Jafnræði í uppbyggingu iðnaðarsvæða
Uppbygging á iðnaðarsvæðinu í Helguvík skiptir miklu máli til að skjóta nýjum og traustum stoðum undir atvinnulíf á Suðurnesjum til framtíðar. Á síðustu árum höfum við gert fjárfestingarsamninga um bæði álver og kísilver á svæðinu og þó tafir hafi af ýmsum ástæðum orðið á verkefnunum er ég þess fullviss að af þeim verður.
Við látum hvorki breytt eignarhald á HS Orku né annað stöðva þessi mikilvægu verkefni. Vonandi ljúka Norðurál og orkufyrirtækin samningum innan skamms. Þá fer mikil uppbygging af stað og áríðandi að innviðir á hafnarsvæðinu séu til staðar.
Í því sambandi skiptir aðkoma ríkisins að uppbyggingu innviða á svæðinu miklu máli, þ.e. hafnarmannvirkjum og vegagerð. Þar skal umfram allt ríkja jafnræði, lagalegt og pólitískt á milli landsvæða og einstakra iðnaðarsvæða. Óháð staðsetningu þeirra.
Því gerum við sem unnið höfum um árabil að uppbyggingu í Helguvík skýlausa kröfu um það nú þegar samningar hafa verið gerðir vegna stóriðjuuppbyggingar á Bakka við Húsavík að ríkisvaldið komi með sambærilegum hætti að uppbyggingu innviða á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Nú þegar hafa fjárfestingarsamningar verið gerðir vegna verkefnanna en eftir stendur að ljúka samningum um aðkomu ríkis að höfninni og vegagerð.
Jafnræðið hefur nú þegar verið staðfest af ríkisstjórn sem hefur falið fjármálaráðherra að gera samning við sveitarfélögin á Suðurnesjum vegna ívilnana um höfn og vegi. Þetta skiptir miklu máli enda verulegir fjármunir í húfi við uppbyggingu innviðanna.
Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra, hefur eins og Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar lýst því afdráttarlaust yfir að jafnræði skuli ríkja á milli landsvæða og iðnaðarsvæða. Því eru samningarnir í góðum höndum, enda búið að greina hvað þarf að gera á svæðinu en sú vinna var sett af stað fyrir tæpu ári af þáverandi fjármálaráðherra Oddnýju Harðardóttur.
Jafnræði, pólitísku og lagalegu, um aðkomu ríkisins að gerð innviða á iðnaðarsvæðinu mun undirritaður fylgja fast eftir og var forsenda stuðnings okkar þingmanna Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi við frumvörp atvinnuvegaráðherra um ívilnanir vegna stóriðju þeirrar sem ráðherrann boðar nú á Bakka. Slíkt jafnræði er grundvallaratriði í allri ívilnun hins opinbera að uppbyggingu í atvinnulífi landsins.
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar.