Innrás að vestan
Við Suðurnesjamenn höfum ekki þurft að upplifa innrásir af neinu tagi. Þó er kannski komin innrás núna, reyndar í öðru formi en með stríðsvopnum og tólum. Þessi innrás kemur frá Snæfellsnesi og víðar. Það er nefnilega þannig að í Njarðvík er Skipasmíðastöð Njarðvíkur, sem er gamalgróinn slippur og hefur þjónustað fullt af bátum í gegnum árin. Slippurinn var stofnaður árið 1945 og orðinn 74 ára gamall. Þrátt fyrir að útgerð stærri báta frá Suðurnesjum hafi fækkað stórlega síðustu árin, þá er nú samt alltaf eitthvað um að vera í slippnum. Núna er til dæmis mikið um stærri báta og eins og myndin gefur til kynna sem fylgir þessum pistli. Þá má segja að innrás báta frá Snæfellsnesi sé í slippnum, því núna eru tveir bátar þaðan og þriðji báturinn liggur í Njarðvíkurhöfn.
Lítum aðeins á þessa báta og sjáum hvort það er einhver tenging við Suðurnes. Byrjum á litla bláa bátnum sem er fremstur, númer 1581. Þarna heitir hann Faxi RE og hefur ekki stundað neinar fiskveiðar undanfarin ár, því hann átti að vera í ferðaþjónustu en lítið hefur farið fyrir því. Ekki er mikil tenging við Suðurnes varðandi bátinn en þó var hann gerður út frá Keflavík frá 1984 til 1986 og hét þá Geir KE 67 og var í eigu Björns Ólafssonar.
Báturinn sem er við hliðina á honum heitir í dag Valbjörn ÍS. Hann á mjög stutta sögu varðandi Suðurnes því báturinn hét Gullþór KE 70 árið 1990 en hét það aðeins í um átta mánuði.
Stóri báturinn þar framan við Valbjörn ÍS, sem er blár á litinn, heitir Tjaldur SH og er smíðaður árið 1992. Ekki er hægt að finna neina tengingu varðandi bátinn við Suðurnes. Báturinn hefur alla sína tíð heitið Tjaldur SH.
Blái báturinn hægra megin við Tjald SH, sem sést í skutinn á, er Friðrik Sigurðsson ÁR. Mikill aflabátur. Hann hefur heitið þessu nafni síðan árið 1971 eða í 48 ár. Eins og með Tjald SH þá hefur þessi bátur aldrei verið gerður út frá Suðurnesjum.
Hægra megin við Friðrik Sigurðsson ÁR er svartur bátur og er það Steinunn SH, dragnótabáturinn sem hefur verið fjallað um í þessum pistlum. Er tenging við Suðurnes varðandi bátinn? Jú, því þessi bátur hét fyrst, eins og fram hefur komið, Arnfirðingur II GK 412 og var gerður út af Arnarvík hf í Grindavík frá janúar 1971. Báturinn strandaði í innsiglingunni til Grindavíkur í ágúst sama ár og var seldur eftir það. Þannig að já, það er smá tenging við Suðurnes við þennan bátaflota sem er í slippnum í Njarðvík núna.
Þriðji báturinn sem er frá Snæfellsnesi og liggur í Njarðvíkurhöfn. Grænn og laglegur og heitir Grundfirðingur SH, bátur sem búið er að leggja. Sá bátur var smíðaður í Garðabæ árið 1973 og hét fyrst Þorlákur ÁR. Lengst af hét sá bátur Hringur GK 18 og var lengst af gerður út frá Hafnarfirði en vandi komur sínar til Sandgerðis og Grindavíkur. Að öðru leyti hefur báturinn enga tengingu við Suðurnes því aldrei hefur báturinn verið gerður út af útgerðaraðila frá Suðurnesjum.