Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ingi Þór Jóhannsson - minning
Fimmtudagur 9. desember 2010 kl. 14:44

Ingi Þór Jóhannsson - minning

Þessar fáu línur elsku pabbi minn eru til að tjá mínar hugsannir til þín og rifja upp brot úr langri ævi þinni. Það hljóta að teljast forréttindi hvers manns að ná þeim aldri sem þú náðir og skilaðir til samfélagsins samfeldri vinnu í 65 ár án þess að hafi farið á spítala eða þurft að vera upp á ríkið kominn á neinn hátt, aðeins í lokin naustu aðhlynningu.

Þú hafðir fyrir konu og fimm börnum að sjá og gerðir það með mikilli vinnu og eljusemi. Það var aldrei skortur á mat né klæðum hjá okkur og við bjuggu í stóru húsi, sem þú byggðir sjálfur, þar sem allir höfðu sitt herbergi þegar hópurinn stækkaði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflavík, sem þú ólst upp í, var þá lítið þorp og við Ingiþórarir (synir pabba) höfðum mikið frelsi til athafna um allar trissur og leikskólar ekki margir.

Það var unun að hlusta á þig segja okkur strákunum (4 synir og systir) þær hremmingar sem þú lentir í á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Of komust þið í hann krappann og oft skall hurð nærri hælum. Þú varst líka ljónheppinn eða var það ef til vill einhver verndarkraftur þegar frændi þinn kom að máli við þig og hvatti þig eindregið til að fara í stýrimannaskólann og sleppa næsta túr á togaranum sem þú varst á, en hann var skotinn niður. Það var líka mikil gleði hjá mannskapnum þegar þið björguðuð allri áhöfninni af bandarískri flugvél úti á ballarhafi með þýska kafbáta á sveimi á þessum slóðum. Allt rifjast þetta upp núna þegar þú er allur.

Þegar togarakafla þínum lauk upp úr 1952 var ráðist í útgerð við annan mann. Keyptur var 15 tonna eikarbátur frá Ólafsvík með 2ja strokka glóðarhausvél sem byggður var 1933. Fékk hann einkennisstafina KE 20 en hélt nafninu Erlingur. Þetta varð þitt lífsstarf og þaðan kom lífibrauðið sem við börnin höfðum ef til vill ekki mikinn skilning á. Þú lést aldrei deigan síga og sóttir sjóinn næstu 35 árin á Erlingi og í lokin á Þorsteini.

Ágúst tvíburabróðir gerðist meðeigandi, um tíma, í útgerðini, en 1977 flytur Gústi til Noregs með sinni norsku konu.

Þið mamma voruð á margan hátt samrýmd þótt ólík þið væruð. Þú meira ákveðinn og vissir oftast hvað þú vildir en mamma fór oftast mýkri leiðina sértaklega þegar kom að uppeldinu. Það leyndi sér ekki að þegar mamma dó 2003 þá var eins og að það vantaði eitthvað í líf þitt, svo mikil stoð og stytta var hún móður mín í þínu lífi.

Það má líka segja það að fyrir tilstuðlan hennar þá náðuð þið að ferðast um allan heiminn á langri ævi. Mest naustu þín að tala um frændfólkið þitt í Kanada og Bandaríkjunum svo og ógleymanlega ferð til Ísrael.

Þegar tími gafst áttir þú til að fást við ljóðagerð og liggja eftir þig all mörg stutt kvæði sem lýsa lífinu og þeim tilfinningu sem með þér bærðust.

Jæja, elsku pabbi minn. Það er komið að kveðjustund að minnsta kosti í bili. Ég vil þakka þér og mömmu fyrir það sem þið gáfu mér sem nesti út í lífið en það er traust, umburðarlyndi og nægjusemi.

Ingvi Ingiþórs Ingason


Með nokkrum orðum langar mig til að minnast afa míns. Hann afi minn hefur alltaf verið hetja í mínum huga. Maður sem sótti sjóinn allt sitt líf, lagði líf sitt oft í hættu til þess eins að fjölskylda hans gæti lifað þægilegu lífi. Þegar ég hlustaði á sögurnar hans um sjómennskuna á stríðsárunum um hvernig þýskir kafbátar sveimuðu allt um kring og hvernig báturinn hans afa var að bjarga fólki í sjávarháska þá gat ég ekki annað en spáð í samanburðinum á okkur. Hann í lífsins ólgusjó að takast á við lífið í allri sinni mynd, en ég að spá hvenær næsti fótboltaleikur væri. Það eru menn einsog afi sem hafa gert minni kynslóð það kleift að hafa það gott í dag. Ég hef ómælda virðingu fyrir sjómönnum og er afi minn holdgervingur allra sjómanna.

Ingi Þór afi minn var mikill grallari. Ósjaldan var hann til í að fíflast í börnunum, það var yfirleitt beðið með eftirvæntingu að sjá hann skjóta gómnum sínum út. Hann var orðheppinn og átti auðvelt með að slá á létta strengi, hann hafði gaman af saklausri stríðni og átti það nú stundum til að stríða Siggu ömmu minni. Hún hafði nú reyndar gaman af því líka. Mér grunar nú að ég hafi erft þessa stríðni afa míns.

Ingi Þór var hagyrtur og hafði gaman að hnoða saman stöku og eigum við það sameiginlegt. Hann kunni að koma orðum í ljóðrænan búning. Afi minn hafði gaman af að lesa bækur og eyddi ég oft tíma í að renna yfir bókasafnið hans, þar var af nógu að taka. Það var alltaf gott að kíkja í heimsókn á Tjarnargötuna, amma og afi áttu hlýlegt og fallegt heimili. Fyrir lítinn hnokka var alltaf hægt að finna eitthvað til að skoða og rannsaka nánar. Ekki skemmdi nú að vita af kandísskálinni í eldhúsinu.

Afi minn hafði unun af því að synda og stundaði sundlaugarnar eins lengi og hann mögulega gat. Ég á enn bikar sem afi vann fyrir sundkeppni. Á hverjum jólum minnist ég þess tíma þegar stórfjölskyldan hittist heima hjá afa og ömmu á Tjarnargötunni, það vantaði ekki kræsingarnar þar. Það vantaði ekki heldur glettnina í afa og við börnin höfðum óendanlega gaman af. Við fórum í ógleymanlega ferð til Noregs ásamt fleirum, þar kom skyldleiki okkar berlega í ljós og er ég reglulega minntur á það.

Elsku afi minn, ég kveð þig nú með söknuði. Ég er afanum fátækari í dag, en minning um eina af sönnum hetjum þessa lands mun lifa með mér um ókomna tíð. Ég vil votta föður mínum og öðrum börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum öðrum aðstandendum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Kristinn Ingvason

Mig langar með nokkrum orðum að minnast afa míns Inga Þórs Jóhannssonar, sjómanns og sundkappa sem lést þann 30. nóvember, 94 ára að aldri. Ég rifja í huganum upp ferð okkar afa og dóttur hans Ásrúnar, austur í Grímsnes sumarið 2009. Þar fræddi hann okkur um æskuslóðir sínar á Snæfoksstöðum. Sögurnar af því hvernig föður hans tókst að sannfæra móður hans um að flytja úr sveitinni, suður til Keflavíkur. Um lífið í litla húsinu á Íshússtíg 6 í Keflavík og afrek sundkappans Inga Þórs sem keppti í sjósundi milli Keflavíkurhafnar og Vatnsness, áður en sundlaugin var byggð. Um harminn þegar faðir hans fórst í sjóslysi milli Reykjavíkur og Keflavíkur og hvernig líf afa breyttist þegar hann varð að snúa aftur heim úr námi við íþróttaskólann í Haukadal til að geta hjálpað móður sinni og bræðrum. Ég minnist sagna afa af stríðsárunum, þegar hann fór í áhættusamar siglingar milli Íslands og Bretlands, en einnig sagnanna af ferð hans til Þýskalands örfáum vikum eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar. Sú ferð hafði áhrif á sýn hans á lífið og mátti greina í frásögninni mikla samúð með því stríðshrjáða fólki sem hann mætti. Ég minnist hlýlegs heimilis Inga Þórs afa og Siggu ömmu á Tjarnargötunni í Keflavík, það var sama á hverju gekk, þar voru dyrnar alltaf opnar. Sigga amma og Ingi Þór afi ferðuðust víða um heiminn, sérstaklega eftir að börn þeirra voru farin að heiman, en það hefur verið ævintýralegt að fá að glugga í myndaalbúm þeirra hjóna þar sem finna má myndir frá ferðum þeirra um hálendi Íslands en líka frá mörgum fjarlægum löndum. Ingi Þór afi er eini maðurinn sem ég veit að hefur tjaldaði uppi á Keili og sofið á toppi fjallsins í heila nótt, þá hafði hann ákveðið að ganga yfir þvert Reykjanesið frá Vatnsleysuströnd, yfir hraunið með viðkomu á Keili en göngunni lauk svo í Grindavík.

Það var aðdáunarvert að sjá kærleikann og væntumþykju afa í garð ömmu þegar hún veiktist og hvernig hann sá til þess að hún gat verið sem lengst heima. Kominn hátt á níræðisaldur festi afi kaup á glænýjum bíl til að geta áfallalaust heimsótt eiginkonu sína sem flytja þurfti í annað sveitarfélag til að fá umönnun síðasta æviár sitt. Stuttu eftir bílakaupin var hann stöðvaður af lögreglunni á Grindarvíkurveginum fyrir of hraðann akstur, sem hann reyndar afsakaði með þeim orðum að líklegast hefði bensíngjöfin verið eitthvað léttari á nýja bílnum miðað við þann gamla.

Afi var ósérhlífinn og sjálfstæður dugnaðarforkur. Hann var strangheiðarlegur, dulur, nægjusamur á sjálfan sig en sérstaklega örlátur þegar kom að því að gefa öðrum. Það síðarnefnda var reyndar aldrei rætt heldur leit afi minn á það sem sitt einkamál. Ég veit þó fyrir víst, að fyrir utan að vera ávallt tilbúinn til að hjálpa afkomendum sínum þá rétti hann einstæðum mæðrum, ekkjum og þeim sem höfðu á einhvern hátt orðið fyrir áföllum í lífinu aðstoð með ýmsu móti. Ingi Þór gat verið mikill sérvitringur og var alls ekki allra og oft gat verið erfitt að endurgjalda hjálpsemi hans. Innan um börn gat afi breyst í mikinn grallara og það var stutt í húmorinn þegar hann heyrði af prakkarastrikum. Alla tíð fylgdist hann vel með sínu fólki og bar umhyggju fyrir hverjum og einum. Þess má geta að hógvær maður eins og Ingi Þór átti erfitt með að skilja hvernig efnahagsástand Íslands gat breyst eins og raunin varð haustið 2008 en hann fylgdist vel með darraðardansi samtímans í stjórnmálum landsins og samfélaginu öllu, þar til stuttu fyrir andlátið. Ósjaldan heyrði ég afa segja „ég bara skil ekki hvernig mönnum datt þetta í hug“? og átti hann þá bæði við hvernig staðan var í hans nánasta sveitarfélagi, umhverfismálum og landspólitíkinni. Það var ekki auðvelt að sannfæra afa um að þetta færi nú allt að lagast en margoft spurði hann hvort afkomendur hans, hefðu ekki örugglega ofan í sig og á. Ég mun sakna afa míns og þakka honum samfylgdina. Pabba mínum, systkinum hans og öðrum aðstandendum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Inga Þórey Jóhannsdóttir