Já, ég er bæði sár og reiður!
- Hannes Friðriksson skrifar
Hún er döpur niðurstaðan sem í dag birtist íbúum Reykjanesbæjar. Tveggja ára erfiðri baráttu við að ná tökum á skuldasöfnun meirihluta þeirra Árna Sigfússonar, Böðvars Jónssonar og sjálfstæðismanna er lokið. Reykjanesbær og íbúar hans fara nú undir fjárhagsstjórn eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga. Það er hlutskipti sem enginn vildi. Ábyrgð þeirra er skuldunum söfnuðu er mikil, þó nánast öruggt megi teljast að þeir hinir sömu vilji hvorki við hana kannast eða taka hana á sig.
Við munum nánast örugglega á næstu dögum heyra úr herbúðum íhaldsins tal um uppgjöf og að þrátt fyrir allt hefði mátt ná samningum við kröfuhafana. Að þeir hefðu getað gert betur og bjargað fjármálum bæjarins sem þeir lögðu sjálfir í rúst. Að lengja hefði mátt í lánum og senda skuld íhaldsins næstu tugi ára fram í tímann. Að skuldir feðranna yrðu þar með skuldir barnabarna þeirra er á málum hafa haldið. Það telja þeir ábyrgt.
Það er alvarlegt mál fyrir sveitarfélag þegar það missir stjórn á fjármálastjórn sinni. Ákvarðarnir er varða fjárhagslegar skuldbindingar flytjast þá yfir til eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga, sem hefur það að aðalmarkmiði að ná niður skuldum óháð þeirri þjónustu sem veitt er og telst utan lögbundinna verkefna. Það er líka alvarlegt fyrir íbúa bæjarins sem vegna fjármálaóstjórnar meirihluta undanfarinna ára að þurfa greiða aukin álög í formi flestra þeirra opinberu gjalda sem á eru lögð.
Það er þó enn alvarlegra að vita að til þessa þurfti aldrei að koma. Vísbendingar um að svona kynni að fara hafa verið í ársreikningum bæjarins í allt frá árinu 2007, er bent var á hvert stefndi bæði hvað varðar Eignarhaldsfélagið Fasteign, og óarðbæran fjáraustur til hafnarframkvæmda í Helguvík. Þeim ábendingum var svarað af fulltrúum meirihluta sjálfstæðismanna með hroka Tortólatöffarans. Ég á þetta, ég má þetta, og bent á að þeir sem um fjölluðu vissu lítið um málið, væru neikvæðir og hefðu ekki hugmynd um viðskiptalegar forsendur. Áfram var haldið með möntruna um að meirihluti íhaldsins í Reykjanesbæ væru þeir einu sem með peninga kynnu að fara þannig að upp byggðist blómlegt samfélag. Bitur sannleikurinn kemur nú óþægilega í ljós.
Niðurstaðan nú er líka alvarleg í ljósi þess að öllum er nú ljóst að meirihlutar íhaldsins undir stjórn þeirra Árna Sigfússonar og Böðvars Jónssonar hafa á óforsvaranlegan hátt hagrætt sannleikanum um árabil, þegar kemur að túlkun ársreikninga bæjarins. Galdrað fram milljarða hagnað hér og milljarða hagnað þar sem aldrei var og fengið þannig áframhaldandi traust bæjarbúa, á röngum forsendum. Allt var selt og ekkert eftir. Hvert fóru þessir milljarðar? Bókun þeirra í bæjaráði í morgun ber siðferði þeirra gott merki. Þeir vilja ekki fara fyrr en þeim verður hent út. Þeirra traust er horfið. Það hlýtur nú að vera eðlileg krafa að þeir félagar Árni Sigfússon og Böðvar Jónsson segi af sér störfum bæjarfulltrúa og frá öllum störfum sem þeir nú sinna í skjóli stöðu sinnar sem kjörnir fulltrúar.
Í kjölfar Tortólaæfinga þeirra sem áttu þetta og máttu þetta, bætist fjármálalegt fall Reykjanesbæjar nú ofan á. Krafa er uppi um breytta pólitík og gegnsæi hlutanna. Niðurstaðan nú styður þá kröfu. Við verðum að komast úr fari trúarsetninga flokkastjórnmála og í far skynseminnar. Þar sem rökræðan og virðingin fyrir almannahagsmunum verði ofar sérhagsmunum og frasakenndum framtíðarsýnum pólitíkusa sem engu eyra og ekkert virða til að gera veg sinn sem mestan. Þetta ætti að verða okkur lærdómurinn um að stjórnmál eru ekki vegna stjórnmálamannanna, heldur vegna þeirra sem þeir eiga að þjóna. Okkur íbúum þessa lands og þessa bæjar sem okkur þykir vænt um.
Já, ég er bæði sár og reiður!!. Sár og reiður vegna þess að ég er einn þeirra bæjarbúa sem borgar bæði útsvar og fasteignagjöld og ber kostnaðinn af fjármálaóstjórn fyrrum meirihlutum þeirra Árna Sigfússonar og Böðvars Jónssonar undir merkjum sjálfstæðismanna í bænum. Ég er líka bæði sár og reiður vegna þeirra fjölmörgu sem ekki geta nú verið öruggir með að sú góða þjónusta er bærinn hefur veitt að undanförnum árum haldist.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson