Hvort er betra að vera stelpa eða strákur?
Um daginn fór ég í Fjarðarkaup með 4 ára dótturson minn. Hann vildi bíða í videoherberginu á meðan ég tíndi í körfuna. Þar sem ég stóð í biðröð við kjötborðið var ég kölluð upp og beðin um að koma strax að þjónustuborði. Ég hentist í loftköstum og fór á hugarflug um hvað hefði komið fyrir. Kannski hefði drengurinn slasast. Ég heyrði grát hans og hróp á ömmu langar leiðir. Eftir að hafa huggað drenginn og reynt að róa hann spurði amma hvað hefði eiginlega komið fyrir? Drengurinn hélt áfram að gráta og tárin runnu niður kinnarnar. Eftir dágóða stund fékk ég svo að vita um hinn hræðilega atburð. Þarna sem hann horfir á frábæra mynd í videoi stórmarkaðarins kemur stelpa aðeins eldri en hann líklega 5 ára og vill sitja í sætinu sem hann situr í. Hann segist hafa þráast við en þá hafi hún bara slengt því á hann að strákar væru ö –ö m- u –ur -legir.
“H- h-hún sagði að strákar væru ömurlegir” reyndi hann að stynja upp á milli ekkasoganna og var mjög sár. Við erum ekki ömurlegir! hreytti hann svo út úr sér. Nei auðvitað ekki sagði amma. Hvurslags dóni er þessi stelpa að segja svona. Þannig tókst ömmu að sannfæra lítinn mann um að hann væri ekki ömurlegur og það væri flott að vera strákur sem dreymir hetjulega drauma um að bjarga sætum stelpum úr brennandi húsum eða leysa prinsessur úr álögum. Vera mikilvægur og fullur af hugrekki og þora að standa vörð um þá sem minna mega sín geng ógnum heimsins, sannkallaður riddari.
Í framhaldi af reynslu ömmudrengsins spurði ég unglingsstúlkurnar á heimilinu fyrir framan þann litla hvort strákar og stelpur væru ekki jafn góð, ha? – og blikkaði þær – svona til að sannfæra þann litla. Nei, þær héldu nú ekki og það væri alla vega miklu betra að vera stelpa. Nú hvað geta stelpur sem strákar geta ekki? spurði ég og ekki stóð á svarinu: “Þeim getur blætt í viku án þess að deyja og þær geta mjólkað án þess að bíta gras”. Þvílíkt og annað eins. Nú féllust ömmu alveg hendur. Hvernig gat hún sannfært litla drenginn um að hann væri víst flottur, alls ekki ömurlegur og það væri í góðu lagi og kannski bara töff að vera strákur. Hann sem hafði verið svo borubrattur nokkru áður þegar hann sagði frá því að hann ætti kærustu á leikskólanum. Hún væri voðalega sæt og kæmi stundum varalituð á leikskólann. Já svona er nútíminn hugsaði sú gamla og sló sér á lær.
Helga Margrét