Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

  • Íbúasamráð um stóriðjuframkvæmdir í Helguvík
  • Íbúasamráð um stóriðjuframkvæmdir í Helguvík
    Dagný Alda Steinsdóttir
Miðvikudagur 13. maí 2015 kl. 07:00

Íbúasamráð um stóriðjuframkvæmdir í Helguvík

– Dagný Alda Steinsdóttir skrifar

Það er til mikils að vinna fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar að halda bindandi íbúakosningu um mikilvægt málefni eins og stóriðjuframkvæmdir í Helguvík. Bæjaryfirvöld ættu að setja sér það markmið að auka aðkomu og virkni borgaranna um ákvörðun mikilvægra framkvæmda sem varðar hagsmuni heildarinnar og með því styrkja félagsauð sveitarfélagsins.

Undanfarna mánuði hefur skapast mikil umræða í Reykjanesbæ um uppbyggingu kísil-og áliðnaðar í Helguvík. Helsta þrætueplið virðist vera hvort stóriðja eins og kísilverið Thorsil komi til með að menga eða ekki menga og hvaða áhrif iðnaðurinn mun hafa á líf og heilsu dýra og manna. Sumir hafa áhyggjur af varanlegri mengun og rýrnun loftgæða á meðan aðrir einbeita sér að jákvæðu hliðunum eins og atvinnusköpun. Það eru þeir sem gagnrýna fyrirhugaðar framkvæmdir og draga í efa á trúverðugleika matsskýrslna unnar af verkfræðingum á meðan aðrir telja sig knúna til að treysta vinnu faglærðra aðila og opinberra stofnanna.

Hvað sem því líður er greinilegt að mikið er í húfi fyrir bæjarfélagið sem reynir á umburðarlindi beggja málshafa innan samfélagsins sem og bæjaryfirvalda að leita lausna. Það er ekkert undarlegt við það að bæjarstjórnin einblíni á að auka tekjur bæjarsjóðs, það hefur einkennt þeirra starf frá byrjun kjörtímabilsins, að bjarga bænum frá barmi gjaldþrots. Það er heldur ekkert undarlegt við það að meirihluti bæjarbúa trúi því að við þurfum á auknum tekjum og aukinni atvinnu að halda, þar sem orðræðan undanfarin ár hefur snúist um atvinnuleysi bæði vegna brottfarar bandaríska hersins og seinna, afleiðingar bankahrunsins árið 2008. Breytingin er, háværar raddir efasemda um hvort þörfin fyrir auknar tekjur og meiri atvinnu eru þess virði að taka óafturkræfa ákvörðun og áhættu um mengunariðnað sem gæti haft neikvæð áhrif á lífsgæði bæjarbúa.

Hafa forsendur breyst?
Nú eru sjö ár liðin frá hruni og margt hefur breyst á þeim tíma og þá helst Þegar litið er til atvinnuleysis í Reykjanesbæ sem mældist um 15% á árunum 2008-2009 en mælist nú um 5,6% sem sýnir töluverða atvinnu uppbyggingu. Má því spyrja hvort forsenda fyrir stóriðjuþróun hafa ekki breyst? Einnig má líta til þess að orkufrek stóriðja er ekki sú ásýnd sem flestir Íslendingar kjósa þegar litið er til ferðamannaiðnaðarins sem byggir á því að ferðamenn njóti óspilltrar náttúru Íslands. Menn geta verið ósammála um hversu mikið eða lítið stóriðjan mengi en staðreyndin er sú að öll stóriðja er mengandi, í mismunandi mæli en áhrifin verða alltaf einhver, sem dæmi sjónmengun, hljóðmengun og loftmengun.

Heft umræða
Margir spyrja, hvar voru gagnrýnisraddirnar þegar deiliskipulag álversins Norðurál, og United Sílikon var samþykkt á sínum tíma? Til að svara þessari spurningu verður að líta til þess hvernig andinn var í þjóðfélaginu á þessum tíma þ.e. tími góðæðrisins á Íslandi árið 2007, sem þá var í hámarki. Í rannsóknarskýrslu alþingis um bankahrunið var rætt um ýmsa bresti samfélagsins til að veita stjórnvöldum og einkaaðilum gagnrýnið aðhald en þar segir m.a., „Móttökuskilyrði fyrir gagnrýni í samfélaginu voru þá slæm og þöggun jafnvel beitt, enda almenn ánægja með framgang fjármálamanna í aðdraganda bankahrunsins.“

Gagnrýni á stjórnunarhætti í Reykjanesbæ hefur verið í lágmarki og það má segja að engin hefð sé fyrir mótmælum eða opinberri gagnrýni á málefni sem varða samfélagið. Það má segja að ákveðinni þöggun hafi verið beitt því að þeir sem þorðu að taka til máls og gagnrýndu stóriðju framkvæmdirnar í Helguvík fengu oft miður skemmtilega gagnrýni frá sínum samborgurum. Í litlu samfélag eins og Reykjanesbær þar sem allir þekkja alla verða niðrandi nafnaköll á nokkrum einstaklingum að hálfgerðu einelti sem forðar öðrum frá því að taka til máls eða opinbera skoðanir sínar. Þessu verður að breyta ef betur skal fara hér í bænum. Ógagnrýnin óuppbyggileg umræða er ekki góð umræða vegna þess að hún kallar ekki á sýn sem þjónar hagsmunum heildarinnar.

Ákall um nýja stjórnunarhætti
Vonir um breytingar á úreltum stjórnunarháttum og aukið lýðræði eru bundnar nýjum meirihluta Reykjanesbæjar. Kosningarloforðin kölluðu á nýja sýn og opna stjórnsýslu og „allt upp á borðið“. Með slík loforð að baki hlýtur meirihluti bæjarstjórnar að fagna aukinni gagnrýninni umræðu og íbúakosningu um stóriðju framkvæmdir í Helguvík? Bæjarstjórninni hefur borist formleg tilkynning þess efnis að fyrirhugað er að safna undirskriftum hjá bæjarbúum svo að efnt verði til atkvæðagreiðslu þar sem bæjarbúar geti sjálfir ákveðið hvort heimila eða synja eigi breytingum á deiliskipulagi vegna byggingar kísilvers Thorsil. Bæjarstjórnin hefur 4 vikur til að svara beiðninni eða til 25. maí næstkomandi en í millitíðinni getur stjórnin samþykkt framkvæmdirnar í Helguvík án samráðs við bæjarbúa. Það er eingin ástæða til að ætla að svo verði vegna þess að góðir stjórnendur vita að þegar miklar breytingar verða í ytra umhverfi og þeim sem eru í forystu skortir innsæi til að takast á við þessar breyttu aðstæður er hætt við að frammistaða þeirra dali og traust til þeirra minnki.

Samráð við íbúa
Þótt gagnrýni á stóriðjuframkvæmdir hafa aukist til muna undanfarin misseri má þess geta að þegar fyrirverandi bæjarstjórn tók ákvörðun undir luktum dyrum árið 2007 um álverið í Helguvík var hópur fólks sem gekk undir nafninu „Sól á Suðurnesjum“ og voru þar háværar raddir sem andmæltu fyrirhuguðu álveri og kröfðust þess jafnframt að fallið yrði frá öllum framkvæmdum þar til vilji íbúa væri kannaður með kosningu. Í dag, átta árum seinna hefur hópur þeirra sem krefjast íbúakosningu stækkað ört. Engu skiptir hvað heiti hópsins er, þetta eru almennir íbúar bæjarins sem láti sig varða mikilvæg málefni og krefjast þess af bæjaryfirvöldum að fylgja lýðræðislegri stefnumótun í samráði við íbúa.

Í leiðsögn um „Lýðræði í sveitarfélögum“ sem haldið var í Háskóla Íslands í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga árið 2012 kemur fram að vaxandi áhugi á íbúalýðræði er m.a. vegna þess að stjórnmálamenn í sveitarfélögunum standa frammi fyrir kjósendum, sem ekki eru bara sannfærðari en áður um rétt sinn til áhrifa, heldur eru auk þess hæfari en nokkru sinni fyrr, vegna aukinnar menntunar og betri aðgangs að upplýsingum, til að standa upp í hárinu á stjórnmálamönnum og stjórnsýslu sveitarfélaganna.

Nýr meirihluti gaf kjósendum loforð um nýja sýn í umhverfismálum, opna stjórnsýslu og aukið íbúalýðræði. Málefni eins og stóriðja varðar ekki eingöngu fjármál bæjarins heldur einnig heilsu manna og dýra á svæðinu. Með því að efna til bindandi íbúakosninga eru bæjaryfirvöld ekki bara að efna kosningarloforð sitt heldur munu þeir verða fordæmi í öðrum stórum málum þjóðarinnar.

Virðingarfyllst,
Dagný Alda Steinsdóttir

Public deli
Public deli