Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Í hvernig samfélagi vilt þú búa?
  • Í hvernig samfélagi vilt þú búa?
Laugardagur 17. maí 2014 kl. 12:47

Í hvernig samfélagi vilt þú búa?

– Helga María Finnbjörnsdóttir skrifar

Á ensku er til hugtak (self-fulfilling prophecy) sem merkir að þegar einstaklingar hafa miklar væntingar til einhvers verður það til þess að rætist úr væntingunum, vegna þeirrar miklu trúar á að þær geti orðið að veruleika. Mér hefur oft sárlega þótt vanta þýðingu á þessu hugtaki þar sem ég er hjartanlega sammála inntakinu. Ég hef líka oft orðið vitni að því í mínu starfi sem kennari að þetta virkar. Ef ég sýni að ég trúi að einhver muni ná árangri í sínu námi og hef jákvæðar væntingar, þá er mun líklegra að hann muni gera það. Þetta getur átt við einstaklinga sem og hóp fólks. En því miður, samkvæmt hugtakinu, virkar þetta í báðar áttir og rannsóknir sýna að að neikvæðar væntingar hafa meiri áhrif en jákvæðar. Ef ég trúi því að einhverjum muni mistakast og hef neikvæðar væntingar, þá er ekki ólíklegt að það verði raunin.

Ástæðan fyrir því að ég ákveð að gera þetta hugtak að umtalsefni hér er sú að mér þykir svo mikilvægt að við sem íbúar Reykjanesbæjar byrjum á byrjuninni. Við verðum að hafa trú á því að við getum orðið sú breyting sem við viljum sjá hér í Reykjanesbæ. Ég trúi því að frumforsenda þess að góðar breytingar geti átt sér stað, sé sú að við trúum því að þær geti orðið og að þeirra sé þörf. Ég flutti hingað með fjölskyldunni minni vegna þess að hér finnst mér gott að vera og vegna þess að mér finnst svo mörg tækifæri í kringum okkur til að líða enn betur hér í fallega bænum okkar. Ég held að ef við horfum í kringum okkur, þá eigum við flest auðvelt með að sjá tækifæri til úrbóta og auka með því hamingjustigið hjá okkur íbúunum, eins og Anna Lóa vinkona mín segir. Þegar við förum svo að líta í kringum okkur og hafa skoðanir á hvernig við getum hlúð betur að sjálfum okkur og fólkinu í bænum okkar, þá erum við farin að taka þátt í pólitík sem er okkar allra. Ég heyrði í útvarpsviðtali um daginn setninguna „Þótt þú skiptir þér ekki af pólitík þá skiptir hún sér af þér.“ Þetta er svo sannarlega rétt. En við hjá Beinni leið, viljum gefa þér aukin tækifæri til að koma þínum skoðunum áleiðis og við viljum taka ákvarðanir í samráði við þig. Þess vegna spyr ég þig: Í hvernig samfélagi vilt ÞÚ búa? Hvað getur samfélagið gert betur fyrir ÞIG? Og að lokum: Viltu þú taka þátt í því með Beinni leið að gera það að raunveruleika?

Helga María Finnbjörnsdóttir
í framboði fyrir Beina leið

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024