Ingvar Guðmundssson – kveðja frá Lionsklúbbi Keflavíkur
Fallinn er frá Lionsfélagi okkar Ingvar Guðmundsson, f.v. kennari og síðar aðstoðarskólastjóri við Holtaskóla í Reykjanesbæ. Ingvar var stofnfélagi Lionsklúbbs Keflavíkur 7. apríl 1956 og var hann mjög virkur hreyfinguna allt þar til á síðustu misserum.
Ingvar vann að mikilvægu verkefni fyrir okkar Lionsklúbbinn en hann hélt skrá yfir alla Lionsfélaga sem gengu til liðs við klúbbinn frá upphafi og viðhélt hann þessari skrá allt þar til nú síðari ár. Þar eru miklar heimildir um starfsemi klúbbsins frá upphafi.
Ingvar tók virkan þátt í gróðursetningarferðum klúbbsins og einnig aðalfjáröflun okkar, sem var á fyrri tímum, okkar vinsæla perusala sem fór fram á hverju hausti. Nú er aðalfjáröflun klúbbs okkar sjávarréttakvöld og kúttmagaveisla en Ingvar var einnig þátttakandi í okkar árlegu kúttmagahreinsun.
Ingvar sinnti ýmsum ábyrgðarstörfum fyrir klúbbinn, var formaður klúbbsins 1959, var í ritnefnd á 40 ára starfsafmæli klúbbsins og hlaut hann Melvin Jones viðurkenninguna 1989.
Við Lionsfélagar hans stöndum í mikilli þakkarskuld við Ingvar fyrir hans framlag til Lionshreyfingarinnar og sér í lagi fyrir framlag hans til Lionsklúbbs Keflavíkur.
Við sendum Heru og fjölskyldu innilegrar samúðarkveðjur.
F.h. Lionsklúbbs Keflavíkur,
Axel Jónsson.