Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

ISAVIA íþróttahöll í Reykjanesbæ
Miðvikudagur 23. maí 2018 kl. 09:13

ISAVIA íþróttahöll í Reykjanesbæ

Í Reykjanesbæ býr almennt harðduglegt fólk sem leggur hart að sér við að afla sér og sínum viðurværis og viðurkenningar. Sögulega séð hefur hér verið rekið samfélag langra vinnustunda og afreka á tónlistar- og íþróttasviðum. Að sama skapi hafa Suðurnesin verið lágmenntasvæði sem hefur ekki notið jafnræðis við úthlutun fjármuna ríkisvaldsins til samfélagslegra verkefna er varða menntun, heilbrigði og öryggi samfélagsins.
 
Viðvera varnarliðsins var talin ein skýring lágra fjárframlaga enda þótt héðan kæmu fáir hátt settir yfirmenn en meginþorri almenns vinnuafls. Herinn fór þó án þess að staða sveitarfélagsins breyttist. Nú er litið til uppgangs Isavia og flugtengdrar starfsemi til að skýra lág framlög til svæðisins, t.d. til heilbrigðismála, löggæslu og brunavarna en einnig menntamála.
 
Íþróttir hafa alla tíð skipað mikilvægan sess í huga íbúa hér og afrek þar á stundum verið stór hluti sjálfsmyndar íbúa bæjarins. Núverandi bæjarstjórn hefur á kjörtímabilinu barist við gríðarlegan fjárhagsvanda en hefur þrátt fyrir það stutt við bæði íþróttir og barnafjölskyldur með hvatagreiðslum til íþróttaiðkunnar og þjálfarastyrkjum til íþróttafélaganna. 
Í kosningabaráttu er alltaf að finna fleiri framboð sem tilbúin eru til að eyða peningum en að spara þá. Frjálst afl leggur mikla áherslu á að verja peningum bæjarins með ábyrgum hætti til þess að þeir geri sem allra mest gagn.  Jafnframt gerir Frjálst afl sér grein fyrir því að óskir íþróttafélaganna um betri æfinga- og keppnisaðstöðu eru orðnar skerandi háværar, og raunverulegar.
 
Frjálst afl hyggst halda áfram hvatagreiðslum til foreldra og styrkja þjálfun barna þeirra en auk þess leita allra leiða til bæta úr vöntun á íþróttamannvirkjum. Ein leiðin er að virkja samfélagslega ábyrgð Isavia, stærsta vinnuveitandans á svæðinu. Starfsemi Isavia hefur aukið álagið á alla helstu innviði svæðisins án þess þetta opinbera hlutafélag taki á nokkurn hátt þátt í þeim útgjöldum og erfiðleikum sem fólksfjölgun hefur kallað á. Ekki frekar en ríkisvaldið sjálft sem áfram lítur á Suðurnesin sem einhvers konar meðfærilegt olnbogabarn eða afgangsstærð.  Finna þarf leið til að draga þessa aðila báða að samningaborðinu og fá þá til að axla sanngjarna ábyrgð í Reykjanesbæ. Hver veit nema afraksturinn verði fyrirsögn greinarinnar.
 
Jóhannes A. Kristnjörnsson
10. sæti á lista hjá Frjálsu afli
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024