„Illa við þá tilhugsun um að minning bæjarbúa um minn feril hjá Keflavík sé í rottulíki“ - segir Eysteinn Hauksson
Til keflvískra knattspyrnuáhugamanna
Í tilefni af fréttaflutningi þeim sem knattspyrnudeild Keflavíkur hefur sent frá sér vegna brotthvarfs míns frá félaginu, sem gefur líklega flestum til kynna að ég sé sú manngerð sem stekkur fyrstur frá borði af sökkvandi skipi get ég ekki setið á mér að koma eftirfarandi á framfæri: Undanfarnar vikur og mánuði hafa birst fréttir, m.a. í sjónvarpi þar sem formaður knattspyrnudeildar kemur fram mæðulegur á svip og lýsir því, í uppgjafartón, að nú sé buddan tóm, fjárhagurinn á hvolfi, leikmenn hafi allt of há laun og nú verði að skera allt niður.
Ég skal viðurkenna það að á þeim átta árum sem ég hef verið samningsbundinn Keflavíkurliðinu hef ég þegið ýmis hlunnindi fyrir að leika fyrir félagið. Vegna trúnaðarákvæðis í samningum, sem mér skilst reyndar að hafi verið brotið all gróflega af stjórnarmanni á fundi með leikmönnum að mér fjarstöddum, get ég ekki farið nánar út í það hér, sem skiptir kannski ekki öllu máli þar sem einstaklingsbundið er, hvað þykir mikið eða lítið í þeim efnum.
Þar sem ég hef átt við erfið meiðsli og veikindi að stríða á undanförnum tveimur árum hef ég ekki getað skilað því sem ég hefði viljað til félagsins, en hef þó reynt allt sem í mínu valdi stendur til að starfa að öðrum hlutum sem við koma félaginu, svo sem séð um firmakeppnir,haldið utan um skemmtanir, starfað af fullum krafti í leikmannaráði o.s.frv. Einnig setti ég mér þá reglu að mæta til allra æfinga og leikja sem mér hefur gefist kostur á, hvort sem mér hafi verið fært að taka þátt í þeim eða ekki, auk þess sem ég gerði að sjálfsögðu allt sem í mínu valdi stóð til þess að vinna bót á meinum mínum.
Í ljósi þessara erfiðleika minna og að samningur minn var að renna út lagði ég fram tilboð til stjórnarinnar um áframhaldandi samning eftir að hafa kæft samningsumræður tveggja annarra úrvalsdeildarfélaga í fæðingu, með það að leiðarljósi að þar sem ég hef nú verið heill heilsu í nokkra mánuði, væri kominn tími til að ég fengi loks að sýna hvað ég gæti. Gaf ég stjórninni það til kynna að ef þetta gengi eftir myndi ég spila fyrir félagið óháð því hverjir myndu fara frá félaginu eða hver myndi taka að sér þjálfun þess. Ef þeir tækju hins vegar tilboðinu ekki, myndi ég svo sem skilja það í ljósi þess hversu litlu ég hef komið til skila fyrir félagið á leikvellinum undanfarin tvö keppnistímabil.
Stjórnin ákvað að neita þessu tilboði, sem ég sýndi fullan skilning en nokkrum dögum seinna hafði ég aftur samband við þá og tilkynnti þeim að ég væri tilbúinn að vera hjá félaginu fram að áramótum, þeim algjörlega að kostnaðarlausu. Ég fengi þann tíma til að sýna mig og sanna og um áramót gætu þeir tekið ákvörðun um það hvort þeir teldu það þess virði að semja við mig. Þetta sögðust þeir vera tilbúnir að athuga og með það kvöddumst við.
U.þ.b. viku síðar, ef ég man rétt, hringdi ég í þann stjórnarmann sem ég hafði haft mest samskipti við og spurði hvort ég gæti fengið svar við tilboðinu , já eða nei, daginn eftir þar sem mín mál, eins og ýmissa annarra leikmanna reyndar líka, voru í mikilli óvissu og einnig fannst mér eðlilegt að leita eftir einhverri vitneskju um á hverju ég gæti byggt knattspyrnulega framtíð mína. Hann samþykkti þetta og sagði að við skyldum vera í sambandi daginn eftir, sem var miðvikudagur.
Ég hringdi svo í hann að meðaltali fjórum sinnum á dag, án þess að hann sæi sér fært að gefa sér tíma til að taka upp tólið og skýra mér frá gangi mála. Á laugardeginum var ég búinn að fá nóg af því að hlusta á sóninn í símanum mínum og fór því heim til hans og bankaði upp á. Hann hafði það nú af að koma til dyra enda sjálfsagt ekki með búnað samsvarandi númerabirti tengdan við útihurðina sína.
Ég spurði hann frétta og hann sagði fátt af þeim nema það að þeir væru ekki tilbúnir í þetta. Þá spurði ég hann hvort það hefði verið á dagskrá stjórnarmanna að eyða eins og 20 krónum í eitt símtal til þess að tilkynna mér þessa staðreynd og þá flissaði hann og svaraði því til að “það hefði nú sjálfsagt komið í ljós á endanum, hvort sem væri.....”
Þetta voru sem sagt kveðjurnar sem ég hlaut eftir átta ára starf í þágu félagsins, eftir að hafa gengið með því í gegnum súrt og sætt, hafa m.a. barist í bökkum með félaginu árið 1996 og unnið bikarmeistaratitil ´97. Þetta voru kveðjurnar sem ég fékk eftir að hafa í tvígang hafnað freistandi tilboðum frá langstærsta félagi landsins (haustið ´98 og veturinn ´99) sem buðu upp á rúmlega tvöfalt meiri hlunnindi en ég samþykkti svo frá Keflavík, auk þess að hafa fært félaginu nýkjörinn besta og efnilegasta leikmann liðsins nánast á silfurfati á sínum tíma. Ýmislegt fleira gæti ég svo sem talið upp en tel ekki þörf á. Skýringuna á þessari hegðun minni get ég aðeins talið eina og hún er sú að þetta félag skipti mig meira en litlu máli og sumir hafa meira að segja haft á orði við mig að ég hafi það sem stundum er nefnt Keflavíkurhjarta og þykir víst hafa verið frekar sjaldgæfur eiginleiki aðkomumanna sem hér hafa leikið í gegn um tíðina.
Það má alveg skjóta því hér með að ég hafði svo sem fengið þá flugu í höfuðið að ef svar stjórnarmanna um áramótin yrði: “NEI,TAKK”, að skoða þá jafnvel þann möguleika að leika fyrir Keflavík á næsta ári án nokkurra einustu hlunninda, þó svo að ég sæi varla fram á að hafa efni á því. Á sama augnabliki og þessi ákveðni stjórnarmaður bar mér þessa kveðju sína fuku allar slíkar hugmyndir út í veður og vind, og lái mér það nú hver sem vill.
Ástæða þess að ég sá hjá mér þörf fyrir að skrifa þessa grein er fyrst og fremst sú að mér er mjög illa við þá tilhugsun um að minning bæjarbúa um minn feril hjá Keflavík sé í rottulíki og einnig til að varpa ljósi á það sem ég vil kalla vægast sagt óheppileg samskiptavinnubrögð stjórnarmanna en það er langt því frá að þetta sé eindæmi um þau. Má í þeim efnum sem dæmi nefna samskipti þeirra við Jóhann Guðmundsson (sem ég leyfi mér að kalla einn mesta Keflvíking í sögu félagsins) síðastliðinn vetur og hvernig þessi sama stjórn og nú nýverið gekk frá ráðningu Kjartans Mássonar í þjálfarastöðuna, tók sér fyrir nokkrum misserum heilt ár í það að flæma Kjartan burt frá félaginu og það með þeim orðum að hann fengi aldrei að koma nálægt því aftur.
Í inngangi greinarinnar minntist ég á þann fréttaflutning sem farið hefur af fjárhagserfiðleikum knattspyrnudeildarinnar og þeirri miklu sorg sem býr í brjóstum stjórnarmanna yfir ástandinu, leikmenn séu á allt of háum launum o.s.frv.
Staðreyndin finnst mér hins vegar liggja ljós fyrir og hún er sú að stjórnarmenn geta nákvæmlega engum öðrum en sjálfum sér um kennt hvernig komið er fyrir deildinni fjárhagslega, því nöfn einhverra þeirra hljóta að vera undirrituð á hverjum einasta samningi sem félagið hefur gert. Má því telja augljóst að þar sem staðan er víst orðin biksvört nú, að þeir hafi skrifað undir umtalsvert magn samninga sem þeir hafa ekkert vitað um hvernig þeir hafi ætlað að standa við, eftir að staðan hafi verið orðin vel í dekkri kantinum. Það ber nefnilega að hafa í huga þegar þessi mál eru rædd, að það eru ekki eingöngu leikmennirnir sem gera samningana.
Einnig má spyrja sig; fyrst að fjárhagsstaðan er svona slæm, hvers vegna hafa ekki verið gefnar út símaskrár eða leikjaskrár á síðustu tveimur árum, þar sem þarna er um að ræða tekjulindir sem skila að algjöru lágmarki einni milljón í kassann á hverju ári? Þessi verkefni myndi ég halda að ættu að vera í verkahring stjórnar sem býr við fjárskort en svo virðist ekki vera, eða hvað....?
Svo má líka spyrja sig að því hvort synjunin á reynslutíma mínum fram að áramótum geti hugsanlega haft eitthvað með það að gera að synir þriggja stjórnarmanna leika svipaða stöðu og ég á vellinum.....nei,ég segi nú bara svona!
Ég vil að lokum að það komi skýrt fram að það hefur verið mér mikill heiður að fá að starfa fyrir þetta sögufræga félag. Ég hef starfað fyrir það af fullum heilindum, það vita þeir sem þekkja mig best, og m.a. oft og mörgum sinnum varið stjórn knattspyrnudeildarinnar með kjafti og klóm úti í bæ, með afar fá og veikburða rök á bak við mig en það hef ég nú gert í síðasta sinn.
Þó að mér þyki það afar leitt að hafa aðeins náð öðru því markmiði sem ég ætlaði mér með Keflavíkurliðinu og að enda dvöl mína hér á þennan hátt, fer ég héðan með frábærar minningar í farteskinu af öllum þeim vinum og félögum, stórum sem smáum, sem ég hef kynnst í þessum mikla íþróttabæ. Ég vil nota tækifærið og óska öllum keflvískum knattspyrnuáhugamönnum, Kjartani og strákunum alls hins besta og glæstra sigra í framtíðinni. Þessu tímabili mínu hér í bítlabænum fræga, gleymi ég aldrei.
TAKK FYRIR MIG, KEFLAVÍK
Eysteinn Hauksson
Fyrrverandi leikmaður m.fl. Keflavíkur í knattspyrnu.
Í tilefni af fréttaflutningi þeim sem knattspyrnudeild Keflavíkur hefur sent frá sér vegna brotthvarfs míns frá félaginu, sem gefur líklega flestum til kynna að ég sé sú manngerð sem stekkur fyrstur frá borði af sökkvandi skipi get ég ekki setið á mér að koma eftirfarandi á framfæri: Undanfarnar vikur og mánuði hafa birst fréttir, m.a. í sjónvarpi þar sem formaður knattspyrnudeildar kemur fram mæðulegur á svip og lýsir því, í uppgjafartón, að nú sé buddan tóm, fjárhagurinn á hvolfi, leikmenn hafi allt of há laun og nú verði að skera allt niður.
Ég skal viðurkenna það að á þeim átta árum sem ég hef verið samningsbundinn Keflavíkurliðinu hef ég þegið ýmis hlunnindi fyrir að leika fyrir félagið. Vegna trúnaðarákvæðis í samningum, sem mér skilst reyndar að hafi verið brotið all gróflega af stjórnarmanni á fundi með leikmönnum að mér fjarstöddum, get ég ekki farið nánar út í það hér, sem skiptir kannski ekki öllu máli þar sem einstaklingsbundið er, hvað þykir mikið eða lítið í þeim efnum.
Þar sem ég hef átt við erfið meiðsli og veikindi að stríða á undanförnum tveimur árum hef ég ekki getað skilað því sem ég hefði viljað til félagsins, en hef þó reynt allt sem í mínu valdi stendur til að starfa að öðrum hlutum sem við koma félaginu, svo sem séð um firmakeppnir,haldið utan um skemmtanir, starfað af fullum krafti í leikmannaráði o.s.frv. Einnig setti ég mér þá reglu að mæta til allra æfinga og leikja sem mér hefur gefist kostur á, hvort sem mér hafi verið fært að taka þátt í þeim eða ekki, auk þess sem ég gerði að sjálfsögðu allt sem í mínu valdi stóð til þess að vinna bót á meinum mínum.
Í ljósi þessara erfiðleika minna og að samningur minn var að renna út lagði ég fram tilboð til stjórnarinnar um áframhaldandi samning eftir að hafa kæft samningsumræður tveggja annarra úrvalsdeildarfélaga í fæðingu, með það að leiðarljósi að þar sem ég hef nú verið heill heilsu í nokkra mánuði, væri kominn tími til að ég fengi loks að sýna hvað ég gæti. Gaf ég stjórninni það til kynna að ef þetta gengi eftir myndi ég spila fyrir félagið óháð því hverjir myndu fara frá félaginu eða hver myndi taka að sér þjálfun þess. Ef þeir tækju hins vegar tilboðinu ekki, myndi ég svo sem skilja það í ljósi þess hversu litlu ég hef komið til skila fyrir félagið á leikvellinum undanfarin tvö keppnistímabil.
Stjórnin ákvað að neita þessu tilboði, sem ég sýndi fullan skilning en nokkrum dögum seinna hafði ég aftur samband við þá og tilkynnti þeim að ég væri tilbúinn að vera hjá félaginu fram að áramótum, þeim algjörlega að kostnaðarlausu. Ég fengi þann tíma til að sýna mig og sanna og um áramót gætu þeir tekið ákvörðun um það hvort þeir teldu það þess virði að semja við mig. Þetta sögðust þeir vera tilbúnir að athuga og með það kvöddumst við.
U.þ.b. viku síðar, ef ég man rétt, hringdi ég í þann stjórnarmann sem ég hafði haft mest samskipti við og spurði hvort ég gæti fengið svar við tilboðinu , já eða nei, daginn eftir þar sem mín mál, eins og ýmissa annarra leikmanna reyndar líka, voru í mikilli óvissu og einnig fannst mér eðlilegt að leita eftir einhverri vitneskju um á hverju ég gæti byggt knattspyrnulega framtíð mína. Hann samþykkti þetta og sagði að við skyldum vera í sambandi daginn eftir, sem var miðvikudagur.
Ég hringdi svo í hann að meðaltali fjórum sinnum á dag, án þess að hann sæi sér fært að gefa sér tíma til að taka upp tólið og skýra mér frá gangi mála. Á laugardeginum var ég búinn að fá nóg af því að hlusta á sóninn í símanum mínum og fór því heim til hans og bankaði upp á. Hann hafði það nú af að koma til dyra enda sjálfsagt ekki með búnað samsvarandi númerabirti tengdan við útihurðina sína.
Ég spurði hann frétta og hann sagði fátt af þeim nema það að þeir væru ekki tilbúnir í þetta. Þá spurði ég hann hvort það hefði verið á dagskrá stjórnarmanna að eyða eins og 20 krónum í eitt símtal til þess að tilkynna mér þessa staðreynd og þá flissaði hann og svaraði því til að “það hefði nú sjálfsagt komið í ljós á endanum, hvort sem væri.....”
Þetta voru sem sagt kveðjurnar sem ég hlaut eftir átta ára starf í þágu félagsins, eftir að hafa gengið með því í gegnum súrt og sætt, hafa m.a. barist í bökkum með félaginu árið 1996 og unnið bikarmeistaratitil ´97. Þetta voru kveðjurnar sem ég fékk eftir að hafa í tvígang hafnað freistandi tilboðum frá langstærsta félagi landsins (haustið ´98 og veturinn ´99) sem buðu upp á rúmlega tvöfalt meiri hlunnindi en ég samþykkti svo frá Keflavík, auk þess að hafa fært félaginu nýkjörinn besta og efnilegasta leikmann liðsins nánast á silfurfati á sínum tíma. Ýmislegt fleira gæti ég svo sem talið upp en tel ekki þörf á. Skýringuna á þessari hegðun minni get ég aðeins talið eina og hún er sú að þetta félag skipti mig meira en litlu máli og sumir hafa meira að segja haft á orði við mig að ég hafi það sem stundum er nefnt Keflavíkurhjarta og þykir víst hafa verið frekar sjaldgæfur eiginleiki aðkomumanna sem hér hafa leikið í gegn um tíðina.
Það má alveg skjóta því hér með að ég hafði svo sem fengið þá flugu í höfuðið að ef svar stjórnarmanna um áramótin yrði: “NEI,TAKK”, að skoða þá jafnvel þann möguleika að leika fyrir Keflavík á næsta ári án nokkurra einustu hlunninda, þó svo að ég sæi varla fram á að hafa efni á því. Á sama augnabliki og þessi ákveðni stjórnarmaður bar mér þessa kveðju sína fuku allar slíkar hugmyndir út í veður og vind, og lái mér það nú hver sem vill.
Ástæða þess að ég sá hjá mér þörf fyrir að skrifa þessa grein er fyrst og fremst sú að mér er mjög illa við þá tilhugsun um að minning bæjarbúa um minn feril hjá Keflavík sé í rottulíki og einnig til að varpa ljósi á það sem ég vil kalla vægast sagt óheppileg samskiptavinnubrögð stjórnarmanna en það er langt því frá að þetta sé eindæmi um þau. Má í þeim efnum sem dæmi nefna samskipti þeirra við Jóhann Guðmundsson (sem ég leyfi mér að kalla einn mesta Keflvíking í sögu félagsins) síðastliðinn vetur og hvernig þessi sama stjórn og nú nýverið gekk frá ráðningu Kjartans Mássonar í þjálfarastöðuna, tók sér fyrir nokkrum misserum heilt ár í það að flæma Kjartan burt frá félaginu og það með þeim orðum að hann fengi aldrei að koma nálægt því aftur.
Í inngangi greinarinnar minntist ég á þann fréttaflutning sem farið hefur af fjárhagserfiðleikum knattspyrnudeildarinnar og þeirri miklu sorg sem býr í brjóstum stjórnarmanna yfir ástandinu, leikmenn séu á allt of háum launum o.s.frv.
Staðreyndin finnst mér hins vegar liggja ljós fyrir og hún er sú að stjórnarmenn geta nákvæmlega engum öðrum en sjálfum sér um kennt hvernig komið er fyrir deildinni fjárhagslega, því nöfn einhverra þeirra hljóta að vera undirrituð á hverjum einasta samningi sem félagið hefur gert. Má því telja augljóst að þar sem staðan er víst orðin biksvört nú, að þeir hafi skrifað undir umtalsvert magn samninga sem þeir hafa ekkert vitað um hvernig þeir hafi ætlað að standa við, eftir að staðan hafi verið orðin vel í dekkri kantinum. Það ber nefnilega að hafa í huga þegar þessi mál eru rædd, að það eru ekki eingöngu leikmennirnir sem gera samningana.
Einnig má spyrja sig; fyrst að fjárhagsstaðan er svona slæm, hvers vegna hafa ekki verið gefnar út símaskrár eða leikjaskrár á síðustu tveimur árum, þar sem þarna er um að ræða tekjulindir sem skila að algjöru lágmarki einni milljón í kassann á hverju ári? Þessi verkefni myndi ég halda að ættu að vera í verkahring stjórnar sem býr við fjárskort en svo virðist ekki vera, eða hvað....?
Svo má líka spyrja sig að því hvort synjunin á reynslutíma mínum fram að áramótum geti hugsanlega haft eitthvað með það að gera að synir þriggja stjórnarmanna leika svipaða stöðu og ég á vellinum.....nei,ég segi nú bara svona!
Ég vil að lokum að það komi skýrt fram að það hefur verið mér mikill heiður að fá að starfa fyrir þetta sögufræga félag. Ég hef starfað fyrir það af fullum heilindum, það vita þeir sem þekkja mig best, og m.a. oft og mörgum sinnum varið stjórn knattspyrnudeildarinnar með kjafti og klóm úti í bæ, með afar fá og veikburða rök á bak við mig en það hef ég nú gert í síðasta sinn.
Þó að mér þyki það afar leitt að hafa aðeins náð öðru því markmiði sem ég ætlaði mér með Keflavíkurliðinu og að enda dvöl mína hér á þennan hátt, fer ég héðan með frábærar minningar í farteskinu af öllum þeim vinum og félögum, stórum sem smáum, sem ég hef kynnst í þessum mikla íþróttabæ. Ég vil nota tækifærið og óska öllum keflvískum knattspyrnuáhugamönnum, Kjartani og strákunum alls hins besta og glæstra sigra í framtíðinni. Þessu tímabili mínu hér í bítlabænum fræga, gleymi ég aldrei.
TAKK FYRIR MIG, KEFLAVÍK
Eysteinn Hauksson
Fyrrverandi leikmaður m.fl. Keflavíkur í knattspyrnu.