Hvers virði er menning?
Reykjanesbær er magnað bæjarfélag sem hefur tekið ótrúlegum breytingum á mjög skömmun tíma. Fyrir fjörtíu til fimmtíu árum síðan starfaði megin þorri í Keflavík og Njarðvík annaðhvort við fiskvinnslu eða uppá Keflavíkurflugvelli. En allt er breytingum háð. Með framsali á aflaheimildum fluttist útgerð að stórum hluta af svæðinu sem var mikið reiðarslag á sínum tíma. Skömmu síðar kvaddi herinn og fjöldi manna missti þá vinnu sína og lífsviðurværi.
En þegar einar dyr lokast opnast oft aðrar og það má segja að nú sé Reykjanesbær að verða þjónusutbær fyrir túrista. Hér blómstra bílaleigur, hótel, gistiheimili og veitingastaðir.
Einsog títt er um samfélög sem eru í nábýli við alþjóðaflugvelli reynist oft erfitt að fá ferðamenn til að staldra þar við og skoða það sem í boði er. Þarna þurfa menn að setjast niður og hugsa fram í tímann með opin huga.
Eitt að því sem flestir ferðamenn gera sem heimsækja ókunn lönd, borgir og bæi er að kynna sér menningu á svæðinu þ.e heimsækja söfn og skoða athyglisverða staði sem geyma sögu og minningar.
Reykjanesbær á sér ríka menningarsögu. Hér hefur aragrúi af afburða hæfileikafólki alið manninn. Tónlist, myndlist, bókmenntir. Allt tvinnast þetta saman og þjónar sínum tilgangi. Efla andann, auðga samkennd og smyrja tannhjól samfélagsins. Í dag býr hér mikið af fólki frá ólíkum löndum og menningarkimum. Við höfum sýnt það í gegnum söguna að við höfum ótrúlegan hæfileika til að aðalagast breyttum aðstæðum. Vonandi ber okkur gæfu til þess að bæði gefa og meðtaka allt það góða sem fjölmenningar samfélag hefur uppá að bjóða.
Það truflaði mig því mikið að sjá hugmyndir um að fórna Hljómahöllinni fyrir bókasafn. Ég hef miklar mætur á bókum og húsum sem geyma þær og geri mér fyllilega grein fyrir mikilvægi bóksafna, þó að mig gruni að miklar breytingar séu að verða í þeim geira. þar sem tölvur og tækni sem þeim fylgja muni bylta varðveislu bóka á næstu árum.
Reykjanesbær hefur um árabil skapað sér sess sem tónlistarbær.Menningarverðmætin sem tónlistarfólkið okkar hefur skilið eftir sig og sagan í kringum tónlistarsköpunina á hvergi meira heima en í Hljómhöllini/Stapanum í Reykjanesbæ. Ég tel að Tómas Young hafi gert frábærlega vel í að koma þessu unga safni inná kortið. Slíkt tekur tíma og menn mega ekki tapa áttum þó að excel skjalið sé ekki syngja gleðióð um ebitdu og framlegð. Hér var dásamlegt bátasafn Gríms Karlssonar aflífað og bílasafn og saga slökkviliða sem var stórskemmtilegt og merkilegt safn gert að pakka saman. Þessi þróun er ískyggileg og einstaklega grunnhyggin. Ber vott um flumbrugang og óðagot sem er sérstaklega vafasamt bræðralag þegar byggja á til framtíðar.
Hvers virði eru menning? Ég held að mikilvægi safna og menningarafurða hafi sjaldan verið mikilvægari, en á þessum umbrotatímum sem við lifum á. Söfnin sameina nefnilega fólk af ólíkum uppruna bæði pólitískum og menningarlegum. Þau eru líka tæki til að miðla þekkingu til komandi kynslóða. Að auki erum við að heiðra þá sem hafa lagt hönd á plóginn með sínu framlagi. Saga okkar er rándýr og verður ekki metin til fjár. Við hljótum að geta fundið betri lausnir til að halda úti blómlegu samfélagi. Án menningar og lista af hvaða toga sem er mun fátt dafna og vaxa. Menningin bæði speglar og mótar samfélagið. Ekki misvitrir pólitíkusar sem koma og fara í hvaða flokki sem þeir eru. Því vona ég að bæjarstjórnin hugsi málið betur og taki vel ígrundaða afstöðu um málið. Hljómahöllin skiptir miklu máli sem og önnur söfn og menningarverðmæti.
Kveðja,
Tómas Tómasson