Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Í tilefni kosninga
Föstudagur 28. október 2016 kl. 06:00

Í tilefni kosninga

- Aðsend grein frá Guðmundi Karli Þorleifssyni

Kæru Reyknesingar, þar sem ég Guðmundur Karl Þorleifsson er að bjóða mig fram í fyrsta sæti fyrir Íslensku þjóðfylkinguna  í þessu kjördæmi er auðvitað ekki úr vegi að ég kynni mig örlítið. Ég er innfæddur Keflvíkingur og hef lengstum starfað þar.  Lærði rafvirkjun  hjá  föður mínum, Þorleifi Sigurþórssyni, á svæðinu þar til ég hóf nám í Tækniskóla Íslands.  Þar lauk ég námi sem rafmagnsiðnfræðingur. Starfaði ég fyrst eftir nám sem rafmagnseftirlitsmaður fyrir rafveitur á Suðurnesjum. Þá hóf ég störf fyrir verkfræðideild ÍAV á Keflavíkurflugvelli, en síðar sem sjálfstæður verktaki. Lengi starfaði ég sem verktaki fyrir Keflavíkurbæ,  síðar eftir sameiningu sveitafélaganna í Reykjanesbæ. Eru enn flest umferða- og gangbrautaljós í sveitafélaginu uppsett undir minni umsjón.  Þá þjónustaði ég einnig Hitaveitu Suðurnesja á fyrstu árum hennar sem verktaki við ýmis verkefni, er þar helst að nefna línubyggingar og viðhald þeirra en í bernsku Hitaveitunnar brugðust gömlu línurnar oft við verstu verður. Í dag rek ég Rafspennu ehf. sem einna þekktust er fyrir innflutning á jólaljósum, bæði fyrir sveitarfélög og svo einstaklinga.

Ég hef verið virkur í félagsstarfi á Suðurnesjum. Þar er helst að nefna  stofnun Björgunarsveitarinnar Stakks, sem var virkur félagsskapur sem lét mikið til sín taka á árum áður. Þá er ég virkur félagi í Skotfélagi Keflavíkur, og ekki síst í Stangaveiðifélagi Keflavíkur en þar hef ég verið félagsmaður frá stofnun. Ég hef látið þó nokkuð til mín taka í umhverfismálum og var það nýjasta í þeim efnum í sambandi við sinnuleysi opinberra aðila, vegna lækkunar jarðvatnsstöðu í Landbroti, sem orsakaði geigvænleg náttúruspjöll og eyðileggingu á náttúruverndarsvæði Grenlækjar. Þá hef ég einnig lagt mikla áherslu á að brugðist verði skjótt við uppbyggingu helstu áfangastaða ferðamanna, þannig  að ummæli þeirra verði ekki neikvæð gagnvart landinu og við gætum lands okkar af skynsemi. Það er einnig mikilvægt að sett verði aukið fé til vegagerðar og þarf að keyra áfram af þunga að endanlega klára tvöföldun Reykjanesbrautar. Það mun ég gera, fái ég til þess brautargengi. Ég mun einnig berjast fyrir því að heilbrigðisþjónusta verði  efld og færð í nærþjónustu þeirra sem hana þurfa að nota. Þeir sem búa í Suðurkjördæmi eiga að geta notið bestu þjónustu í nærumhverfi sem völ er á , hér þarf einungis nýja nálgun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég mun beita mér fyrir hækkun skattleysismarka, þannig að gjaldendur fari ekki að greiða til opinberra aðila fyrr enn þeir hafi náð 300.000 króna launum. Þá mun ég beita mér af fullum þunga, fyrir gjaldfrjálsri grunnheilbrigðis þjónustu, sem og afnámi skerðingarinnar króna á móti krónu, hjá öldruðum og öryrkjum. Þessa breytingu er hægt að láta taka gildi  strax. Þetta myndi koma öllum til góða, en ekki síst þeim sem litlar tekjur hafa, þar sem skerðingarhlutfall myndi hverfa. Þá geta þeir sem ekki ná þessu tekjumarkmiði bætt við sig tekjum, án þess að þeim sé hegnt fyrir að leggja sitt að mörkum og þar af leiðandi auka hagvöxt í landinu. Erum við í Íslensku þjóðfylkingunni eindregið með frjálsum strandveiðum, allir eiga að geta fengið tækifæri í þessu landi til rekstrar lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem meðvitað virðist mörg undanfarin ár hafa mætt litlum sem engum skilningi yfirvalda. Það er allra hagur að fólk fái að blómstra, þá blómstra byggðir landsins.

Nú bið ég þig kjósandi  góður, að veita mér liðsinni svo ég komist á löggjafaþing í komandi kosningum og þar með tryggja það að Suðurnesjamaður tali fyrir ykkur.
Það  gerir þú með því að setja X við E


Bestu þakkir og kær kveðja, 
Guðmundur Karl Þorleifsson, rafmagnsiðnfræðingur