Íbúar kjósa um framtíð Reykjanesbæjar
- Verksmiðjubær eða náttúruperla?
Eftir töluverða baráttu og undirskriftir rúmlega 25 prósent íbúa Reykjanesbæjar, tókst að herja út samþykki til að íbúakosning yrði haldin um hvort þriðja stóriðjan skyldi rísa í túnfæti bæjarins. Mótbárurnar voru þær helstar að slík íbúakosning myndi kosta bæjarfélagið tugi milljóna. Seinna kom í ljós að þetta var ekki rétt. Kosningarnar eru alfarið kostaðar af Þjóðskrá, það er svo undir bæjaryfirvöldum komið hversu miklu púðri þau vilja eyða í að auglýsa kosningarnar og kynna íbúum augljósan rétt sinn til að hafa áhrif á eigin framtíð.
Í stað þess að leggja í þá vegferð hefur meirihlutinn gefið bæjarbúum langt nef og sagt: „þið megið alveg kjósa en það verður ekkert mark tekið á niðurstöðunni.“ Rökin og mótbárurnar eru eins og fyrr fjárhagslegs eðlis. Margir taka yfirlýsingum bæjarstjórnar, um að hunsa útkomu kosninganna á þann veg að það borgi sig ekki að kjósa. Því er einmitt öfugt farið. Núna verða íbúar að krefjast áheyrnar og kjósa um framtíðarsýn bæjarfélagsins.
Hvað er málið ?
Tvö stóriðjuver, álver Norðuráls og kísilmálmverksmiðja United Silicon hafa þegar fengið tilskilin leyfi til að hefja rekstur í Helguvík. Um er að ræða orkufrekan iðnað sem mikill styr stendur um í þjóðfélaginu. Stöðugt sterkari rök hníga í þá átt að stóriðjan skili samfélaginu sáralitlum arði, gangi um of á orkubúskap framtíðar og auki mengun. Þrátt fyrir þetta hafa bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ valið að greiða götur fyrir enn eina stóriðjuna, stærstu kísilmálmverksmiðju í heimi.
Leynd yfir samningum við Thorsil
Hver er samningurinn við Reykjaneshöfn og Thorsil? Nokkrir bæjarbúar hafa ítrekað sóst eftir því að fá að sjá þennann samning en bæjaryfirvöld hafna fyrirspurninni vegna þess að Thorsil vill ekki að hann sé opinberaður? Hvað er í þessum samningi sem ekki má líta dagsins ljós? Er það nóg ef forsvarsmenn bæjarins segja að bæjarfélagið verði bótaskylt án nokkurra útskýringa eða röksemda. Það geta varla talist málefnaleg rök að segja til dæmis „við erum á einhvern hátt bundinn í báða skó,” eins og foráðsmenn bæjarins hafa látið hafa eftir sér.
Mengunarlaus stóriðja í bakgarðinum
Flestum þætti nógu róttæk aðgerð að reisa álver í eins kílómeters fjarlægð frá byggð, en að bæta í og reisa tvö mega kísilver á sama stað er einhvern veginn svo stórkallalegt að það tekur engu tali. Við skulum hafa það alveg á hreinu að mengunarlaus stóriðja er ekki til enda eru kísilverin tvö þegar farin að metast um það í fjölmiðlum hvor þeirra mengi meira. Saman tekst þeim ábyggilega vel upp.
Atvinnuleysið
Ein megin röksemdin fyrir uppbyggingu stóriðju er meint atvinnuleysi á svæðinu. Þetta atvinnuleysi hefur verið mest áberandi meðal kvenna. Ekki geri ég ráð fyrir því að konur fagni nýjum atvinnutækifærum á vöktum í stóriðju.
Atvinnuleysi hefur sem betur fer minnkað á undanförnum misserum fór úr 5,4% í janúar í 3,1% í ágúst sem er minna en á höfuðborgarsvæðinu. Með auknum ferðamannastraumi eykst álagið á Leifsstöð og nú er svo komið að starfsfólk þar kemur í heilu rútuförmunum úr öðrum byggðarlögum. Á næstu árum er því spáð að það þurfi 5000 nýja starfsmenn í ferðaþjónustuna í landinu. Ætlar Reykjanesbær ekki að taka þátt í þeirri uppbyggingu?
Reykjanesið er dásamleg náttúruperla og ferðaþjónustan á þar ótæmandi möguleika ef okkur auðnast að eyðileggja þá ekki með úreltri atvinnustefnu. Viljum við vera verksmiðjubærinn sem síaukinn straumur ferðamanna sneiðir hjá ?
Erfðasilfrið
Það má segja að núverandi bæjarstjórn hafi fengið þennan málatilbúnað í arf. Það réttlætir þó engan veginn að hún bregðist við með því að vanvirða vilja þeirra sem studdu hana til valda. Við töluðum mikið um íbúalýðræði og aukið gegnsæi í aðdraganda síðustu kosninga. Við vildum breyta stjórnarháttum fyrri stjórnar. Það skýtur því skökku við að fulltrúar okkar í bæjarstjórn bregðist við óskum íbúanna með valdhroka og lítilsvirðingu.
Kosningar
Það var ljóst við söfnun undirskrifta í sumar að bæjarbúar vildu fá eitthvað að segja um stóriðjuframkvæmdirnar í Helguvík og greinilegt að menn voru uggandi yfir öllum þessum ósköpum. Það er óþarft að ræða hvort það verði mengun eða ekki, það vita allir heilvita menn og að þræta um það er kjánalegt. Mengunin fer þangað sem vindurinn blæs sem sannaðist best þegar fnykurinn frá fiskibræðslunni í Helguvík lá dögum saman yfir Heiðarhverfinu í stífri norðanáttinni í sumar. Menn höfðu orð á því að þeim hefði verið lofað á sínum tíma að óþefurinn frá bræðslunni í Helguvík mundi aldrei ná í byggð. Sitt sýnist hverjum að treysta háleitum loforðum þeirra sem eiga allt undir fjárhagslegum hagnaði.
Stóriðjuframkvæmdirnar í Helguvík eru eitt stærsta umhverfismál okkar tíma og áhrif þess munu hafa gríðarlegar breytingar í för með sér fyrir í framtíð fólksins og bæjarfélagsins. Loftgæði munu rýrna, sjónmengun aukast og samfara því mun fasteignaverð falla. Við verðum spyrja okkur hvað verður um menningar-og rokk bæinn okkar. Munum við hvetja börn og barnabörn okkar til að hefja búskap sinn í bæjarfélaginu og munum við vera sátt við ákvarðanir okkar að fórna náttúruperlu okkar, í mengandi iðnað sem engin þörf er fyrir? Hvernig svörum við fyrir það? „Við vorum á einhvern hátt bundinn í báða skó!“
Ég hvet alla til að dusta rykið af rafrænu skilríkjunum sínum og taka þátt í kosningunum frá 24. nóvember til 4. desember. Látum á það reyna hvort við höfum eitthvað með framtíð bæjarins okkar að segja. www.island.is/islykill
Dagný Alda Steinsdóttir