Í aðdraganda bæjarstjórnarkosninga 31. maí 2014
– Hjördís Árnadóttir skrifar.
Lífið heldur áfram á meðan við eigum það og því mikilvægt að lifa því vel. Það reyni ég að gera og er meðvitaðri eftir því sem árin færast yfir. Ég er að uppgötva að starfsævin mín er að styttast í annan endann og hlakka til, en um leið veit ég að ég mun sakna starfsins míns með öllum þeim verkefnum og tækifærum sem í því felast. Ég hef verið svo lánsöm á minni starfsævi að starfa með litríku fólki, bæði sem samstarfsmaður, félagi og ráðgjafi. Það hefur mótað mig sem manneskju og ég er bara nokkuð ánægð með þá manneskju í dag. Ég hlakka til að mæta til vinnu á hverjum degi. Ég hef mjög gaman af að takast á við þau krefjandi verkefni sem starfið kallar á og finn hvað það er gott að vinna með fólki sem treystir manni, en ekki síður að treysta öðrum.
Velferð frá vöggu til grafar
Velferðarmál hafa fylgt mannkyninu frá upphafi og fólk fengið misjöfn gæði í vöggugjöf. Viðhorf til velferðarmála er misjafnt, en mikilvægt að við hlúum hvert að öðru og berum virðingu fyrir hverri mannveru, hvar sem við stöndum í lífinu hverju sinni. Við höfum öll eitthvað sem gerir okkur sérstök og það er svo mikilvægt að fá að vera sérstakur.
Kosningar
Framundan eru tímamót í sveitarfélögum landsins, en þann 31. maí kjósum við okkur nýja bæjarfulltrúa til næstu fjögurra ára. Margir gefa kost á sér, en fáir eru útvaldir. Það er mikil ábyrgð og vinna sem felst í því að stjórna sveitarfélagi. Í Reykjanesbæ er margt frambærilegt fólk í framboði, þar af margir vinir mínir og kunningjar sem ég veit að hafa margt til að bera og vilja bænum okkar það besta. Við verðum samt að kjósa einn flokk, því annað er ekki í boði. Og þá þarf hver og einn kosningabær einstaklingur að leggjast yfir það, hvaða flokki hann treystir best næstu fjögur árin til að leiða þjónustuna í sveitarfélaginu sínu.
Leiðtogar
Ég hef unnið með fjölmörgum meirihlutum úr öllu litrófi stjórnmálanna á þeim þrjátíu árum sem ég hef starfað fyrir sveitarfélögin, Keflavíkurbæ, Njarðvíkurbæ og nú Reykjanesbæ. Sem starfsmaður sveitarfélags reynir mest á samstarfið við bæjarstjórana sem eru framkvæmdastjórar meirihlutans hverju sinni og hef ég notið þess að vinna með þeim hverjum og einum. Síðastliðin 12 ár hefur Árni Sigfússon verið bæjarstjóri okkar sveitarfélags og verið minn næsti yfirmaður. Það hefur verið mikill og góður lærdómur að vinna með honum og ég hef gert upp við mig að ég vil mjög gjarnan vinna áfram með honum þann tíma sem ég á eftir af starfsævinni eða næstu þrjú árin. Ég veit að velferðarmálin verða áfram mikilvægust ef hann fær einhverju um það ráðið. Þegar ég tala um velferðarmál, á ég við allt sem snýr að mannlegum þáttum íbúanna. Árni er leiðtogi sem tileinkar sér fyrst og fremst „þjónandi forystu“ og ætlar okkur slíkt hið sama. Árni hefur þá hæfileika að sjá stóru myndina og metnað og dug til að koma verkefnum áfram. Það sést best á þeim jákvæðu breytingum sem hafa orðið á umhverfi bæjarins síðustu árin. Hann ber virðingu fyrir öllu fólki og einlægni hans kemur best fram þegar maður finnur hvað hann tekur nærri sér þegar fólk er með ómálefnaleg og oft meiðandi ummæli hvort sem þau beinast að honum sjálfum eða öðrum. Félagsþjónustan hefur átt góðan bakhjarl í Árna, hann hvetur okkur til dáða við erfiðar aðstæður og ætlast um leið til þess að við gerum okkar besta við að skapa úrræði sem henta hverjum og einum. Árni er með duglegri mönnum og unir sér sjaldan hvíldar og hann gerir þær kröfur til starfsmanna bæjarins að við séum vakin og sofin yfir störfum okkar og þjónustu við íbúana. Árni Sigfússon er ein af mínum bestu fyrirmyndum í dag og ég tel mig betri manneskju fyrir vikið.
Tjáningarfrelsi
Einhverjir kunna að vera þeirrar skoðunar að framkvæmdastjórar starfssviða bæjarins eigi ekki að gefa út yfirlýsingar um hverja þeir styðja til forystu. Ég er ekki sammála því, því slíkt væri skerðing á tjáningarfrelsi. Ég mun að sjálfsögðu virða niðurstöður kosninga og kvíði því ekkert að vinna með því frambærilega fólki sem kosið verður í stjórn bæjarins, en ég trúi því að stjórn sveitarfélagsins okkar verði best borgið með Árna Sigfússon sem bæjarstjóra næstu fjögur árin. Ég mun því setja X við D á kjördag.
Hjördís Árnadóttir