Íþrótta- og tómstundastefna Reykjanesbæjar
Öll börn og ungmenni eiga að fá tækifæri til að stunda skipulagt íþróttastarf undir leiðsögn þjálfara og stunda íþróttir óháð fjölskylduaðstæðum. Einnig er mikilvægt að börn kynnist fjölbreyttum íþróttagreinum og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Hlutverk foreldra er líka afar mikilvægt. Stuðningur, hvatning og aðhald er undirstaðan sem þau þurfa til að blómstra og þessi nálgun er talin hafa jákvæð áhrif á þroska barnsins.
Æfingatími barna er misjafn og er mikilvægt að íþróttir og tómstundir miði við hefðbundið skólastarf hjá börnum. Dagarnir eru oft langir og samþætting skóla og íþróttastarfs er eitthvað sem þarf að skoða í þeirri stefnumótunarvinnu sem er framundan.
Það eru ekki allir foreldrar í þeirri aðstöðu að geta skutlað á æfingu á vinnutíma og margir óska eftir því að frístundaskólinn bjóði upp á þessa þjónustu. Það er mikilvægt að skoða samþættingu skóla- og íþróttastarfs og létta þannig undir því álagi sem foreldrar glíma við. Þarna erum við aftur komin að þeim punkti að börn geti stundað íþróttir óháð fjölskylduaðstæðum.
Á næstu mánuðum er umfangsmikil stefnumótunarvinna að fara af stað og mun íþrótta- og tómstundaráð leggja mikla áherslu á að vinna saman, þvert á alla flokka, vinna sem heild og umfram allt gera þarfagreiningu í takt við þær breytingar sem hafa átt sér stað á síðastliðnum árum. Við munum vinna með íþróttafélögunum og fá álit fagmanna á þessu sviði.
Uppi eru óskir um bætta æfingaaðstöðu fyrir knattspyrnuiðkun, bæði í Keflavík og Njarðvík, framtíðaraðstöðu fyrir körfuknattleik hjá UMFN, stuðning við innra starf félaganna og þannig mætti lengi telja. Vænlegast til árangurs er að leggja ekki af stað í langferð nema að undirbúningurinn sé góður og allar forsendur á hreinu, þannig viljum við vinna. Í lokin verður afurðin heildstæð íþrótta- og tómstundastefna Reykjanesbæjar sem inniheldur framtíðarsýn um uppbyggingu íþróttamannvirkja í bæjarfélaginu.
Eva Stefánsdóttir,
formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar