Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 5. apríl 2005 kl. 18:50

Í trúðslegum kraga

Skrifað í tilefni ranginda borna á Siðmennt – félags siðrænna húmanista á Íslandi, í fermingarpredikun séra Ólafs Odds Jónssonar prests í Keflavíkurkirkju.

Svanur Sigurbjörnsson læknir og stjórnarmaður í Siðmennt skrifar.

Ágætu lesendur.  Hér á eftir fara tilvitnanir í (inndreginn texti) og svör (megin mál vinstra megin) greinarhöfundar við öllum málsgreinum í predikunarræðu séra Ólafs Odds Jónssonar sem að hann hélt í marsmánuði 2005 yfir söfnuði og fermingarbörnum í Keflavíkurkirkju. 

[Predikun séra Ólafs Odds Jónssonar:]

Trúðurinn sem felldi tárin [yfirskrift predikunarinnar]

Kæru fermingarbörn, foreldrar og aðrir aðstandendur,
ég veit ekki hvort þið hafið heyrt söguna um trúðinn sem felldi tárin. Þið vitið hvað trúðar gera. Þeir skemmta fólki og hjálpa okkur til að fá nýja vídd í lífið og tilveruna, sjá lífið frá spaugilegum hliðum, sem getur verið mjög skemmtilegt og gefandi. Þið sem sáuð Robin Williams leika trúðinn á Skjá einum á föstudagskvöldið, sem vildi létta byrðar langveikra barna, vitið hvað ég er að tala um.

Trúðar eru gjarnan með rautt nef og kraga sem er ekkert ósvipaður prestakraganum. [breiðletrun greinarhöfundar]

Hitt veit ég að þið hafið öll heyrt og séð grínistann Jón Gnarr. Þegar mamma hans kallaði hann í matinn þegar hann var lítill kallaði hún nafnið hans, Jón Gunnar, svo hratt að úr varð Jón Gnarr. Hann fór síðan að merkja skólabækurnar með þessu orði og notaði það sem listamannsnafn, þegar hann fór að skemmta öðrum.

Sem listamaður vildi hann þóknast sem flestum, vera people pleaser, eins og maður segir á góðri keflvísku og slá í gegn. Hann viðurkennir að hafa verið haldinn fullkomleikaáráttu. En hann komst að raun um að hann er ófullkominn og hefur sín takmörk, rétt eins og við hin. Enginn er fullkominn.

Þar kom í lífi Jóns Gnarr að hann hafði enga löngun lengur til að skemmta öðrum og á tímabili langaði hann ekki til að lifa lífinu. Honum leið mjög illa eins og við vitum að getur gerst hjá ungu fólki og raunar hvaða aldurshópi sem er.

Við vorum einmitt nýlega að ræða saman í Myllubakkaskóla, skólanum ykkar um líðan unglinga á Suðurnesjum og við vitum að ungu fólki, einkum drengjum líður ekki nógu vel. Stúlkur hafa sitt tengslanet eins og konur yfirleitt og spjara sig oft betur en drengir, sem geta lent á flæðiskeri þegar það að skara fram úr gengur út í öfgar í samkeppnissamfélaginu. Einmitt það gerðist í lífi Jóns Gnarr. Hann varð undir í samkeppninni að honum fannst.


Þetta er ágætis félagsleg athugun hjá séra Ólafi Oddi.  Í þjóðfélögum eins og Japan þar sem samkeppni er hörð og félagslegur þrýstingur mikill er mikið um sjálfsvíg.  Aftur meðal blökkumanna í Bandaríkjunum er ekki eins mikil samkeppni og sjálfsmorðstíðni er lægri en meðal hvítra eða Japana.  Áfram heldur Ólafur Oddur..

Sagt hefur verið að þjáningin sé uppspretta trúarinnar. Þegar okkur líður illa þá leitum við til Guðs. Þá er hann einn eftir. Margir hafa borið því vitni.

Hvað með foreldra, eldri systkini, vini, heilbrigðisstarfsfólk, unglingamóttökur, kennara, skólasálfræðinga, geðdeild Landspítalans og aðra þá sem aðstoð geta veitt?  Þetta eru áþreifanlegir aðilar sem hægt er að leita til.

 

Trúðurinn með tárin "fór á skeljarnar", eins og hann orðaði það sjálfur í viðtali nýverið og bað Guð að hjálpa sér.

Hann hafði lært að biðja til Guðs sem barn hjá ömmu sinni og hefur alltaf verið trúhneigður, þótt trúin hafi skipt hann mis miklu máli á ýmsum tímaskeiðum lífsins. Þegar honum gekk vel í skemmtanabaransanum þá taldi hann að hann gæti spjarað sig sjálfur. En þegar illa gekk leitaði hann til Guðs. 

Jón Gnarr skrifar nú athyglisverða pistla í Fréttablaðið. Honum finnst merkilegt að félagsskapurinn Siðmennt, skuli snúast gegn kristinfræði í skólum [breiðletrun greinahöfundar]af öllu því sem herjar á börn og unglinga í dag. Honum finnst það álíka og að snúast gegn heilbrigðu matarræði.

Hér fara presturinn og Jón Gnarr með rangt mál.  Siðmennt hefur ekki snúist gegn kristinfræði í skólum en farið þess á leit við skólayfirvöld að kristinfræði sé borin fram sem fræðsla en ekki trúarboðskapur.  Jafnframt er þess krafist af Siðmennt að ekki sé iðkað bænahald í skólum því að það er trúariðkun en ekki fræðsla.  Siðmennt finnst eðlilegt að meira sé fjallað um kristni en önnur trúarbrögð í trúabragðafræðslu vegna langrar sögu kristninnar hérlendis en gæta þarf þess að önnur trúarbrögð og lífsskoðanir trúlausra séu ekki skilin útundan í þeirri fræðslu.  Börn landsins ættu ljúka barnaskóla með þá lágmarks vitneskju að það eru til margs kyns trúarbrögð auk þess jafnframt að til eru fjölmennir hópar manna sem aðhyllast ekki nein trúarbrögð og eru ekki verri manneskjur þar fyrir.


Siðmennt hefði [Ertu enn að vitna í Jón Gnarr? – innskot höfundar] fremur átt að taka upp baráttu gegn fíkniefnum og komast að sömu niðurstöðu og þið gerðuð á fræðslufundinum með hundinum BASSA og Þorsteini Þorsteinssyni, tollgæslumanni: Eiturlyf, aldrei, oj bara.

Furðulegur og rangur málflutningur! Siðmennt er félag um siðrænan húmanisma og lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi sér í lagi mannréttindi og trúfrelsi.  Siðmennt sér um borgaralegar fermingar á Íslandi og í þeim fermingarundirbúningi sem þar fer er einmitt fjallað um hætturnar af notkun fíkniefna og hundurinn Bassi kemur í heimsókn!  Að auki er lagt uppúr því að ungmennin temji sér sjálfstæða hugsun og rökfestu en það er mikilvægt til þess að standast þrýsting frá þeim sem eru að veiða þau til neyslu fíkniefna.  Þó að Siðmennt leggi þannig baráttunni lið gegn notkun fíkniefna er ekki þar með sagt að félagið hafi verið stofnað með það að megin markmiði.  Það ætti því ekkert "fremur" að sinna því en öðrum mannréttindamálum sem að það sinnir.  Maður segir t.d. ekki félagi hrossaræktarmanna að það ætti fremur að styrkja dýravernd á Íslandi!  Til þess eru sérstök dýraverndunarfélög.

 

Jón Gnarr spyr í Fréttablaðinu: "Hvað skaðar það manninn að læra kristin fræði?  Hvað getur það hugsanlega gert manni illt?  Hver getur farið illa út úr því?  Hann man ekki eftir því að hafa séð mynd af ólánssömum manni framan á DV undir fyrirsögninni: Kristin fræði eyðilögðu líf mitt!

Hann [Jón Gnarr] bætir síðan við að kristin fræði séu góð fræði.  Inntakið í þeim er þetta: "Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.  En kannski er það eitthvað sem fólk vill ekki heyra?"

 

Hvað á presturinn við um "fólk"?  Fólkið í Siðmennt eða fólk almennt?  Er Ólafur Oddur að ýja að því að fólkið í Siðmennt eða annað fólk aðhyllist ekki almennar siðferðisreglur?  Ég veit ekki til þess að “fólk” almennt né fólk í Siðmennt sé nokkuð á móti gagnkvæmisreglunni.  Þessi regla er víða til, m.a. í heimspeki forn Grikkja og er því ekki eingöngu kristni að þakka.

Það er með ólikindum hvað séra Ólafur Oddur predikar mikil rangindi og fordóma (t.d. um siðgæði “fólks”) í gegnum Jón Gnarr sem málpípu sína yfir ungmennunum og þeim aðstandendum sem á hlýddu.  Hann fer rangt með stefnu Siðmenntar í trúfræðslumálum og stingur uppá því að félagið snúi sér fremur að baráttunni gegn fíknaefnanotkun.  Þessu varpar hann fram að því er virðist án þess að hafa nokkuð kynnt sér þá fermingarfræðslu sem fer fram hjá Siðmennt. 

Það er von mín að séra Ólafur Oddur Jónsson og aðrir prestar landsins kynni sér mannúðar- og jafnréttisstefnu Siðmenntar en hana má nálgast á heimasíðu félagsins www.sidmennt.is. Jafnframt má finna þar lýsingu á fermingarfræðslu þeirri sem fer fram fyrir borgaralega fermingu ár hvert. 

Svanur Sigurbjörnsson.

Höfundur er stjórnarmaður í Siðmennt – félagi siðrænna húmanista á Íslandi.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024