Iðjuþjálfun og aðgangur barna að þjónustu iðjuþjálfa
Í dag, 27. október er alþjóðlegur dagur iðjuþjálfunar og af því tilefni langar okkur að fjalla um iðjuþjálfun og mikilvægi þess að öll börn í landinu hafi sama aðgang að þjónustu iðjuþjálfa óháð búsetu. Markmið okkar er að hvetja bæjarfélög landsins til að efla þjónustu iðjuþjálfa við börn.
Iðjuþjálfun er ung og vaxandi fræðigrein um heim allan sem á rætur sínar að rekja til fyrri heimsstyrjaldarinnar. Fyrsti íslenski iðjuþjálfinn hóf störf á Kleppsspítala árið 1945. Árið 1976 var svo Iðjuþjálfafélag Íslands stofnað og hefur félagið verið í örum vexti síðan. Frá árinu 1997 hefur fagið verið kennt við Háskólann á Akureyri og er námið fjögurra ára nám við heilbrigðisdeild skólans.
Hvað er iðjuþjálfun?
Iðjuþjálfun auðveldar fólki að taka virkan þátt í iðju sem er þeim mikilvæg og stuðlar að auknu sjálfræði og lífsfyllingu. Iðjuþjálfar hafa sérþekkingu á daglegri iðju mannsins. Þegar talað er um iðju er átt við allt það sem einstaklingur tekur sér fyrir í daglegu lífi í þeim tilgangi að annast sig og sína, vinna ýmis störf og njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Iðja er t.d. það að klæða sig og snyrta, útbúa mat, aka bíl og vinna við tölvur. Skjólstæðingar iðjuþjálfa eru ýmist einstaklingar eða hópar sem vegna röskunnar á þroska, veikinda, áfalla, eða öldrunar hafa takmarkaðan möguleika á iðju. Einnig veita iðjuþjálfar stjórnsýslu, stofnunum eða félagasamtökum þjónustu sem hefur áhrif á heilsufar fólks og möguleika þeirra til að velja og stunda iðju. Iðjuþjálfar vinna með fólki á öllum aldursskeiðum og þarf þjónusta þeirra að vera aðgengileg innan og utan hefðbundinna heilbrigðisstofnanna. Hlutverk iðjuþjálfa getur verið, þjálfari, talsmaður, ráðgjafi, leiðbeinandi, rannsakandi fræðimaður, stefnumótandi eða stjórnandi.
Iðjuþjálfun barna
Vinna iðjuþjálfa með börnum er margbreytileg. Iðjuþjálfar vinna með börnum sem eiga í erfiðleikum með athafnir daglegs lífs. Oft er um að ræða börn sem eru með frávik í skyn- og hreyfiþroska eða börn sem eiga í erfiðleikum með vitræna þætti og atferli. Einnig vinna iðjuþjálfar með börnum sem skortir færni í daglegu lífi vegna hreyfiþroskaröskunar eða hreyfihömlunar og þurfa í einhverjum tilfellum á hjálpartækjum að halda. Heilsuvernd og forvarnir barna og unglinga eru einnig hluti af starfsviði iðjuþjálfa. Iðjuþjálfi tekur mið af styrkleikum, þörfum og umhverfi barns og vinnur að því að fyrirbyggja eða leysa ákveðinn vanda. Iðjuþjálfi einblínir ekki einungis á styrk og þarfir barnsins heldur leggur hann einnig ríka áherslu á styrkleika fjölskyldu barnsins í heild svo bæta megi lífsgæði og þátttöku þess í daglegu lífi.
Hvar er þjónusta iðjuþjálfa veitt fyrir börn?
Þær stofnanir sem veita börnum þjónustu iðjuþjálfa á Íslandi eru Æfingastöðin, Barna- og unglingageðdeild og Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins. Einnig er að finna iðjuþjálfa starfandi hjá nokkrum sveitarfélögum og skólum. Iðjuþjálfun hefur þó ekki náð sömu fótfestu innan íslenska sjúkra- og skólakerfisins líkt og víða erlendis þar sem er að finna iðjuþjálfa innan þeirra kerfa í auknum mæli.
Örfá sveitarfélög á landinu bjóða uppá þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Oft á tíðum þurfa börn og foreldrar að fara langar vegalengdir til að sækja þjónustu iðjuþjálfa. Það er bæði kostnaðarsamt og tímafrekt. Foreldrar hafa í mörgum tilfellum ekki kost á því að aka langar vegalengdir, þar sem það þýðir að taka þarf frí úr vinnu oft hálfan eða heilann dag.
Tökum dæmi um barn sem býr á Djúpavogi, þetta barn þarf að sækja þjónustu iðjuþjálfa einu sinni í viku. Til að fá viðeigandi þjónustu þarf að fara með barnið upp á Egilsstaði. Það þýðir dagsferð fyrir foreldra barnsins. Yfir vetrartímann er oft ófært og því fær þetta barn ekki þá þjónustu sem það þarf.
Ef skoðað er annað dæmi um barn sem býr í Reykjanesbæ sem þarf að fara vikulega í iðjuþjálfun kemur í ljós að þar er enginn iðjuþjálfi starfandi á barnasviði. Þetta barn þarf því að fara til Hafnarfjarðar eða Reykjavíkur til að sækja þjónustu iðjuþjálfa.
Sama á við um mörg sveitarfélög úti á landi. Vegalengdir eru langar og veður óútreiknanlegt. Skortur á iðjuþjálfum starfandi í sveitarfélögum úti á landi veldur því að börn eru ekki að fá þá þjónustu sem þau eiga rétt á. Við viljum því hvetja öll bæjarfélög til að koma á stofn þjónustu iðjuþjálfa við börn og ungmenni.
Jódís Garðarsdóttir,
Katrín Aðalsteinsdóttir
Thelma Karen Kristjánsdóttir,
4. árs nemar í iðjuþjálfunarfræði við Háskólann á Akureyri.
Heimildir: http://doktor.is/grein/barnaidjuthjalfun, Iðja heilsa og velferð, Leikur og iðja http://staff.unak.is/not/larag/Hugmyndafraediidj.pdf.