þá umhverfismatið?  Hver skyldu hin raunverulegu umhverfisáhrif vera?


Áhrif framkvæmdarinnar eru fyrst og fremst á jarðfræði og útivist.  Það vekur því furðu að enginn jarðfræðingur var beinlínis verið fenginn til þess að vinna við umhverfismatið.


Í matsskýrslunni er látið í það skína að hraunin séu einskis virði af því að þau séu gróðursnauð, úfin og sandorpin.  En þetta er mikill misskilningur hjá höfundum matsskýrslunnar.  Verðmæti hrauna fer ekki eftir því hvernig þau líta út eða hvort að þau eru þakin gróðri eða ekki.  Verðmæti hrauna fer fyrst og fremst eftir berggerð þeirra og þeim jarðmyndunum sem í hrauninu eru.  Nú er svosem ekki beinlínis skortur á hraunum á Íslandi.  Þrátt fyrir það eru hraunin á utanverðu Reykjanesi,  einkum Stampahraun mjög merkileg á landsvísu vegna þess hve sérstakar jarðmyndanir þau eru.  Stampagígaröðin er einstæð í sinni röð og saman mynda öll hraunin á svæðinu landslagsmynd sem er hrikaleg, ljóðræn og fögur.  Ég get líka bent þeim á, sem eftir eiga að uppgötva hraunin á utanverðu Reykjanes að ferðast um þau í þoku.  Það er stórkostleg upplifun.     


Í matsskýrslunni kemur fram að það getur þurft að sprengja hraun fyrir undirstöður.  Á þá að sprengja hraunið við Stampagíga?  Nánari útskýringar óskast, enda sprengingar alvarlegt mál.   


Það eina rétta í þessu máli er Hitaveita Suðurnesja taki á sig rögg,  sýni framsýni, velji svonefndan valkost tvö og leggi línuna í jarðstreng yfir viðkvæmasta svæðið.  Tímaskortur og peningaleysi er engin afsökun fyrir náttúruspjöllum.  Hitaveita Suðurnesja kom sér sjálf í tímahrak líkt og skákmaður sem leikið hefur af sér og hugsað of lengi.  Við skulum ekki fórna vaxandi ferðaþjónustu á utanverðu Reykjanesi fyrir álæði.  Leggjum línuna í jarðstreng!

Ingibjörg E. Björnsdóttir
Keilugranda 8, 107 Reykjavík.
Jarðfræðingur
Stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum Íslands

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024