Isavia býr til ný láglaunastörf á Suðurnesjum!
Kristján Jóhannsson, formaður FFR, skrifar.
Isavia er í 100% eigu íslenska ríkisins. Alþingi kýs stjórn þess. Kjararáð ákvarðar laun forstjórans. Engin innkaup nema í gegnum Ríkiskaup og fyrirtækið er þess heiðurs aðnjótandi að færa eiganda sínum 700 milljón króna arð á þessu ári af hagnaði sínum árið 2014.
Isavia er skilgreint sem opinbert hlutafélag, ohf.
Það var snildarráð einhvers lögfræðings í þjónustu ríkisins á ofanverðri síðustu öld að koma ríkisfyrirtækjum fram hjá starfsmannalögum ríkisins með því að skeyta þessu O-i fyrir framan hf-ið Þar með gátu þessi ríkisfyrirtæki eins og Rarik, Matís og Isavia nefnilega skilgreint sig sem fyrirtæki á almennum markaði og komist fram hjá því að uppfylla skyldur sínar gagnvart starfsmönnum, sem þó, svona rétt á meðan að þessi umskipti áttu sér stað, var lofað öllu fögru hvað varðar gömlu réttindin. En það er önnur saga.
Isavia er stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða, með yfir 800 starfsmenn sem ýmist starfa hjá móðurfyrirtækinu eða dótturfélögum þess. Lang stærsti hluti starfseminnar fer fram á Keflavíkurflugvelli.
Um 320 starfsmenn Isavia eru félagsmenn í Félagi flugmálastarfsmanna ríkisins. FFR, sem er nærri 70 ára gamalt stéttarfélag og hefur enn ekki talið þörf á að uppfæra heiti sitt. Kennir sig enn við ríkið. Félagið var stofnað í tengslum við flugvallarstarfsemi ríkisins á sínum tíma og enn rekur ríkið flugvelli landsins þrátt fyrir nafnabreytingar og kennitöluflakk síðustu áratuga.
FFR ásamt SFR - Stéttarfélagi í almannaþjónustu og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna stóð í hörðum deilum um kaup og kjör félagsmanna sinna sem starfa hjá Isavia fyrri hluta árs 2014. Samningar tókust eftir þrjár verkfallslotur í apríl s.l.
Skrifað var undir kjarasamning 29. apríl 2014 til þriggja ára. Sá kjarasamningur tekur til allra almennra starfa á flugvöllum landsins s.s. viðbragðs- og slökkviþjónustu, öryggisgæslu, flugstjórnarmiðstöðinni, viðhald húsnæðis og flugbrauta, almennra skrifstofustarfa o.fl. Frá upphafi þess að farið var að aka með flugfarþega í rútum frá flugstöð að flugvélum hafa félagsmenn ofangreindra stéttarfélgafélaga starfað við það samhliða öðrum störfum á flugvellinum. Hafa félögin og Isavia ohf. samið sérstaklega um laun fyrir þessa starfsemi.
Nú bregður svo við að ríkisfyritækið Isavia hyggur á breytingar á rútuakstri á Keflavíkurflugvelli og nú á að stofna sérstaka deild utan um þann rekstur. Ráða á sérstaka starfsmenn í rútubíladeildina en samhliða akstri rútubíla eiga starfsmenn að sinna garðslætti og almennum þrifum kringum Flugstöðina.
Fjölgun starfa á Suðurnesjum er ætíð gleðiefni, sérstaklega fjölgun starfa á meðal þeirra sem best eru launuð á flugvellinum. Er sú launahækkun ávöxtur elju starfsmanna og stéttarfélaga þeirra við að gæta hagsmuna sinna félagsmanna.
Mér þætti ótrúlegt ef einhver núverandi starfsmanna Isavia eða félagsmaður í áðurnefndum stéttarfélögum sækti um í þessari nýju deild eftir að ríkishlutafélagið hefur ákveðið að lækka laun fyrir þau störf frá því sem nú er.
Til að komast hjá því að greiða væntanlegum starfsmönnum eftir nýgerðum kjarasamningi FFR/SFR og LSS við Samtök atvinnulífsins grefur Isavia ofan í glatkistur gamalla kjarasamninga og finnur samning sem einhvern tíma var gerður á milli SA og ASÍ og tekur til rútuaksturs einhvers staðar og gefur ríkisfyrirtækinu færi á að greiða umtalsvert lægri laun fyrir sömu vinnu og unnin hefur verið um árabil.
Undraorðið er að stofna nýja deild um rútuakstur, ráða nýtt fólk inn á nýjum samningi. Tilgangurinn: Að græða nokkrar krónur. Skítt með starfsmannaveltuna! Manni koma í hug ljóðlínur Hannesar Hafsteins í þessu samhengi: „Alltaf má fá annað skip og annað föruneyti”.Vafalaust löglegt en í hæsta máta siðlaust, svo ekki sé meira sagt, smekklaust af ríkinu að fara fram með þessum hætti við að efla atvinnustarfsemi á landsvæði sem þolað hefur mátt samdrátt í atvinnu í áraraðir.
Það, að ganga fram hjá starfsmönnum og stéttarfélögum þeirra í von um sparnað upp á nokkrar krónur er ekki nokkru fyrirtæki sæmandi.
Ég geri þá kröfu til alþingismanna sem kjósa þessu ríkisfyrirtæki stjórn, svo ekki sé talað um handhafa eina hluthafabréfisins, fjármálaráðherra, að krefjast þess af stjórn Isavia ohf. að láta af slíkum græðgishugsjónum sem bitna einungis á starfsmönnum og afkomu þeirra.
Hér mætti rifja upp ummæli fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, sem sagði við annað tækifæri „Svona gera menn ekki”!
Reyndar er full ástæða fyrir alþingismenn að endurskoða lagaklausu um opinber hlutafélög og spyrja: Er einhver almennilegur tilgangur með OHF annar en að geta farið sínu fram gagnvart starfsmönnum?
Kristján Jóhannsson
Formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins