Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 21. mars 2002 kl. 13:51

Jákvæð þróun í Garðinum

Eftir nokkra stöðnun í byggingaframkvæmdum síðustu ár hefur á síðustu misserum orðið um mjög jákvæða þróun að ræða í Garðinum.
Má þar nefna að Búmenn eru að byggja í Út-Garðinum og hafa þegar afhent fjórar íbúðir. Í sumar verða afhentar 6 til viðbótar og gert er ráð fyrir að afhenda síðan 4 um næstu áramót. Hér er um mjög gott framtak að ræða undir forystu Ásgeirs Hjálmarssonar. Mikill áhugi er fyrir að komast í þessar íbúðir.Bragi Guðmundsson hefur byggt nokkrar íbúðir í Lindartúni, Hjalti Guðmundsson byggði íbúðir að Silfurtúni og Húsabygging hefur byggt nokkur hús í Fríholti, Þá hafa nokkrir einstaklingar byggt og eru að byggja einbýlishús og verulegur áhugi er fyrir lóðum. Eins og fram hefur komið eru byggingaleyfisgjöld mjög lág í Garðinum og hefur það örugglega haft sitt að segja til að auka eftirspurn eftir lóðum.
Fyrirtæki hafa verið að stækka hjá sér og fyrir liggur að Samkaup ætlar sér að hefja byggingu nýs verslunarhúsnæðis hér í Garði.
Búið er að bjóða út byggingu 10 íbúða fyrir aldraða í nágrenni Garðvangs. Hér er um mjög jákvætt framtak að ræða, og mikill áhugi meðal eldri borgara að nýta sér þennan möguleika á leiguhúsnæði.
Allir þessir þættir sýna að jákvæð þróun er að eiga sér stað í Garðinum.

Átak í gatnagerð og gangstéttum.

Eins og lesendur Víkurfrétta hafa eflaust tekið eftir í síðasta blaði er auglýst útboð á vegum Gerðahrepps hvað varðar gatnagerð og lagningu gangstétta. Fulltrúar F-listans fluttu tillögu í hreppsnefnd að gert yrði stórátak í þessum málum á næstu árum þ.e. 2002-2006.
Gert er ráð fyrir að ljúka að malbika allar götur sem enn hafa ekki malbik, varanlegt slitlag verður lagt á afleggjara. Stórátak verður gert í lagningu gangstétta. Framkvæmdir hefjast í vor.
Það hefur verið mjög jákvætt að fá að taka þátt í öllu uppbyggingastarfi, sem fram hefur farið í Garðinum á síðustu árum. Framundan eru jákvæðir tímar í Garðinum ef rétt verður haldið á spilunum. Við sem stöndum að F-listanum vonum að kjósendur séu tilbúnir að veita okkur áfram forystu til að vinna að framfaramálum Garðsins.Framfarasinnaðir kjósendur styðja F-listann.

Sigurður Jónsson
Sveitarstjóri Garði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024