Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvert er þetta prestamál að stefna?
Þriðjudagur 25. apríl 2006 kl. 14:35

Hvert er þetta prestamál að stefna?

Nú get ég bara ekki orða bundist lengur! Hvert er þetta prestamál að stefna? Þetta minnir orðið á ofsatrúarhóp sem gengur um með kröfuspjöld og undirskriftarlista, sem mér skilst að sjálfur George Bush hafi meðal annarra skrifað undir, allt gert til að fá að hafa prestinn sinn áfram! Er ekki einhver ástæða, sem þessu fólki hefur ekki verið sögð, fyrir því að ekki er mælt með séra Sigfúsi í stöðu sóknarprest, eru ekki einhverjar sérstakar kröfur sem gerðar eru til sóknarprests sem hann ekki uppfyllir? Ég persónulega kann ágætlega við séra Sigfús, eftir þau fáu skipti sem ég hef hitt hann eða þurft á þjónustu hans að halda, hef alls ekkert yfir honum að kvarta. Ekki er ég kirkjurækin kona, frekar en þessi rúmlega 4000 sóknarbörn sem skrifuðu nöfn sín á listann. Einnig finnst mér ótrúlegt að ritstjóri VF taki svo sterka afstöðu í málinu sem hann gerir og noti þannig “hlutlausan” fjölmiðil sinn til að koma skoðunum sínum á framfæri. Nú er mál að linni. Við búum við lýðræði og í því felst meðal annars að við treystum nefndum og ráðum fyrir ýmsum ákvörðunum, m.a. annars að meta hæfni manna þegar sótt er um stöður eins og sóknarprest. Ég viðurkenni fúslega og er stolt af því að ég er frænka Skúla Sigurðar þótt ég hafi ekki hitt hann síðan hann var táningur eða sé í nokkru sambandi við hann, hvatinn að þessari grein er því ekki frændsemi við Skúla Sigurð heldur finnst mér nú nóg komið og að stuðningshópur sr. Sigfúsar eigi nú að láta staðar numið. Ég býð Skúla Sigurð og fjölskyldu hjartanlega velkomin í bæjarfélagið og vona að önnur sóknarbörn geri það líka og veit að hann á eftir að standa sig vel hér.

Reykjanesbær 25. apríl 2006

Virðingarfyllst,
Rannveig Sigurðardóttir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024