Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Í sátt og samlyndi
Fimmtudagur 31. október 2019 kl. 09:37

Í sátt og samlyndi

Í sátt og samlyndi

Fjölbrautaskóli Suðurnesja er þátttakandi í Erasmus+ verkefninu „National Prides in a European Context“ sem hófst haustið 2018. Sex skólar í Evrópu koma að skipulagningu verkefnisins og eru samstarfsaðilarnir frá Ungverjalandi, Ítalíu, Lettlandi, Póllandi og Spáni. Verkefnið gefur nemendum tækifæri til að ferðast og kynnast menningararfi þátttökuþjóðanna. Markmiðið er að gera nemendum grein fyrir mikilvægi þess að bera virðingu fyrir menningu sinni og annarra og þannig auka víðsýni og umburðarlyndi gagnvart öðrum. Það er meira sem sameinar þessar þjóðir en sundrar þeim.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nú í október var Fjölbrautaskóli Suðurnesja sóttur heim. Mikil eftirvænting var meðal íslensku þátttakendanna sem bæðu hýstu nemendur frá Evrópu og tóku þátt í verkefninu sem stóð yfir í þrjá daga og lauk með lokahófi á sal skólans.
Næsta nágrenni Fjölbrautaskóla Suðurnesja var skoðað enda skólinn staðsettur í Reykjanesjarðvanginum. Þar má finna sögu og stórbrotna náttúru. Duus safnahús opnaði dyrnar fyrir hópnum sem fékk að skoða allar þær sýningar sem þar er að finna.
Hópurinn heimsótti Þingvelli í fallegu en köldu veðri. Víðsýnt var þann daginn og sjá mátti urriðanum bregða fyrir í Öxará. Nemendur fengu líka að leika og upplifa Þingvelli undir leikstýringu Torfa Stefáns Jónssonar, verkefnastjóra á Þingvöllum, og þannig áttuðu þeir sig á gangi mála þegar Alþingi á Þingvöllum var og hét. Í Reykjavík heimsóttu nemendur Alþingi á Austurvelli.
Í Skálholti komust nemendur í tæri við fortíðina í gegnum séra Egil Hallgrímsson sem mætti á staðinn með hundinn sinn Trygg. Hundurinn vakti jafn mikla kátínu og Egill sjálfur, enda voru þeir sem eitt. Kirkjuklukka miðalda glumdi í Skálholtskirkju á meðan nemendur gengu í göngin úr kjallara kirkjunnar eins og skóladrengirnir fyrir mörgum hundruðum ára.
Það sem vakti mesta lukku var heimsókn hópsins á Bessastaði. Þar tók Guðni Th. Jóhannesson forseti á móti honum. Guðni kom inn á mikilvægi þess að opna hugann gagnvart öðrum og jafnvel komast að því að við erum lík að mörgu leyti. Hann tók vel á móti gestum og heillaði unga sem aldna upp úr skónum. Nemendur spurðu forsetann spjörunum úr á meðan þau fengu sér sandköku eða hjónabandssælu.
Hópurinn kvaddi Ísland með söknuði og þakklæti og ekki er laust við að það sé bara pínu tómlegt í Fjölbrautaskóla Suðurnesja eftir velheppnaða heimsókn.

Ester Þórhallsdóttir.