Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Jafnast 40 ára gamalt gagnfræðapróf á við háskólamenntun?
Föstudagur 27. ágúst 2010 kl. 11:54

Jafnast 40 ára gamalt gagnfræðapróf á við háskólamenntun?


Á fundi sínum 11. ágúst sl. ákvað stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum að ráða Björk Guðjónsdóttur,  fyrrverandi alþingismann og bæjarfulltrúa í starf verkefnisstjóra sem auglýst var á vef sambandsins 7. júlí sl. og í Víkurfréttum 8. júlí. Samkvæmt auglýsingu voru þær hæfniskröfur sem fyrstar voru nefndar, háskólamenntun sem nýttist í starfi, en hlutverk verkefnastjóra verður að sjá um menningarsamning og vaxtasamning ríkisins og sveitarfélaganna á Suðurnesjum og eiga að vera lyftistöng fyrir menningar- og atvinnulíf hér á svæðinu. Hvergi var minnst á reynslu sem nýttist í starfi, sem gæti hugsanlega komið í stað háskólamenntunar. Á vef Alþingis er í æviágripi Bjarkar tilgreint: Gagnfræðapróf Keflavík 1970.


Ég var einn umsækjenda, með B.A. próf í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og diplómu í opinberri stjórnsýslu. Mér var tilkynnt með bréfi í byrjun þessa mánaðar að sambandið hafi ekki getað orðið við umsókn minni. Gott og vel, þannig er gangurinn. Hins vegar átti ég ekki von á því að menntun yrði gefið langt nef með þessum hætti.
Á Suðurnesjum hefur á undanförnum árum verið unnið markvisst að því að auka menntunarstigið á svæðinu, m.a. með uppbyggingu háskólasamfélags á Ásbrú. Mér finnst því skjóta skökku við að stjórnsýslustofnun sem gætir hagsmuna allra sveitarfélaga á Suðurnesjum skuli ráða í starf með þessum hætti.
Björk Guðjónsdóttur þekki ég hins vegar að góðu einu og óska henni velfarnaðar í starfi.

Svanhildur Eiríksdóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024