„Iðnaðarráðherra norðurlands“
Steinþór Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðismanna, er ekki sáttur við Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra, í pistil sem hann skrifar á vefsvæði sínu, www.steini.is. Þar segir: „Það er ástæða til að gleðjast yfir að umræður síðustu vikna og mánaða hafi skilað viljayfirlýsingu um álver í Helguvík en fulltrúar Norðuráls ehf. á Grundartanga, Reykjanesbæjar og Hitaveitu Suðurnesja hf. undirrituðu á föstudagskvöld samkomulag um könnun á möguleikum á rekstri álvers þar. Í framhaldi af undirritun samkomulagsins mun strax fara af stað frekari könnun á orkuöflun, umhverfisskilyrðum og aðstöðu fyrir álver í Helguvík. Verði niðurstaða slíkra athugana jákvæð, er gert er ráð fyrir að álframleiðsla hefjist í Helguvík á árunum 2010-2015 en framkvæmdir árið 2007.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 á laugardagskvöld var ítarlega gerð grein fyrir þessu mikilvæga máli og farið yfir forsendur þess. Þar var einnig viðtal við Valgerði Sverrisdóttur iðnaðarráðherra “Norðurlands” sem sá ekki ástæðu til að fagna þessum áfanga með Suðurnesjamönnum heldur hatti Eyfirðinga til að standa betur saman til að tryggja að næsta álver yrði á Norðurlandi. Einhvern veginn hefur maður haldið að staðsetning fyrirtækja af þessari stærðargráðu byggðist á viðskiptalegum forsendum, kostum staðsetningar s.s. hafnaraðstöðu og þeim tækifærum sem hvert svæði bíður uppá en ekki geðþóttarákvörðun ráðherra hverju sinni. Það viðist því miður ekki vera raunin þegar umræða um stóriðju á sér stað á Íslandi í dag. Þá virðist iðnaðarráðherra hunsa allar hugmyndir eða tækifæri sem ekki yrðu staðsett í Eyjarfirði eða Þingeyjarsýslum. Þetta sýndi hún svo greinilega í viðtölum við Stöð 2 nú í kvöld.
Mér finnst að Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra ætti að biðja Suðurnesjamenn afsökunar á framferði sínu sem ekki getur talist henni eða samflokksmönnum hennar í Framsóknarflokkum til framdráttar, að minnsta ekki á þessu svæði. Einnig verður fróðlegt að heyra viðbrögð Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra um afstöðu hennar svo og Hjálmars Árnasonar þingmanns Framsóknar í Suðurkjördæmi og bæjarfulltrúa flokksins á Reykjanesi öllu. Ljóst má vera að viljayfirlýsing er aðeins fyrsta skrefið á langri meðgöngu og enn getur brugðist til beggja vona. Þröngsýn afstaða ráðherra framsóknarflokksins mun vonandi ekki valda því að jákvæður vilji um álver í Helguvík hljóti hnekki þess vegna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem afstaða Framsóknarflokksins á ekki samleið með okkur Suðurnesjamönnum þ.e. sama afstaða iðnaðarráðherra í öðrum sambærilegum verkefnum og þegar mikilvægt byggingarland “Nikkelsvæðið” var sett í útboð í stað þess að afhenda bæjaryfirvöldum landið án endurgjalds“, segir Steinþór Jónsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ á vefsvæði sínu, steini.is.
Myndin: Frá undirritun viljayfirlýsingar um álversmál í Helguvík.