Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Íbúar Reykjanesbæjar eru glaðvakandi!
  • Íbúar Reykjanesbæjar eru glaðvakandi!
Föstudagur 30. maí 2014 kl. 17:07

Íbúar Reykjanesbæjar eru glaðvakandi!

Gunnar Þórarinsson skrifar.

 

Ég settist í bæjarstjórn með 7 manna meirihluta Sjálfstæðisflokks fyrir fjórum árum. Fljótlega kom í ljós að lítið samráð yrði haft við mig um framvindu mála þó að ég væri í 2. sæti á listanum. Eftir átök varðandi málefni hjúkrunarheimilis gerði ég mér grein fyrir því að ég var einn á báti í meirihlutanum. Ekkert var hlustað á mín sjónarmið þó að ég færði fram haldgóð rök. Mér var því nauðugur einn kostur að leita annarra leiða til þess að ná fram skynsamlegri lausn í málinu. Þannig þurfti ég  að beita mér í flestum mikilvægum málum. 
 
Þegar dró að því að ákveða framboðslista fyrir komandi kosningar, grunaði mig sterklega að til stæði að ýta mér til hliðar af framangreindum ástæðum.  Þess vegna barðist ég fyrir prófkjöri frekar en uppstillingu.  Ég ákvað að fara gegn forystunni í prófkjörinu, þar sem ég var óánægður með fjárhagsstöðu bæjarins og margt annað í stjórnarháttum meirihlutans. Djarft, sögðu sumir, en aðrir ókurteisi að fara gegn foringjanum. Í kjölfarið fylgdi hatrömm barátta, sérstaklega af hálfu bæjarstjórans, sem var því miður ekki vandur að sínum vinnubrögðum.  
 
Þessi átök urðu hins vegar til þess að bæjarbúar vöknuðu af værum blundi. Allt í einu sáu þeir nýja hlið á stjórnarforystu bæjarfélagsins. Hún hafði opinberað yfirgang sinn og oflæti. Þegar mér var bolað út af listanum eftir að hafa endað í 5. sæti, var aðeins ein leið fær. Ekki af því ég væri fúll, heldur vegna þess að ég þoli ekki órétt og vildi hvorki láta fara illa með mig né þá sem studdu mig í prófkjörinu. Eina færa leiðin var sérframboð. Með þrjósku, en fyrst og fremst hvatningu og góðum stuðningi samherja minna á framboðslistanum og fjölda annarra, var teningunum kastað.  Frjálst afl varð til.  
 
Mig grunaði aldrei að þessi viðspyrna gegn ráðandi öflum hefði jafnmikil áhrif á umræðuna og raun hefur orðið á. Réttmæt gagnrýni hefur leitt til þess að þátttaka í stjórnmálaumræðunni hefur verið slík, bæði á netmiðlum og í fjölmiðlum, að það er með hreinum ólíkindum. Íbúar Reykjanesbæjar eru svo sannarlega glaðvaknaðir til umhugsunar! 
 
Hvernig sem allt fer, þá getum við hjá Frjálsu afli verið stolt af því að hafa verið í fararbroddi í baráttunni fyrir vandaðri vinnubrögðum í Reykjanebæ. Í ljós hefur komið að hér er stór hópur fólks sem vill breyta samfélaginu til góðs og er tilbúið að leggja mikið að mörkum í baráttuna. 
 
Nú er ögurstundin runnin upp.  Góður stuðningur við Á-lista Frjáls afls veitir okkur styrk til að laga fjárhagsstöðu bæjarins og koma mörgum góðum málum til leiðar, bæjarbúum til heilla. 
 
Fram til sigurs Frjálst afl!
 
Setjum X við Á
 
Gunnar Þórarinsson 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024