Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Íþróttir og samfélagið
Föstudagur 4. mars 2022 kl. 06:47

Íþróttir og samfélagið

Íþróttir eru að einhverju leyti órjúfanlegur hluti af daglegu lífi okkar flestra sem búum í Reykjanesbæ. Allt frá barnæsku til elliára fylgjumst við með ungum sem öldnum í keppni og leik. Við fyllumst stolti yfir íþróttasigrum okkar landsliða á erlendri grundu og hvetjum yfirleitt börn og barnabörn til að hefja snemma íþróttaiðkun. Heilbrigð sál í heilbrigðum líkama.

Reykjanesbær styrkir íþróttafélögin verulega og foreldrar geta sótt um hvatagreiðslur fyrir börnin til að auðvelda íþróttaiðkun. Rúmlega 1.100 milljónir fara í rekstur mannvirkja og til stuðnings íþróttafélaga á hverju ári. Á síðustu árum hafa framlög sveitarfélagsins í formi afrekssamninga, þjálfarastyrkja og stuðningsgreiðslna aukist verulega. Nýr gervigrasvöllur og væntanlegt íþróttahús í Innri-Njarðvík bæta aðstöðuna verulega.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En af hverju er ég að nefna þetta hér? Vegna þess að þessa dagana fara fram aðalfundir hinna ýmsa deilda íþróttafélaga í Reykjanesbæ þar sem skýrslur stjórna og ársreikningar eru lagðir fram fyrir félagsmenn. Sameiginlegt er þessum deildum að staðan er erfið, skortur á fjármagni og áhugi hins almenna borgara ekki mjög mikill. Fáir mæta á aðalfundina, yfirleitt þeir sömu og venjulega.

Sjálfboðaliðar halda uppi starfi íþróttafélaga í öllum sveitarfélögum og yfirleitt eru þetta sömu einstaklingarnir ár eftir ár. Ég hef sjálfur verið formaður, þjálfari, sjálfboðaliði og iðkandi og þekki því vel báðar hliðar og velti því oft fyrir mér hversu óeigingjarnt starf sem þessir ágætu menn og konur leggja á sig og hvenær er nóg komið. Í þessu starfi brennur fólk hratt upp.

Reykjanesbær þarf að auka samstarfið við íþróttahreyfinguna, horfa til framtíðar með uppbyggingu innviða og ekki síst hvetja samfélagið til að taka virkari þátt í starfinu. Mætum á fundina, verum sýnileg og styðjum íþróttahreyfinguna til góðra verka í framtíðinni. Hættum því að tala um styrki og tölum um samstarf og samninga. Íþróttahreyfingin á það skilið, því hvar værum við án hennar.

Friðjón Einarsson,
formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar.