Hvers vegna Þóru?
Ég hef verið þeirrar skoðunar síðan haustið 2008 að við þyrftum að velja okkur nýjan forseta, ekki vegna þess að við þyrftum að refsa þeim sem fyrir var, heldur vegna þess að við þyrftum að rýma til fyrir nýjum hugmyndum og nýjum andblæ.
Snemma á liðnum vetri settist ég niður með nokkrum einstaklingum sem voru sammála mér um þörfina fyrir nýjan forseta. Við sátum drykklanga stund yfir tebolla og reyndum að finna líklegan arftaka, þ.e.a.s. manneskju sem gæti horft fram á veginn og verið glæsilegur fulltrúi ungrar þjóðar, manneskju sem gæti hjálpað okkur að þroska með okkur nýjar vonir og nýja sýn, manneskju sem ekki væri löskuð af pólitísku argaþrasi áranna fyrir hrun.
Yfir tebollanum bar mörg nöfn á góma. En hversu mikla trú sem við höfðum á öllu því góða fólki, hverju á sínu sviði, þá vissum við í fundarlok að forsetaefnið var enn ófundið. Sú var alla vega tilfinningin sem ég fór með heim að tedrykkju lokinni. Það er ekki nóg að forsetinn sé góður í stærðfræði, annálaður tungumálasnillingur, farsæll fiskimaður, glæsilegur íþróttakappi eða fróður um sögu þjóðarinnar. Forsetinn þarf líka að hafa „þetta eitthvað“, sem er svo erfitt að lýsa að maður getur ekki einu sinni skilgreint það sem hæfniskröfu í atvinnuauglýsingu.
Skömmu eftir tedrykkjufundinn heyrði ég nafn Þóru Arnórsdóttur fyrst nefnt sem hugsanlegs frambjóðanda. Þá vissi ég að ég gæti hætt að leita. Þarna var þetta komið. Ég þekkti Þóru ekki neitt, hafði bara hitt hana einu sinni á ráðstefnu. En ég hafði auðvitað fylgst með störfum hennar árum saman – og ekki bara störfum í þrengsta skilningi þess orðs, heldur líka viðbrögðum og framkomu við óvæntar aðstæður eins og iðulega koma upp í beinum útsendingum.
Eftir þetta liðu nokkrar vikur, eða kannski mánuðir. Þá frétti ég af því einn daginn að Þóra hefði boðað til fréttamannafundar í Hafnarborg, þar sem von væri á yfirlýsingu um hugsanlegt forsetaframboð. Ég var staddur á höfuðborgarsvæðinu þennan dag og ákvað að líta við í Hafnarfirðinum, fannst að þetta væri viðburður sem gaman væri að eiga minningu um.
Á fundinum í Hafnarborg tilkynnti Þóra um framboð sitt til forseta Íslands. Eftirminnilegustu orðin úr ræðunni hennar voru „Það er þörf fyrir nýjan tón í samfélaginu“. Ég þurfti ekki meira. Ég hef lært það á langri ævi að það er farsælt að fylgja eigin tilfinningu. Það hef ég gert í þessu máli. Þess vegna vil ég að Þóra Arnórsdóttir verði næsti forseti Íslands.
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunarfræðingur
Borgarnesi