Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Íris sækist eftir 4. sæti Sjálfstæðisflokks
Miðvikudagur 18. febrúar 2009 kl. 11:42

Íris sækist eftir 4. sæti Sjálfstæðisflokks

Íris Róbertsdóttir, grunnskólakennari í Vestmannaeyjum,  gefur kost á sér í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Margir málsmetandi einstaklingar í Sjálfstæðisflokknum - bæði foringjar og fótgönguliðar - hafa lýst þeirri skoðun að það sé nauðsynlegt fyrir flokkinn að mikil endurnýjun eigi sér stað á framboðslistum hans til Alþingiskosninganna 25. apríl næstkomandi. Það sé ekki vegna þess að núverandi þingmenn hafi endilega staðið sig illa heldur sé flokkurinn marinn og móður eftir hremmingarnar í þjóðfélaginu síðustu misseri. Við þær aðstæður sé nauðsynlegt að ákveðin endurnýjun verði í framvarðasveit flokksins og hann blási til nýrrar sóknar, ferskur og framsækinn,  í kosningum í vor.

Þessum sjónarmiðum er ég sammála. Þess vegna gef ég kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem ákveðið hefur verið laugardaginn 14. mars næstkomandi.

Við þurfum að vinna okkur hratt og örugglega út úr þeim vanda sem við höfum
komið okkur í - og læra af mistökunum. Það á að auka okkur bjartsýni að þessi vandi er fyrst og fremst í yfirbyggingunni og það er auðveldara að fást við slíkt ef undirstöðurnar eru í lagi. Við erum vonandi búin að læra það í eitt skipti fyrir öll að þjóðin lifir ekki á því einu að menn skiptist á pappírum í fjármálafyrirtækjum í Reykjavík.

Margar helstu undirstöðurnar fyrir framtíðar hagsæld á Íslandi er að finna í ríkum mæli í Suðurkjördæmi:
 
 - öfluga sjávarútvegsbæi þar sem mörg sterkustu fyrirtæki landsins í þeirri grein eru staðsett.

-  blómlegustu landbúnaðarhéruð landsins í námunda við stærsta markaðssvæðið.

 - ómælda orku í vatnsföllum og jarðhita sem getur orðið grundvöllur fyrir
   margþættri iðnaðaruppbyggingu, þ.m.t. stóriðju.

 - ótæmandi möguleika í þjónustu við ferðamenn - ekki síst erlenda - sem  hafa nánast allir sinn fyrsta og síðasta viðkomustað í okkar kjördæmi. Hér gegna bættar samgöngur lykilhlutverki, m.a.  tvöföldun Suðurlandsvegar milli Reykjavíkur og Selfoss og stórbættar samgöngur á sjó milli lands og Eyja með tilkomu Landeyjahafnar.

 - vannýttar auðlindir á borð við hreint drykkjarvatn, sem í útflutningi njóta góðs af nálægð við góða hafnaraðstöðu.

Allt þetta felur í sér fyrirheit um bjarta framtíð fyrir okkar kjördæmi og raunar landið allt. Það er mín sannfæring að þessi tækifæri verði best nýtt með því að láta grunngildin í stefnu Sjálfstæðisflokksins ráða för: frelsi einstaklingsins í tryggu samfélagsumhverfi.

   
Íris Róbertsdóttir er 37 ára grunnskólakennari og kennir í Grunnskóla Vestmannaeyja. Hún útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands árið 2004 og hlaut Íslensku menntaverðlaunin árið 2006. Íris er formaður Sjálfstæðisfélags Vestmannaeyja og í stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum og kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Hún situr í Menningarráði Suðurlands og Skólanefnd Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum. Íris er gift Eysteini Gunnarsyni sjómanni og eiga þau tvö börn, Róbert Aron níu ára og Júníu tveggja ára.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024