Í samstarfi við Garðbúa
– Bjarki Ásgeirsson skrifar
Ég vil vinna með íbúum sveitarfélagsins að því nýta þau tækifæri sem eru til staðar í Garðinum. Garðurinn hefur alla möguleika á því að leika í úrvalsdeild sveitarfélaga. Garðurinn á að vera fyrir Garðbúa í Garðinum, þar sem allir vinna sem einn að bættum bæ.
Stjórnmálin eru að breytast sem kallar á breytt hugarfar. Nútímatækni býður upp á enn meiri samskipti við íbúa. Hægt er að kalla eftir viðbrögðum íbúa við bæði smærri og stærri málum sem koma upp. Íbúarnir geta fengið að segja sína skoðun á málefnum bæjarins og tekið virkan þátt í mótun samfélagsins. Einnig þarf upplýsingaflæði til íbúa að vera betra. Sem dæmi um betra upplýsingaflæði má nefna að þónokkur bæjarfélög eru farin að sjónvarpa bæjarstjórnarfundum á heimasíðum sínum og er það lítið mál fyrir okkur í Garðinum að taka upp þannig fyrirkomulag. Á þann hátt er hægt með nokkrum litlum skrefum að auka íbúalýðræði til muna. Á nýrri heimasíðu sveitarfélagsins er kominn hnappurinn betri Garður en þar er óskað eftir hugmyndum íbúa sem er byrjun á virkari þátttöku þeirra í bæjarmálum.
Ég er tilbúinn til þess að leiða bæinn inn í framtíð þar sem sátt og gleði ríkir. Það þarf að sporna við fólksfækkun í bæjarfélaginu, laða að ungt fjölskyldufólk sem vill setjast hér að til framtíðar. Öflugt forvarnarstarf þarf að vera til staðar fyrir yngstu kynslóðina því hver einstaklingur skiptir máli. Ég vil sjá fallegt umhverfi og útivistarsvæði sem allir Garðbúar geta notið. Það þarf að setja kraft í að koma upp Garðvangi svo elsta kynslóðin geti eytt ævikvöldi sínu í eigin bæjarfélagi.
Ég heiti Bjarki Ásgeirsson og er menntaður grunnskólakennari og húsasmíðameistari. Ég er giftur Lilju Dögg Friðriksdóttur grunnskólakennara og saman eigum við 4 drengi á aldrinum 3 - 11 ára. Ég býð mig fram í 1.-3. sæti í prófkjöri á lista sjálfstæðismanna og óháðra í Garði sem fer fram laugardaginn 22. mars. Ég óska eftir stuðningi þínum til að leggja mitt af mörkum fyrir sveitarfélagið Garð.
Bjarki Ásgeirsson