Í minningu Sparisjóðsins
Nú er Sparisjóðurinn í Keflavík allur. Blessuð sé minning hans. Hann hefur komið mörgu góðu til leiðar fyrir byggðarlögin á Suðurnesjum.
Banameinið var hægrisinnuð frjálshyggja og græðgi þeirra sem þar réðu ríkjum síðustu misserin. Stjórnendur hans tóku fullan þátt í því glæfraspili sem lagði allt íslenska bankakerfið á hliðina. Það hlaut að fara svo því óvíða á landinu er hægristefna í pólitík útbreiddara mein en einmitt í Keflavík og nágrenni.
Ég tel víst að nú muni forkólfar Sjálfstæðisflokksins kenna núverandi fjármálaráðherra og flokki hans um að hafa lagt Sparisjóðinn niður og treysta þar með á að fólk sé fljótt að gleyma. Því vil ég minna á að VG með Steingrím J. í fararbroddi var eini stjórnmálaflokkurinn sem varaði við einkavæðingunni og þeirri geggjuðu fjármálastjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir í meira en áratug, ýmisst studdur af Framsókn eða Samfylkingu. Fáeinum mánuðum fyrir hrun hélt VG fundi um allt land til að vara við hvert stefndi. Hér á Suðurnesjum var slíkur fundur haldinn í Kaffi Grindavík 6. apríl 2008 með Steingrím og Guðfríði Lilju sem framsögumenn. Mér er minnisstætt hvað þau tóku djúpt í árinni með það hvert stefndi í fjármálum þjóðarinnar.
SpKef, sem nú sameinast Landsbankanum, var þegar fyrir nokkrum mánuðum kominn í forsjá ríkisins. Hinn eiginlegi sparisjóður hrundi með bankakerfinu enda tók hann virkan þátt í því fjármálasukki sem leiddi til þess. Íslenska bankakerfið er enn ofvaxið og því ekki réttlætanlegt annað en að ríkið reki sína banka á sem hagkvæmastan hátt og lágmarki með þessu móti þá upphæð sem þarf að fórna af almannafé til að við sem skiptum við SpKef höldum okkar innistæðum öruggum.
Glæsileg saga
Sparisjóðurinn í Keflavík var stofnaður á fyrsta áratug 20. aldar, þegar í hönd fór mikið uppgangs- og framfaraskeið bæði í Keflavík og á landsvísu. Vöxtur hans og viðgangur hélst í hendur við eflingu byggðanna. Hann lagði frá upphafi áherslu á að styðja alls kyns menningar og mannúðarmál og íþróttir.
Fyrsta starfsár Sparisjóðsins, 1908, er gjarnan talið eitt hið merkasta í sögu Keflavíkur. Keflavík varð sérstakt sveitarfélag þetta ár, símasambandi var komið á við Keflavík, Garð og Leiru og vélbátavæðing hófst á Suðurnesjum með stofnun fyrsta útgerðarfélagsins, Vísis h.f.
Áræði og framtak frumkvöðlanna átti sér rætur og sótti styrk í aukna sjálfstæðisvitund þjóðarinnar og frelsisbaráttu Fjölnismanna sem hafði markað djúp spor í íslenskt þjóðlíf undir lok 19. aldar. Kveikjan að stofnun Sparisjóðsins var sú sýn frumherjanna að peningum ætti að halda í heimabyggð og þannig myndu skapast möguleikar á eflingu atvinnulífs og samfélagsþróun. Sparisjóðurinn lét til sín taka í málefnum samfélagsins og sinnti því hlutverki í heila öld.
Ekki gráta
Nú dugir ekki að gráta Sparisjóðinn heldur safna liði undir nýju merki. Íslenska ríkið stofnaði nýjan Landsbanka á rústum þess sem hrundi. Sá banki er alfarið undir stjórn ríkisins. Það er fagnaðarefni að ríkið skuli aftur eiga öflugan banka eftir að Davíð og félagar seldu þann gamla fjárglæframönnum sem keyrðu hann í þrot og skópu hið víðkunna Icesave. Það hefði varla verið forsvaranlegt fyrir ríkið að greiða inn í SpKef upphæð sem hefði skagað hátt upp í það sem líklegt er að ríkið þurfi á endanum að greiða til að koma Icesave-málinu út úr heiminum.
Nú er bara að vona að Landsbankanum undir stjórn ríkisins renni blóðið til skyldunnar að þjónusta byggðarlögin ekki síður en Sparisjóðurinn hefði gert hefði hann ekki hrunið.
Þorvaldur Örn Árnason
Stjórnarmaður VG á Suðurnesjum