Í skólunum okkar á að vera gott starfsumhverfi

– þar sem starfsfólki og nemendum líður vel

Í síðustu bæjarstjórnarkosningum lagði Framsóknarflokkurinn áherslu á að brugðist yrði við auknu brottfalli úr kennarastétt í Reykjanesbæ með aðgerðum sem bæði væru til þess fallnar að tryggja kennurum bætt starfsumhverfi og betri laun. 
 
Sérstakt mið tekið af auknu álagi á starfsfólk í leik- og grunnskólum
 
Lagði flokkurinn fram hugmyndir um sóknarsamning þess efnis. Skömmu eftir kosningar samþykktu grunnskólakennarar nýjan kjarasamning þar sem laun hækkuðu auk þess sem eingreiðsla kom til og annaruppbót eftir hverja önn. Leikskólakennarar samþykktu svo nýjan kjarasamning í kjölfarið auk þess sem kennarar og stjórnendur í tónlistarskólum gerðu slíkt þið sama. Í málefnasamningi meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks og Beinnar leiðar var því áhersla lögð á það að bæta starfsumhverfi kennara á kjörtímabilinu þar sem ljóst var að nýjum samningum fylgdi veruleg útgjaldaaukning. Í málefnasamningi segir: „Unnið verði að sóknarsamningi í menntamálum. Við gerð fjárhagsáætlunar á kjörtímabilinu verði sérstakt mið tekið af auknu álagi á starfsfólk í leik- og grunnskólum. Fjármunum verði forgangsraðað árlega til málaflokksins sem nemur 3% af núverandi útgjöldum til málaflokksins.“
 
Mesta aukning útgjalda til fræðslumála
 
Strax í byrjun kjörtímabils vann Framsóknarflokkurinn hugmyndir í nokkrum liðum varðandi bætt starfsumhverfi starfsfólks í skólum í takt við fyrirliggjandi málefnasamning og hefur nú þegar verið ákveðið að fulltrúar bæjarins heimsæki alla grunn- og leikskóla í Reykjanesbæ með það fyrir augum að kalla eftir samtali um bætt starfsumhverfi þeirra. Við ákvörðun um framkvæmdir í fjárhagsáætlun 2019 var nær öllum nýframkvæmdum forgangsraðað til uppbyggingar í málaflokknum. Má þar m.a. nefna viðbyggingu til þess að bæta starfsaðstöðu kennara í Holtaskóla, viðbyggingu við Myllubakkaskóla, stækkun á Öspinni, stækkun á leikskólanum Hjallatúni að ógleymdum nýjum Stapaskóla sem þegar var á teikniborðinu. Aukning útgjalda til fræðslumála í Reykjanesbæ var, þegar upp var staðið, rúm 9% sem var langtum meiri aukning en til annarra málaflokka. Stór hluti þeirrar aukningar skýrist vitaskuld vegna launahækkana en einnig hafa umsvif aukist verulega með aukinni íbúafjölgun og breyttu samfélagsmynstri sem kallar á meiri þjónustu við börn af erlendum uppruna. Í heild fara um sjö milljarðar króna til fræðslumála í Reykjanesbæ árlega.
 
Bókun á 319. fundi Fræðsluráðs
 
Á 319. fundi Fræðsluráðs Reykjanesbæjar lagði Skúli Sigurðsson, áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, fram bókun þar sem vakin er athygli á óeðlilegu álagi meðal kennara á svæðinu. Nefndi Skúli sérstaklega í því sambandi kulnun í starfi sem hefur verið mikið til umræðu í íslensku samfélagi að undanförnu. Sé staðan eins alvarleg og kemur fram í umræddri bókun kallar það á sérstaka úttekt á starfsumhverfi stéttarinnar hér í bæ. Mikilvægt er að gott samstarf sé við starfsmenn, kennara og skólastjórnendur í Reykjanesbæ um bætt starfsumhverfi þeirra og allir leggist á eitt í því sambandi.
 
Ein af kröfum verkalýðshreyfingarinnar í núverandi kjarasamningaviðræðum er einmitt bætt starfsumhverfi vinnandi stétta. Er þá m.a. horft til styttingu vinnuvikunnar í þeim efnum auk þess sem sveigjanlegur vinnutími hefur einnig borið á góma. Kennarar sömdu um aukna viðveruskyldu í síðustu kjarasamningum og má vera að þar hafi verið um afturför að ræða. Vera má að nauðsynlegt sé að veita kennurum á ný aukið svigrúm til þess að sinna verkefnum sínum eins og þeim hentar best svo lengi sem það komi ekki niður á þeim verkefnum sem þeim ber að sinna. Ef marka má yfirlýsingar formanns grunnskólakennara þykir ekki ólíklegt að umrætt kerfi verði til umræðu við gerð næstu kjarasamninga stéttarinnar.
 
Hvað er til ráða?
 
Hér í bæ höfum við á að skipa mörgum afbragðs kennurum sem við gerum einnig ríkar kröfur til. Tímabundið álag í vinnu er eðlilegur hluti flestra starfa og mikilvægt að starfsfólk og stjórnendur geri sér grein fyrir þeim raunveruleika og vinni markvisst að því að auka bolmagn starfsmanna til þess að takast á við erfið verkefni. Góð líðan á vinnustað er háð mörgum samverkandi þáttum. Tryggja þarf jafnvægi á milli vinnu og einkalífs eftir fremsta megni, huga þarf að vinnutímatilhögun, athafnafrelsi starfsmanna, starfskröfum og upplýsingaflæði á vinnustað, svo eitthvað sé nefnt. Góð samskipti eru einnig lykilþáttur í því að bæta starfsumhverfi kennara. Í nútímasamfélagi má segja að vinnuveitendur og starfsmenn bera sameiginlega ábyrgð á að vinnuumhverfið sé heilsusamlegt.
 
Hvað getur starfsmaðurinn gert?
 
Við sem starfsmenn berum ábyrgð á eigin heilsu. Ef heilsan brestur fer allt annað úr skorðum. Mikil viðvarandi streita hefur slæm áhrif á andlega og líkamlega líðan okkar. Því verðum við að taka ábyrgð á eigin heilsuhegðun með því að fá nægan svefn, stjórna álagi með því að takast ekki á hendur of mörg verkefni í starfi sem og einkalífinu. Álag getur verið að ýmsum toga og hafa sumar starfstéttir rétt á handleiðslu eða niðurgreiðslu á þjónustu sé þess þörf. Kennarar hafa til að mynda rétt á því að sækja þjónustu fagfólks s.s. sálfræðinga í allt að tíu skipti á hverju tólf mánaða tímabili. Mikilvægt er að stöðva óæskilegt ferli sem leitt getur til kulnunar í starfi með því að þekkja sín takmörk og leita sér aðstoðar áður en í óefni er komið.
 
Hvað getur vinnustaðurinn gert?
 
Öll berum við ábyrgð á að sinna okkar störfum af kostgæfni og heiðarleika. Hjá Reykjanesbæ starfar fagfólk sem hefur fasta viðveru í skólum bæjarins. Hægt er að leita til þeirra varðandi starfstengd úrræði auk þess sem stjórnendur í skólum eiga ávallt að vera til staðar sé þess þörf. Vinnustaðurinn þarf að gera áhættumat sálfélagslegra þátta samkvæmt lögum og vinna þannig markvisst að því að tryggja gott vinnuumhverfi. Í skólastarfi er mikilvægt að stjórna vinnuálagi eins og unnt er og auka hæfni starfsfólks til þess að sinna sínum verkefnum.
 
Reykjanesbær góður valkostur
 
Í Reykjanesbæ hefur náðst góður árangur í skólastarfi og mikilvægt að við höldum áfram á sömu braut. Reykjanesbær hefur vaxið mikið á undanförnum árum og hefur mikil og fagleg vinna átt sér stað hjá fræðslusviði bæjarins til þess að bregðast við breyttum aðstæðum. Skólastjórnendur, kennarar og starfsfólk skóla hafa öll lagst á eitt til þess að mæta þeim áskorunum sem við blasa og eiga þau þakkir skyldar. Það er ástæða fyrir því að bæjarfélagið er eftirsóknarverður búsetuvalkostur. Fyrir þau okkar sem eigum börn á skólaaldri skiptir miklu máli að skólastarfið sé til fyrirmyndar. Til þess að svo megi verða áfram þarf starfsumhverfi starfsfólks í skólum að vera viðunandi. Börnunum okkar þarf að líða vel í skólanum. Skólabyggingar og aðbúnaður þarf að vera í takt við þarfir á hverjum tíma og virkt samstarf til staðar á milli heimilis og skóla. Við erum að gera margt mjög gott og megum ekki festast í neikvæðni heldur horfa á lausnir sem geta fært okkur fram á við. Ég hlakka til þess að heyra frá starfsfólki skóla og vinna með þeim að bættu starfsumhverfi á næstu misserum.
 
Jóhann Friðrik Friðriksson
forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ