Í ljósi umræðna um HSS
Undanfarna daga hafa dunið á okkur ömurlegar fréttir frá heilbrigðisstofnun okkar Suðurnesjamanna. Sögur af læknamistökum og takmörkun í þjónustu auk vantrauststillögu í könnun Maskínu eru virkilega daprar.
Í ljósi þess vil ég taka fram að mikilvægt er að hafa í huga að á HSS starfa hundruðir einstaklinga sem eru framúrskarandi. Hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, lífeindafræðingar, geislafræðingar, starfsfólk sem sér um matinn, ræstingarnar, afgreiðsluna og svo mætti lengi áfram telja. Læknarnir okkar eru langflestir frábærir að reyna sitt allra besta. Þegar hamfarafréttir birtast og það kemur fram að verið sé að kanna með þátt annarra starfsmanna í eins alvarlegum atburði og í mannsláti þá liggja allir undir grun sem er algjörlega ótækt fyrir umrædda starfsmenn.
Það er nefnilega hæfileikaríkt og faglegt starfsfólk á HSS þó að finna megi einstaklinga þar inni sem eru það ekki. En fyrir hönd fyrrverandi samstarfsmanna minna gremst mér að tengja þau öll við þetta mál.
Fyrirkomulag læknamönnunar á HSS er ekki góð hvorki fyrir þá né fyrir skjólstæðinga stofnunarinnar. Læknar ættu ekki að sinna allt að 50 manns á vakt á sólarhringsvakt. Árið er 2021! Við erum að stoppa af vörubílastjóra á löngum vöktum til að efla öryggi en ekkert er sagt við sólarhringsvaktir lækna. Þetta er ekki í lagi.
Mér þykir það gríðarlega leitt og grátlegt að íbúar Reykjanesbæjar treysti ekki heilsugæslunni sinni. Það sést á könnun Maskínu en það sést einnig bersýnilega á þeim fjölda íbúa, um 4.000 manns, sem hafa flutt sig á heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu.
Ein heilsugæsla með þjónustubolmagn til að sinna um 10.000 manns á svæði þar sem búa 27.000 manns. Í þessari setningu liggur staðreyndin.
Margt má segja um ríkið og afstöðu þess gagnvart Suðurnesjum sem ég ætla ekki að reifa hér. Fjárlög og skortur á heilsugæslum segja allt sem segja þarf um það mál.
Eitt vil ég þó að sé kýrskýrt. Bæjarstjórnir á Suðurnesjum, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjunum ásamt starfsfólki HSS hafa ítrekað ár eftir ár bent á mismunun í fjármagni HSS miðað við aðrar heilbrigðisstofnanir og það á ekki síst við um heilsugæsluna. Þó þarf að segja að einhverjar skriður eru loksins að koma í gegn núna með fjármagni fyrir nýja heilsugæslu HSS. EN ... þessi handrétting hefði átt að koma til okkar fyrir tíu árum hið minnsta þegar við fórum að þrýsta á breytingar. Það að berja sér á brjóst með smápeningum mörgum árum of seint, eigum við að fagna því? Eigum við að fagna því að ekki er áhugi á að heimila einkarekstur heilsugæslu því verið er að miða að því að mögulega eftir tvö ár opnar hús sem heitir heilsugæsla?
Viljum við yfirhöfuð einkarekstur eða ekki – þar þurfum við samtal við íbúana okkar. Ef við opnum jafnstóra heilsugæslu og er á HSS núna erum við með bolmagn til að sinna tæplega 16.000 manns að því gefnu að við náum að fullmanna báðar heilsugæslurnar af heilbrigðisstarfsfólki. Okkur vantar samt ennþá meira. Okkur vantar að lágmarki tvær nýjar heilsugæslur á Suðurnesin og okkur vantar þær á þessu ári. Við verðum að draga úr álagi á núverandi kerfi, efla aðgengi að þjónustu og hlúa að fólkinu okkar.
Stöndum með faglega fólkinu okkar og í guðanna bænum ef starfsfólk er ekki að standa sig þá á viðkomandi ekki að vera starfandi! Sérstaklega ekki í tæpt ár eftir að slíkt alvarlegt atvik kemur upp! En stöndum með því góða fólki sem þar er og byggjum upp heilsugæslur til að draga úr ómanneskjulegu álagi á HSS.
Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar sem á um sárt að binda.
Guðný Birna, bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar og fyrrum deildarstjóri bráðamóttöku HSS.
Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar.