Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Ísland utan ESB
Þriðjudagur 14. apríl 2009 kl. 10:31

Ísland utan ESB

Á óvissutímum myndast frjór jarðvegur fyrir nýjar hugmyndir og eftirspurn er í samfélaginu  eftir fólki sem leggur fram lausnir. Háværir aðilar hafa að undanförnu haldið því fram að aðild að ESB sé eina lausnin á efnahagsvanda þjóðarinnar.

Öll umræða um aðild að ESB að undanförnu snýst í raun um gjaldmiðilsmál. Staða krónunnar er veik og því eðlilegt að fólk velti fyrir sér hvaða stefnu eigi að taka varðandi framtíð gjaldmiðilsins. En staðreyndin er sú að til að geta tekið upp Evru með aðild að ESB þurfum við að uppfylla Maastricht-skilyrðin sem eru fimm:

    •    Að verðbólga sé ekki meiri en 1,5 prósentustigum meiri en verðbólga í þeim þremur ESB-löndum sem eru með lægsta verðbólgu
    •     Að vextir séu ekki meira en 2 prósentustigum hærri en vextir í þeim þremur ESB-löndum sem eru með lægsta verðbólgu
    •    Halli á fjárlögum má ekki vera meiri en 3% af landsframleiðslu
    •    Heildarskuldir ríkissjóðs ekki meiri en 60% af landsframleiðslu
    •    Að landið hafi tekið þátt í gengissamstarfi Evrópu (ERM) í tvö ár án gengisfellingar og að gengið sé innan vikmarka

Það er augljóst að Ísland uppfyllir ekki þessi skilyrði núna og er langt frá því. Vextir og verðbólga eru hærri hér en annars staðar í Evrópu og þrátt fyrir að ríkissjóður hafi verið rekinn með miklum afgangi á liðnum árum er ljóst að 150 milljarða halli er á rekstri ríkissjóðs þetta árið. Skuldastaða íslenska ríkisins var afar hagstæð eftir að stjórnvöld greiddu niður skuldir ríkissjóðs en ljóst er að mikil breyting hefur orðið þar á vegna efnahagshrunsins. ??Ég tel flesta sammála því að stefnt skuli að því að uppfylla Maastricht-skilyrðin enda eru þau í raun almenn lýsing á heilbrigðu hagkerfi þar sem vextir eru lágir sem og verðbólgan, þar sem skuldastaða ríkissjóðs er hagstæð, hann vel rekinn og gengið traust. Ljóst er að það tekur tíma að leiða íslenskt efnahagslíf að þeim punkti frá deginum í dag og fyrirsjáanlegt að við munum búa við krónuna næstu misserin. Stjórnvöld verða því að einhenda sér í að einbeita sér að því verkefni að byggja upp efnahagslífið í stað þess að slá ryki í augu kjósenda með fullyrðingum  um efnahagslegar Evru- skyndilausnir.  

Sjálfstæðisflokkurinn ítrekaði þá afstöðu sína á nýafstöðnum landsfundi að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Yfirriráð yfir auðlindum Íslands verða ekki gefin eftir til annara þjóða og standa ber vörð um innlenda matvælaframleiðslu.

Aðild að Evrópusambandinu er því ekki sú töfralausn sem haldið er fram. Slík töfralausn er ekki til heldur þurfum við öll að leggjast á eitt við að vinna okkur út úr ástandinu. Það verður ekki ESB sem mun leysa efnahagsvanda Íslands heldur einstaklingarnir sem landið byggja með bjartsýni, dugnað og framtak að vopni.

Unnur Brá Konráðsdóttir


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024