Hvers vegna er margfalt dýrara fyrir aldraða
– að eiga íbúð í Keflavík en Garðabæ?
Nýr bæjarstjórnarmeirihluti í Reykjanesbæ er boðinn og búinn að gera líf íbúanna betra. Mig langar að fá að vekja athygli þessa ágæta fólks á því að töluvert vantar upp á að íbúar hér njóti sanngirni í skattheimtu vegna íbúðarhúsnæðis. Nú er lag fyrir nýja húsbændur með nýja vendi að bæta úr og jafna fasteignagjöld þannig að þau verði hin sömu og í jafn stóru sveitarfélagi á sama atvinnusvæði.
Sveitarfélög hafa ýmsa tekjustofna sem tilgreindir eru í lögum þar um nr. 4 frá 1995. Innan laganna er svigrúm til mismunandi álagningar, sem leiðir til þess að sum sveitarfélög eru mun dýrari til búsetu en önnur.
Þannig er 46% dýrara fyrir almenna borgara að eiga 20 milljóna króna íbúð í Keflavík en Garðabæ. Það getur líka verið 235% dýrara fyrir ellilífeyrisþega að eiga íbúð í Reykjanesbæ en Garðabæ!
Skoðum dæmi um almennan borgara sem á íbúð að fasteignamati 20 milljónir króna og muninn á að eiga hana í þessum sveitarfélögum:
Eldri borgarar og þeirra gjöld
Afsláttur vegna fasteignagjalda ellilífeyrisþega er tekjutengdur en hér er miðað við hjón sem hafa lágmarksframfærslu frá Tryggingastofnun og engar fjármagns- eða aðrar tekjur. Þau hafa samanlegt um kr. 4.631.000 á ári, fyrir skatta og skyldur, og þykir engum ofrausn. Afsláttarreglurnar eru misjafnar eftir sveitarfélögum. Í Garðabæ fá hjón með tekjur allt að kr. 5.550.000 fullan afslátt af fasteignaskatti og holræsagjaldi. Afsláttur fer svo lækkandi og fellur niður ef tekjur fara yfir kr. 6.750.000. Í Reykjanesbæ aftur á móti fá hjónin fullan aflslátt þar til tekjur þeirra ná 3.740.000. Afslátturinn fer síðan lækkandi og fellur alveg niður við 5.250.000 kr.
Hvorugt sveitarfélagið veitir eldri borgurum afslátt af sorp- og vatnsgjöldum, Garðabær veitir afslátt af fasteignaskatti og holræsagjöldum en Reykjanesbær veitir bara afslátt af fasteignaskattinum sjálfum. En tafla 2 sýnir hvernig dæmið lítur út hjá eldri borgurum í íbúð með 20 milljóna króna fasteignamati:
Athugasemdir
Upplýsingar um álagningu og afslátt eru fengnar úr gjaldskrám sveitarfélaganna og af heimasíðum þeirra.
Þýðingarmestir tekjustofna sveitarfélaga auk útsvars eru fasteignagjöld, holræsagjöld, sorphirðu og –förgunargjöld og vatnsgjald. Hið síðastnefnda er stundum falið öðrum til innheimtu en það breytir ekki þeirri staðreynd að gjaldið er lagt á sem kvöð frá sveitarfélaginu vegna þjónustu sem því er skylt að veita. Í Garðabæ innheimtir sveitarfélagið vatnsgjald en í Reykjanesbæ er HS látið sjá um innheimtuna. Þetta er óhjákvæmilegur hluti fasteignaskatta engu að síður og er því tekið með í þennan samanburð.
Lóðarleiga er ekki tekin með í samanburðinn vegna ólíkra aðstæðna að sumu leyti en í Reykjanesbæ eiga einkaaðilar mikið land og greiða íbúðareigendur lóðarleigu beint til þeirra. Nefna má samt að í Garðabæ er hún 0,4% af fasteignamati lóðar en hjá Reykjanesbæ 2% af fasteignamati lóðar.
Nú væri gott að fá að vita hvort nýr meirihluti hyggur á aukið jafnræði með því að lækka fasteignagjöldin til samræmis við aðra bæi?
Ívar Pétur Guðnason