Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvert stefna ríki og sveitarfélög í grunnþjónustu við íbúa sína?
Þriðjudagur 15. desember 2009 kl. 21:29

Hvert stefna ríki og sveitarfélög í grunnþjónustu við íbúa sína?

Mikið hefur gengið á hér á Suðurnesjum á undanförnum árum og hvergi virðist vera lát þar á.


Eitt af því sem við treystum á er að grunnþjónusta sé ekki skert og að við getum búið við öryggi, eða hvað?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Fæstir vilja hafa þörf fyrir þjónustu okkar en þegar mikið liggur við er hringt í 112 og óskað eftir aðstoð, og það er sjálfsagt og eðlilegt. En getum við treyst á það að við fáum þessa þjónustu í nánustu framtíð?


Við skulum svara þessari spurningu aðeins seinna í þessari grein. Skoðum aðeins nánar hvað liggur á bak við hvert útkall.
Þegar óskað er eftir aðstoð slökkviliðs eða sjúkrabíls þá fær fólk heim til sín þrautþjálfað fagfólk við oft mjög erfiðar aðstæður. Það tekur að lágmarki þrjú ár að verða fullnuma slökkviðliðs- og sjúkraflutningamaður. Þá er reynslan ekki talin með en hún er að sjálfsögðu mikilvæg. Starfsmannavelta Brunavarna Suðurnesja (B.S. ) hefur verið lítil undanfarin ár og þar starfa reynslumiklir menn með langan starfsaldur. ?
Þegar niðurskurður hófst með tilheyrandi látum þá var enginn undanskilin, hvorki við né aðrar stofnanir, urðum við m.a á þessu ári að láta 6 manns fara sem störfuðu við afleysingar og leystu af í fríum og á námskeiðum og var mikil eftirsjá af þeim strákum . Töldum við að þar væri nóg komið og reyndar meira til.


En ríkið hefur ákveðið að ganga lengra í þessum málum og hefur einhliða ákveðið að lækka greiðslur til aðila sem sjá um sjúkraflutninga á Íslandi um 7%. Þessi tala virkar kannski ekki svo há en þess má geta að sveitarfélögin Reykjanesbær, Garður og Vogar hafa borgað 50% með sjúkraflutningum undanfarin ár, þrátt fyrir að ríkið eigi að bera allann kostnað! . Er þetta eðlilegt?
Þegar við skoðum þetta í þessu samhengi þá getum við ekki annað en skilið að sveitarfélögin vilji spyrna við fótum. Það versta við sparnaðaráform ríkisins er að sparnaðurinn yrði innan við 5 milljónir á ári. Er það þess virði?


Hvað þýðir þetta fyrir B.S.? Stjórn B.S. hefur litið á þennan einhliða niðurskurð sem uppsögn á samningi og rennur hann því út 1. júlí 2010. Eftir þann tíma verða sjúkrabílar ekki lengur á vegum B.S. (náist ekki nýjir samingar við ríkið) og kemur því til fjöldauppsagna um áramót þar sem stöður 18 slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna verða lagðar niður á Suðurnesjum.


En það er annað og verra sem hlýst af þessu. Rekstur slökkviliðs er settur í uppnám. Því spyrjum við sveitarfélögin eins og við spyrjum ríkisvaldið: hvað ætlið þið að gera? Á að fara aftur til fortíðar þegar hér var eingöngu útkallslið? Ávinningurinn sem hlýst af því er einungis lengri útkallstími sem aftur leiðir til þess að við eigum á hættu að stórbrunar verði hér fleiri en undanfarin ár, svo ekki sé minnst á mögulegan mannsskaða. Sveitarfélög sem eru að berjast fyrir því að fá stórfyrirtæki hingað á svæðið svo sem álver eða gagnaver geta ekki haldið að það sé aðlaðandi fyrir þessi fyrirtæki að státa af útkallsliði sem slökkviliði?


Við höldum að menn séu ekki búnir að hugsa þessa hugsun til enda og eitt er ljóst að fólkið sem stendur að baki þessum sparnaðaraðgerðum er ekki að hugsa um öryggi fólksins hér á svæðinu. Ef við snúum okkur að spurningunni sem við veltum okkur upp fyrr í greininni, þ.e. hvort hægt sé að treysta á þessa þjónustu í náinni framtíð þá sýnist okkurr svarið vera: Nei.


Ágætu íbúar á Suðurnesjum.
Viljum við byrja nýtt ár á enn einni fjöldauppsögninni sem þýðir að grunnþjónusta fólksins sé stórlega skert? Svarið er Nei.
Því viljum við starfsmenn Brunavarna Suðurnesja skora á Heilbrigðisráðherra og þau sveitarfélög sem standa að Brunavörnum Suðurnesja að standa vörð um slökkviliðið og sjúkraflutninga á Suðurnesjum og þann mikla mannauð sem við teljum að Brunavarnir Suðurnesja hafi á að skipa.


Eyþór Rúnar Þórarinsson, Formaður LSS deildar hjá BS

Rúnar Eyberg Árnason. Formaður FSBS.