Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

„Í þeim eina tilgangi að sverta mannorð mitt og taka mig af lífi“
Fimmtudagur 3. nóvember 2011 kl. 21:31

„Í þeim eina tilgangi að sverta mannorð mitt og taka mig af lífi“

Þorsteinn Gunnarsson, fráfarandi formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, er afar ósáttur við þær fullyrðingar núverandi formanns, Jónasar Þórhallssonar, að knattspyrnudeildin hafi tapað 21 milljón króna á rekstrarárinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þorsteinn segir í yfirlýsingu, sem hann sendi frá sér, að enn séu tveir mánuðir eftir af rekstrarárinu. Þess utan eigi knattspyrnudeildin útistandandi 8-10 milljónir vegna sölunnar á Jósef Kristni Jósefssyni. Svo á deildin eftir að fá uppgjör frá Lýsi. Hann býst því ekki við að tapið sé meira en 5-7 milljónir króna.


Hægt er að sjá yfirlýsingu Þorsteins í heild sinni hér að neðan.

Yfirlýsing Þorsteins Gunnarssonar:

Það er ábyrgðarleysi að kasta því fram að það sé 21 milljón króna tap á rekstri deildarinnar því það er alrangt. Uppgjörið ársins liggur ekki fyrir. Ég vona að tapið verði ekki meira en á bilinu 5-7 milljónir en það eru enn nokkrir óvissuþættir sem gætu sett strik í reikninginn, til hins verra eða betra.

Ég er dapur í bragði yfir því hvernig þessu hefur verið kastað fram, að því er virðist í þeim eina tilgangi að sverta mannorð mitt og taka mig af lífi þar sem ég setti mig upp á móti því að ráða Guðjón Þórðarson sem þjálfara. Ég er búinn að starfa hér af fullum heilindum í þrjú ár fyrir félagið, bæði sem formaður og markmannsþjálfari og þetta eru ekki þær kveðjur sem ég átti von á frá nýjum formanni sem jafnframt var varaformaður í gömlu stjórninni.

Enn eru tveir mánuðir eftir af rekstrarárinu og endurskoðaður ársreikningur verður tilbúinn í febrúar og þá kemur endanlega í ljós rekstrarniðurstaða ársins en það er ljóst að reksturinn er erfiður. Framkvæmdastjóri deildarinnar kastaði þessu stórtapi fram á aðalfundinum í vikunni án þess að útskýra frekar og þessa tölu hafði ég ekki heyrt áður. Þegar ég bað um nánari útskýringar kom í ljós að það vantaði ýmislegt inn í þessu jöfnu.

Þar er helst að nefna útistandandi kröfu á búlgarska liðið Burgas upp á 8-10 milljónir fyrir Jósef Kristinn Jósefsson sem við seldum í febrúar síðastliðum. Þá vantar lokauppgjör við Lýsi sem kemur í lok ársins og byggir á bónuskerfi fyrir þá lifur sem kemur á land í Grindavík og það stefnir í mjög gott haust. Hér er um nokkrar milljónir króna að ræða.

Þá eigum við tvo bíla sem við höfum ekkert að gera við en verðmæti þeirra er 4-5 milljónir. Hefur annar bíllinn verið settur á sölu. Þá höfum við alltaf tekið skorpu í lok árs að sækja meira fé og að sjálfsögðu stendur til að gera það nú og oftar en ekki tekist vel til.

Þá höfum við verið í viðræðum við stóran styrktaraðila í haust en við bíðum enn eftir niðurstöðu í því máli en líklega verður það ekki fyrr en á næsta ári. En á þessu sést að það vantar stóra tekjupósta í jöfnuna en helsta óvissan er krafan á búlgarska liðið.

Að sögn framkvæmdastjórans miðast 21 milljón við áætlaðan kostnað út árið miðað við að greiða allar skuldir og við gerum upp að fullu við alla leikmenn og starfsmenn en við höfum verið að vinna að því að gera starfslokasamninga við tvo leikmenn þannig að vonandi lækkar þessi tala.

Þegar ég tók við formennsku fyrir þremur árum komu í ljós 3-4 milljón króna skuldir sem við höfum ekki vitneskju um. Við réðumst á þær án þess að vera básúna það út um allt og kláruðum og tókst okkur að skila rekstrinum réttum megin við núllið það árið. Í fyrra varð hins vegar 5 milljón króna tap á rekstrinum.

Í sumar og haust hef ég lagt áherslu á í stjórninni að stíga á bremsurnar eins og hægt er í útgjöldum. Meðal annars var ég afar ósáttur við að tekin var ákvörðun um það á meðan ég var staddur í sumarfríi í Danmörku, að kaupa tvo bíla fyrir vallarstjóra og framkvæmdastjóra.

Það ber að halda því til haga sem rétt er varðandi allt þetta mál. Þessi umræða hefur stórskaðað fótboltann í Grindavík. En ég sagði við stjórnina þegar ég ákvað að stíga til hliðar að ég myndi að sjálfsögðu hjálpa til við að loka þessu ári fjárhagslega enda er mér annt um félagið og þar hef ég átt þrjú frábær ár. Ég mun standa við að þrátt fyrir þessa aðför að mér.

Virðingarfyllst,
Þorsteinn Gunnarsson