Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 17. október 2003 kl. 12:24

Jákvæð umræða um sameiningarmál

Eins og kunnugt er ályktaði stjórn ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ um mikilvægi þess að hagræða í rekstri sveitarfélaga á Suðurnesjum með sameiningu Sandgerðisbæjar og Reykjanesbæjar. Ég lít svo á að um áframhald þróunar sem hófst 1994 með sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna sé að ræða. Ályktunin kemur í kjölfarið á nokkurri fjölmiðlaumræðu um slæma fjárhagsstöðu Sandgerðisbæjar um þessar mundir, sem m.a. varð til þess að bæjarstjórinn í Sandgerði óskaði eftir fundi með þingmönnum Suðurkjördæmis. Í þessari fjölmiðlaumræðu var viðbrögðum bæjarstjórans nánast lýst sem neyðarópum, kalla þyrfti eftir viðbrögðum vegna vandans.

Umræðan um hagræðingu í rekstri sveitarfélaga er bæði mikilvæg og góð. Bæjarstjórinn í Sandgerði sendi frá sér athugasemd vegna ályktunarinnar sem er gott innlegg í jákvæða umræðu. Í henni ítrekar hann að mikilvægt sé að báðir aðilar hagnist á sameiningum, og gefur þar í skyn að ályktunin byggist einkum á hag Reykjanesbæjar á sameiningunni. Ályktunin kemur í kjölfarið á ítrekuðum fréttum af slæmri fjárhagsstöðu Sandgerðisbæjar um þessar mundir, því er einkennilegt að halda að ungir sjálfstæðismenn hafi ekki talið ávinninginn meiri fyrir Sandgerði.
Slæma fjárhagsstöðu má aldrei verja með því að einhverjir aðrir hafi það líka slæmt. Umræða um sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur ekki verið mikil undanfarið og full ástæða er að taka undir orð bæjarstjórans í Sandgerði að umræðan verði að einkennast af málefnum, staðreyndum og vera gerð með raunverulegum umræðuvilja allra málsaðila.
Bæjarstjórinn í Sandgerði spyr hvort ungir sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ vilji taka upp umræðu um sameiningarmál. Vilji ungra sjálfstæðismanna er eingöngu að jákvæð og málefnaleg umræða eigi sér stað um alla hluti sem leitt geti til hagræðingar og betri reksturs sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Markmiðið er ekki að stýra umræðunni né ráða. Ályktunin var eðlileg í ljósi þeirrar staðreyndar sem liggur fyrir að Sandgerðisbær er of lítið bæjarfélag til að geta með góðu móti tekið afleiðingum af misreikningum Fasteignamats Ríkisins. Óeðlilegt er að leiða ekki hugann að stærri rekstrareiningum í ljósi þessa.
Í athugasemd bæjarstjórans í Sandgerði leggur hann áherslu á ónýtta hækkunarmöguleika álagningarstofna, fasteignaskatta og annarra gjalda. Hann nefnir jafnframt að eignir hafi ekki verið seldar til að mæta vandanum. Hugur ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ er hjá Sandgerðingum í þessum fjárhagsvanda og því er afar mikið gleðiefni að lausnir við honum séu nú fundnar.
Það hefur ætíð verið stefna ungra sjálfstæðismanna að berjast fyrir hagræðingu í rekstri sveitarfélaga og ályktunin nú er aðeins áminning um þá stefnu. Áhugi fyrir sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum er ekki byggður á fjárhagsstöðu og þjónustustigi þeirra árið 2003 heldur árið 2023.

 

Georg Brynjarsson
formaður Heimis,
félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024