Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Í limmósínu á Jólaball?
Þriðjudagur 4. desember 2007 kl. 15:25

Í limmósínu á Jólaball?

- Hugleiðingar til foreldra  8.-10.bekkinga grunnskóla Reykjanesbæjar.

Jólaball Grunnskóla Reykjanesbæjar fyrir 8.-10. bekkinga verður haldið 12. desember n.k. Er það eflaust mikið tilhlökkunarefni margra, frábært framtak sem hefur farið mjög vel fram í góðri samvinnu við nemendur. Þó er ýmislegt sem má betur fara, sem snýr kannski helst að okkur foreldrum. Í kjölfar Vina og paraballsins í október sl. óskuðu margir foreldrar eftir umræðu um ýmislegt sem þar mátti betur fara s.s. þrýsting um mikinn tilkostnað sem hefur skapað streitu, ýtt undir einelti og vanlíðan margra – sem ég held að við getum öll verið sammála um að við viljum ekki. Í ljós kom að kröfurnar eru síst minni þegar kemur að jólaballinu, og árshátíðinni.

Fer þitt barn í limmósínu?

Eitt málið er limmósínurnar í kringum hvert ball. Unglingarnir leigja sjálfir þessa bíla og safna saman í hóp. En það eru ekki allir sem fá boðskort í limmann og sumir sem telja sig í vinahópnum geta fengið þungan skell. Hvað fer í gegnum huga unglingsins sem fær ekki boð í limmann heldur fær far á heimilisbílnum?  Það þarf sterk bein til að standast slíkan hópþrýsting. Við höfum fengið þær upplýsingar að í kringum þessi böll, eru uppbókaðar allar limmósínur á Suðuvesturhorni landsins. Þær eru allar að keyra hring eftir hring í Reykjanesbæ!!

Í kringum Vina og paraballið var t.d. einn bíllinn stöðvaður af lögreglu því krakkarnir héngu út um gluggann. Á daginn kom að bílstjórinn hafði ekki leyfi til að aka bílnum. Senda þurfti eftir eiganda fyrirtækisins til að ljúka akstrinum. Unglingar virðast sjálfir geta pantað limmósínu án þess að nokkur gangi í ábyrgð fyrir þeim, jafnauðveldlega og að panta leigubíl. Margir gera það án vitundar foreldra sinna. Það kostar allavega 3.000 kr. á manninn að leigja limmósínu og ekki hafa allir unglingar efni á því.


Auknar kröfur og kostnaður

Það sama má segja um annað tilstand sem fylgir þessum böllum, sem er t.d. förðun, vax, hárgreiðsla, nýr kjóll, ný skyrta, nýir skór og svo mætti áfram telja. Kostnaður getur hlaupið á tugum þúsunda króna. Kröfurnar aukast sífellt og þessu fylgir jafnvel ófremdarástand á sumum heimilum. Við þekkjum dæmi þess að stúlka hafi stolið því á hennar heimili var ekki til peningur og önnur leitaði sér að kjól í Rauða krossinum. Aðrir sögðu pass og sátu heima.
En hver býr til þessar kröfur? Við foreldrar þurfum aðeins að staldra við og hugleiða hversu mikið er nóg. Sumir foreldrar samþykkja þetta á þeim forsendum að unglingarnir borgi sjálfir. En við erum ennþá forráðamenn barnanna og getum óhrædd sett þeim reglur og ramma. Eigum við að samþykkja slíka “fullorðins hegðun” hjá þessum unga aldurshópi? Fyrir hvern gerum við það?

Foreldrar, tölum saman!

Við hvetjum foreldra til þess að ræða saman fyrir 12. desember n.k. og stilla saman strengina, t.d. um eyðslu og almennt tilstand. Við verndum börnin okkar enn betur með að taka ekki þátt í að skapa þrýsting, stéttarskiptingu eða aðskilnað meðal þeirra.
Þið getið m.a. sent tölvupóst á foreldra í bekk barnsins þíns í gegnum Mentor, hringt í foreldra vinanna, eða bara hist í skólanum eða heimahúsi og rætt málin.

Þeir sem óska eftir frekari upplýsingum geta haft samband við undirritaðar á netfangið [email protected] eða forstöðumann Fjörheima [email protected].

Auðvitað hafa foreldrar val, en það er sannað mál að það er miklu auðveldara að verjast þrýstingi ef foreldrar tala saman - og standa saman.

Með bestu kveðju og von um skemmtilegt jólaball.

F.h. FFGÍR, Foreldrafélög og foreldraráð grunnskólanna í Reykjanesbæ, [email protected]

Dagný Gísladóttir formaður
Ingibjörg Ólafsdóttir verkefnastjóri

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024