Íbúakosningin framundan
- Til hvers er verið að kjósa?
Margir hafa velt vöngum yfir gildi þeirrar íbúakosningar sem fyrirhuguð er í nóvember, í framhaldi af viðtali við bæjarstjóra Reykjanesbæjar á Stöð 2 þegar að hann svaraði spurningu fyrirspyrjanda eitthvað á þá leið að þessi kosning skipti í sjálfu sér litlu máli þar sem að verkefnið héldi áfram þrátt fyrir hana. Einhverjir hafa brugðist illa við þessu og spyrja hvers vegna bæjarstjórn Reykjanesbæjar sé að leggja út í kosningar sem skipta engu máli.
Í þessu sama viðtali var rætt við formann Landverndar um hvað bæri að gera til þess að hlustað sé að vilja íbúa. Svar hans var á þá leið að íbúar þyrftu að komast fyrr að í ferlinu þegar teknar væru mikilvægar ákvarðanir er varða hagsmuni íbúa.
Bæjarstjórn hefur ekkert val
Forsvarsmönnum undirskriftasöfnunarinnar var í upphafi gerð grein fyrir þeim vilja bæjarstjórnar að hafa þessar kosningar ráðgefandi en ekki bindandi. Engu að síður ákváðu þeir að hefja söfnun undirskrifta. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur ekkert val um það hvort þessi kosning fari fram eða ekki. Eftir að það var ljóst að 25% íbúa hafði skrifað undir í undirskriftasöfnun sem lauk fyrir nokkru skuldbatt það bæjarstjórn til þess að láta þessar kosningar fara fram. Skv. sömu lögum hefur bæjarstjórn hins vegar heimild til þess að ákveða hvort þessi skuli vera ráðgefandi eða bindandi og í þessu tilfelli var fyrri kosturinn valinn.
Aðalskipulag heimilar uppbyggingu stóriðnanar í Helguvík
Í aðalskipulagi hvers sveitarfélags er ákveðið hvar og hvernig byggja upp í sveitarfélagi. Þar er t.d ákveðið hvar eigi að staðsetja atvinnustarfsemi og þá hvers konar. Þar er ákveðið hvar íbúabyggð skuli rísa, hvar eigi að vera blönduð byggð og fl. og fl.
Í núgildandi aðalskipulagi frá 2008 – 2024 sem samþykkt var í bæjarstjórn 18. maí 2010 og staðfest af Svandísi Svavarsdóttur ráðherrra þann 3. nóv. sama ár, er eftirfarandi að finna.
3.2.1 Núverandi iðnaðarsvæði 1 Helguvík. Í Helguvík er gert ráð fyrir uppbyggingu framtíðariðnaðar í Reykjanesbæ. Þar er gert ráð fyrir almennum iðnaði, verksmiðjum, iðjuverum, orkufrekum iðnaði, stórum og smáum iðnaði og verkstæðum. Áhersla er lögð á aðstöðu fyrir starfsemi sem tengist sjóflutningum og nýta nálægð við Helguvíkurhöfn og Keflavíkurflugvöll.
Með samþykkt þessa aðalskipulags á þessum tíma var uppbygging stærri iðnaðar Í Helguvík heimiluð að öllum skilyrðum séu uppfylltum. Þetta aðalskipulag var á sínum tíma samþykkt í fullri sátt innnan bæjarstjórnar og ekki minnist ég neinna mótmæla vegna samþykktar þess.
Eitt veitingahús við Hafnargötu
Margir hafa spurt að því að hvers vegna verið sé að byggja 2 kísilmálmverksmiðujur í Helguvík. Hvort ekki sé nóg að hafa bara eina. Því er til að svara að bæjarstjórn hefur enga heimild til þess að koma í veg fyrir slíkt. Við gætum til dæmis ekki ákveðið að hafa bara eitt veitingahús við Hafnargötuna eða bara einn pizzustað af því að viljum það bara. Skipulag heimilar slíka starfsemi og bæjarstjórn fær engu um það ráðið eftir að skipulag hefur verið samþykkt.
Íbúar komi fyrr að
Formaður Landverndar sagði í áður nefndu viðtali að koma þyrfti íbúum fyrr að áður en ákvarðanir eru teknar. Ég tek heils hugar undir það. Nú er farin af stað endurskoðun á núgildandi aðalskipulagi og til þess að íbúar gætu komið sínum sjónarmiðum að, var haldinn opinn íbúafundur um aðalskipulagið þann 19. sept. sl. Þar komu fram ýmsar góðar hugmyndir og ábendingar frá þátttakendum sem nýttar verða í vinnunni framundan. Reiknað er með að haldið verið annað íbúaþing áður en endanlegar tillögur liggja fyrir og mér finnst það koma vel til greina verði kosið um nýtt aðalskipulag meðal íbúa í framhaldinum. Með þessu erum við að skapa vettvang fyrir íbúa til þess að koma sínum sjónarmiðum að og hafa síðan áhrif á endanlega niðurstöðu.
Of seint
Það er því með réttu hægt að halda því fram að það sem nú á að fara kjósa um er eitthvað sem er búið og gert. Aðalskipulag var samþykkt án athugasemda á sínum tíma, samningar um uppbygginguna voru gerðir fyrir mörgum árum. Öll skilyrði hafa verið uppfyllt skv. niðurstöðum eftirlitsaðila. Sölusamningar hafa verið undirritaðir og orkuöflun er vel á veg komin hvað varðar fyrstu áfanga bygginga og kostnaður vegna undirbúnings hleypur orðið á milljörðum.
Það myndi því setja stjórnvaldið Reykjanesbæ í ansi hreint sérkennilega stöðu ef ákveðið væri að hlaupa frá öllu saman nú.
Að teknu tilliti til þeirra atriða sem að ofan eru nefnd hafa kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar metið það svo að kosningin sem framundan er geti aldrei orðið annað en ráðgefandi fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Þátttaka mikilvæg
En þar sem að þessi kosning mun fara fram er mikilvægt að sem flestir nýti sér rétt sinn og kjósi. Við getum nýtt þessa kosningu til margra hluta og ekki síst til að átta okkur á hvort svona aðferð sé góð til þess að kalla fram vilja íbúa í ýmsum málum í framtíðinni. Lærum af þessu og látum okkur þetta að kenningu verða.
Guðbrandur Einarsson
forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar