Innanlandsflugið til Keflavíkur
Nú hafa ekki ómerkari menn er Kristján Möller, hæstvirtur fyrrverandi samgönguráðherra lýst því yfir að lokaorustan um Reykjavíkurflugvöll sé hafin. Sýn manna á mikilvægi innanlandsflugvallar í Vatnsmýri er æði mismunandi en ekkert hefur mér þó fundist merkilegra en sú skýring sem ég heyrði í útvarpinu að samkvæmt orðum orðum ónefnds þingmanns sem byggi á Suðurnesjum væri alveg óhæft að hafa innanlandsflugið í Keflavík þar sem akstur á Landsspítalann á háannatíma í umferðinni gæti tekið allt að einni og hálfri klukkustund frá Keflavíkurflugvelli og því væri Keflavíkurflugvöllur óboðlegur fyrir sjúkraflug.
Þetta flugvallarmál er allt með hinum mestu ólíkindum. Ég er sammála því að það er algerlega óraunhæft að ætla innanlandsflugvellinum í Vatnsmýri að hverfa á þremur árum. Það er hinsvegar fullkomlega raunhæft að sjá hann fara þaðan á 8 árum eða sem nemur tveimur kjörtímabilum. Eini raunhæfi kosturinn er að flytja allt innanlandsflug til Keflavíkur, miðstöðvar flugs á Íslandi. Við þurfum að horfa til framtíðar. Keflavíkurflugvöllur er mikilvæg miðstöð alþjóðaflugs yfir Atlantshafið. Reglulega lenda stórar þotur á leið yfir hafið með veika farþega á Keflavíkurflugvelli. Þaðan er þeim ekið til Reykjavíkur. Það þykir fullboðlegt.
Sú undarlega áhersla sem er á mikilvægi sjúkraflugs í umræðunni um flugvöllinn í Vatnsmýri bendir til þess að það séu mjög fátækleg rök fyrir því að halda honum þar til framtíðar. En af hverju er öllu sjúkraflugi á Íslandi beint til Reykjavíkur? Af hverju er ekki flogið með sjúklinga til Akureyrar? Má ekki byggja upp miðstöð sjúkraflugs á Íslandi á Akureyri? Byggja þar upp góða heilbrigðisaðstöðu fyrir landsmenn alla. Þetta er höfuðstaður Norðurlands og þar er fullboðlegur innanlandsflugvöllur, örstutt á sjúkrahúsið og umferðarhnútar mjög fátíðir. Er kannski framtíðarstefna yfirvalda á Íslandi að einungis verði eitt sjúkrahús á landinu?
Á sama tíma og við deilum um innanlandsflugvöll í Vatnsmýri eru okkar birtar tölur um gríðarlega aukningu í ferðaþjónustunni. Aukningin er slík að talað er um að tugmilljaraða fjárfestingu þurfi til að standa undir henni. Það er rétt. En með því að gera Keflavíkurflugvöll að miðstöð innnanlandsflugs á Íslandi, getum við boðið ferðamönnum uppá beint tengiflug til helstu þéttbýlisstaða á Íslandi og þannig dreift ferðamönnum betur um landið allt árið um kring.
Hinn ágæti Kristján Möller mat það svo að 6.000 störf væru í uppnámi með flutningi Reykjavíkurflugvallar. Hluti þessara 6.000 starfa er velkominn til Suðurnesja. Með því að flytja sjúkraflugið til Akureyrar myndi góður hluti starfa einnig færast þangað. Með flutningi flugvallarins úr Vatnsmýri má koma upp alþjóðlegri háskólamiðstöð með sameiningu HÍ og HR sem eins fremsta háskóla heims og þannig búa til störf í Reykjavík í stað þeirra sem tapast vegna innanlandsflugsins.
Í Víkurfréttum þann 5. september síðastliðinn ritaði nýr þingmaður Suðurkjördæmis, Ásmundur Friðriksson, ágæta grein um fyrstu daga sína á Alþingi undir fyrirsögninni „Ég vil eiga við ykkur samstarf“. Ásmundur hér er opinber áskorun til þín að taka á þínar herðar forystu um að flytja innanlandsflugið til Keflavíkurflugvallar og þau störf sem því fylgja. Þú ert öllum hnútum kunnugur hjá SSS og getur með krafti þínum dregið sveitastjórnarfulltrúa á svæðinu úr bælinu og hvatt þá til dáða í þessu máli. Samþingmennina máttu svo gjarnan draga með sama hvaða flokki þeir tilheyra. Alþingismenn kjördæmisins og sveitastjórnarmenn á Suðurnesjum eiga bera hag kjósenda sinna fyrir brjósti. Eitt af verkefnum ykkar er að bæta lífskjör og atvinnutækifæri á svæðinu. Innanlandsflugið er skólabókardæmi um það.
Margeir Vilhjálmsson