Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Íþróttastórveldið Reykjanesbær!
Fimmtudagur 28. apríl 2022 kl. 10:15

Íþróttastórveldið Reykjanesbær!

Alexander Ragnarsson,
skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.


Hörð barátta og mikill rígur á milli íþróttafélaga er rótgróin hefð í Reykjanesbæ enda félögin Njarðvík og Keflavík fornir fjendur sem fulltrúar sveitarfélaganna tveggja fyrir sameiningu. Sögulegur árangur þessara félaga er eftirtektarverður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Með sameiningu sveitarfélaganna þriggja; Hafna, Keflavíkur og Njarðvíkur, varð sú breyting á að þessir fornu fjendur eru saman undir Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar (ÍRB) ásamt öðrum íþróttafélögum í bænum. Við, sem bjóðum okkur fram til starfa fyrir Reykjanesbæ, gegnum því hlutverki að verja og bæta hag allra íþróttagreina og félaga innan ÍRB og þar má gera betur.

Innan íþróttahreyfingarinnar eru gerðar ríkar kröfur til fagmenntunar þjálfara, ábyrgrar stjórnunar í félögunum og deildum innan þeirra. Við sjálfstæðismenn ætlum að tryggja fjölbreytt framboð íþróttagreina þannig að flestir geti stundað grein við sitt hæfi, bæði ungir og aldnir.

Aðstöðuleysi

Í Reykjanesbæ hefur alltaf ríkt mikill metnaður til að skara fram úr og gerir enn. Við höfum bara ekki þá aðstöðu sem til þarf til að geta verið á þeim stalli sem við viljum vera. Í dag er aðstaða íþróttahreyfingarinnar engan veginn nálægt því að geta þjónað þörfum hennar. Þetta þekkja iðkendur og starfsfólk félaganna best.

Við sjálfstæðismenn munum, ef við fáum til þess umboð í komandi kosningum, hefja viðræður við alla hagaðila innan ÍRB um uppbyggingu íþróttamannvirkja og í framhaldi setja fram skýra forgangsröðun um þá uppbyggingu og tímasettan aðgerðalista í góðu samstarfi við hagaðila.

Einnig höfum við sjálfstæðismenn komið fram með þá hugmynd að bjóða lóð undir þjóðarleikvang í sveitarfélaginu. Þjóðarleikvangur í bænum hefði mikil og jákvæð áhrif á áhuga fólks á íþróttum almennt. Sú hugmynd okkar hefur fengið mjög góðar viðtökur.

Það gerist ekkert af sjálfu sér!

Mannvirkin eru eitt og innra starf hreyfingarinnar er annað og ekki síður mikilvægt. Án öflugs innra starfs getur íþróttahreyfingin ekki sinnt því mikilvæga hlutverki sem hún gegnir. Það þarf mikinn fjölda öflugs fólks í vinnu við hvern leik, fjáröflun og aðra viðburði. Í dag er nánast eingöngu treyst á sjálfboðaliða til að sinna þessu innra starfi í hreyfingunni. Það verður alltaf erfiðara og erfiðara að manna verkefnin með þeim hætti og kröfur til stjórnenda í íþróttahreyfingunni því alltaf að aukast. Við munum því auka stuðning við íþróttahreyfinguna og tryggja henni fleiri stöðugildi. Mannauðurinn; iðkendur, starfsfólk og sjálfboðaliðar í íþróttahreyfingunni, er fjárfesting til framtíðar fyrir Reykjanesbæ og mun skila sér margfalt til baka í betra samfélagi. Íþróttahreyfingin á alltaf undir högg að sækja þegar kemur að útdeilingu fjármuna og þessu ætlum við Sjálfstæðismenn að breyta. Aðeins þannig verðum við í Reykjanesbæ áfram stórveldi í íþróttum.

Við boðum breytingar.