Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Íhugum og styrkjum áfallaþol
Föstudagur 12. janúar 2024 kl. 06:00

Íhugum og styrkjum áfallaþol

Áfallaþol er gegnsætt hugtak. Á okkar tímum hefur það einkum merkingu frammi fyrir náttúruvá sem fylgir því að búa á eldfjallaeyju, á flekaskilum upp við heimskautsbaug á miðju úthafi. Við hljótum að hyggja vel að bættu áfallaþoli næstu ár og áratugi eða aldir; ekki aðeins vegna loftslagsbreytinga, heldur líka vegna hastarlegrar spennulosunar og flekahreyfinga og eldvirkni á SV-horninu. Lotan á Reykjanesskaga var fyrirséð miðað við jarðsöguna sem slíka en upphafið óljóst þar til nú. Aðrar eldstöðvar, jarðskjálftar, hækkun sjávarborðs og ofanflóð víða um land minna á fleiri verkefni í þessum efnum.

Raforka og hitaveita

Traust og öflugt flutningskerfi raforku er mikilvægur þáttur í bærilegu áfallaþoli. Tenging á milli orkuvera á Reykjanesskaga fer í raun fram um meginháspennulínur Landsvirkjunar yfir Mosfells- og Hellisheiði, ásamt lykiltengingu um Suðvesturlínu. Hún (einföld eða tvöföld) liggur um mögulegar rennslisleiðir hrauna og nálægt skjáfltavirkum svæðum. Þá gildir að greina áhættuna, t.d. með hliðsjón af spálíkönum nýrra hrauna og bregðast við með forvarnaraðgerðum og jafnvel nýjungum. Nýjum jarðvarmaorkuverum skagans munu fylgja línutengingar við flutningskerfið og líka vandasamar hitaveitulagnir. Innbyrðis raforku- eða hitaveitutengingar á milli núverandi orkuvera skagans eru varla á dagskrá í bili, þvert yfir hálendi og eldvirk höggunarsvæði. Mikilvægt er að tryggja betur aðgengi að nægri raforku og ferskvatni, á eða nálægt hverjum virkjanastað, og finna leiðir til þess að geta hitað það upp og skilað til neytenda. Staðbundið, ferskt neysluvatn þarf líka að vera aðgengilegt sem næst byggð. Einnig þurfa að vera til nægar vararafaflsvélar, kyndistöðvar fyrir vatn (fyrst og fremst rafknúnar) og efni í varaleiðslur ef þarf. Það á raunar við um fleiri landshluta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Viðamikil verkefni

Í Rammaáætlun (4. áfanga) eru nokkrar jarðvarmavirkjanir, tvö vindorkuver Landsvirkjunar og örfá vatnsorkuver. Hverjar sem mínar skoðanir á þeim eru verður að máta virkjanirnar við misalvarlega stöðu og óróa á SV-horninu um langan aldur á mannlegum mælikvarða. Það gerist á tímum brýnna orkuskipta og er um leið hluti þjóðaröryggismála, hvort sem litið er t.d. til matvæla- eða orkuöryggis. Við hæfi er að lenda deilum um þessi efni í sátt við verulegan meirihluta samfélagsins og svara aukinni orkueftirspurn svo ná megi fullum orkuskiptum, minnka kolefnislosun, auka kolefnisbindingu og tryggja næga varma- og raforku til almennra neytenda og græns iðnaðar á næstu 15 til 25 árum. Það merkir m.a. að breyta þarf forgangsröðun í raforkusölu til gagnavera eins og unnt er, nýta orkuverin betur, ýmsan glatvarma, auðlindagarða og nýjungar í orkuöflun. Sinna verður öðrum verkefnum. Sum eru þegar á framkvæmdastigi. Vil t.d. nefna fleiri leiðigarða gegn hraunrennsli á SV-horninu. Vinna við þann næsta er hafin, til varnar Grindavík. Aðrir slíkir verða flestir ekki reistir áður en eldgos hefjast, heldur forhannaðir og aukið fé haft til reiðu í nokkrum mæli. Svipaður undirbúningur á að gilda um varavegi á mikilvægustu stöðum innan eldvirku beltanna og einnig um orkuver. Efla þarf varnargarða og enn betra vöktunarkerfi vegna ofanflóða og flóða í straumvötnum. Nýr áætlanaflugvöllur er vart fyrirhugaður á Reykjanesskaga, enda Miðnesheiðin með öruggari stöðum á honum.

Eflum líka starfsemi viðbragðsaðila

Endurskoða ætti stöðu hjálparsveita svo létta megi álagi á þær að hluta. Það getur m.a. gerst með því að fjárfesta í mannauði. Fastráða mætti allstóran hóp manna til þess að sinna skyndi- eða langtímaverkefnum og efla þar með Almannavarnir og Landsbjörg (umfram styrki). Samfélagið stækkar ört. Þótt hjálpar- og almannavarnastörf séu nú þegar byggð að nokkru leyti á viðbragðsaðilum á ríkislaunum verður að stíga fleiri skyld skref. Um leið er ljóst að mikill þungi verður áfram á þúsundum virkra sjálfboðaliða Landsbjargar, sem hafa unnið ígildi kraftaverka áratugum saman. Gleymi ekki að nefna lögregluna, gæsluna, Rauða krossinn, slökkvilið, bráðaliða og heilbrigðisþjónustuna í þessu sambandi. Þar þarf líka fleiri huga og hendur. Fjárfestingar vegna forvarna og aukins áfallaþols skila sér um síðir.

Ari Trausti Guðmundsson
Höfundur er jarðvísindamaður og fyrrum þingmaður VG í Suðurkjördæmi.