Íþróttaakademían – Geir Sveinssyni svarað
Vegna ágætrar greinar Geirs Sveinssonar sem birtist í jólablaði Víkurfrétta 14. desember vil ég að eftirfarandi komi fram. Í bréfi því sem ég ber fulla ábyrgð á og birtist í Víkurfréttum 7. desember er alls ekki verið að setja út á þá næringarfræðikennslu sem nemendur Íþróttaakademíu Reykjanesbæjar njóta því eins og Geir réttilega bendir á að þá hafa verið ráðnir þar til starfa vel menntaðir og hæfir einstaklingar. Það sem hins vegar er sett út á er það að akademían sé að kalla til aðila sem hafa enga menntun í næringarfræði og þeir fengnir til að fræða almenning. En svo ég ítreki mína skoðun að þá tel ég að skóli sem starfar á háskólastigi eigi að bjóða upp á og miðla þekkingu til amennings þar sem ýtrustu kröfum til þekkingar á viðfangsefninu er krafist af viðkomandi ”fræðara”. Ef það að vilja að ýtrustu kröfum sé sinnt til miðlun þekkingar sé merki um það að ég sé fordómafullur, eins og Geir ýjar að í grein sinni, að þá verð ég bara að sætta mig við það. Þá er ég fordómafullur!
Ef það á að heita að vera fordómafullur þegar gagnrýnt er að aðili sem kemur fram undir nafni Íþróttaakademíunnar varpi fram fullyrðingu eins og þeirri að sykur sé hættulegt fíkniefni og því jafnvel líkt við heróín og kókaín, þá sætti ég mig fyllilega við að vera talinn fordómafullur.
Ef það á að heita að vera fordómafullur þegar gagnrýnt er að aðili sem kemur fram undir nafni Íþróttaakademíunnar varpi fram fullyrðingu eins og þeirri að gervisætuefnið aspartame sé verulega eitrað fyrir taugakerfið og geti m.a. valdið blindu, sjóntruflunum, o.s.frv., þá sætti ég mig fyllilega við að vera talinn fordómafullur.
Ef það á að heita að vera fordómafullur þegar gagnrýnt er að aðili sem kemur fram undir nafni Íþróttaakademíunnar varpi fram fullyrðingu eins og þeirri að forðast eigi að neyta mjókur og mjólkurafurða vegna óhollustu mjólkur, þá sætti ég mig fyllilega við að vera talinn fordómafullur.
Ég tel engum greiði gerður með því að halda algjörlega ósönnuðum hræðsluáróðri að fólki. Enda tel ég það meðal annars geta aukið líkur á því að fólk sé alltaf með samviskubit þegar það er að gæða sér á eða bjóða upp á eitthvert “góðgæti”. Eða hugsið ykkur það samviskubit, sem hellst getur yfir foreldri sem trúir því að sykur sé fíkniefni, þegar það býður barni sínu upp á jólakökusneið eða skenkir því jóladrykkinn íslenska - malt og appelsín.
Að sjálfsögðu hafna ég alfarið þeim orðum Geirs þar sem hann ýjar að því að umfjöllun mín sé til komin vegna illkvitni minnar og rætni í garð Íþróttaakademíunnar. Því þvert á móti vil ég veg Íþróttaakademíunnar sem mestan.
Að lokum vil ég óska Suðurnesjamönnum öllum gleðilegra jóla með lítilli jólakveðju:
Allt hefur sinn tíma, stund sem og stað.
Stundum er glaðst, stundum beygt af.
Líður að jólum þökkum við það
frelsarans líf sem Faðirinn gaf.
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur.
Grein Geirs Sveinssonar er hér!