Hvernig viljum við sjá Garðinn eftir 30 ár?
– Ólafur Ágúst Hlíðarsson og Heiðrún Tara Stefánsdóttir skrifa
Hvernig viljum við sjá Garðinn fyrir okkur eftir 30 ár, þegar við stöndum á miðjum aldri? Okkar sýn er sú að ennþá verður jafn gott að búa hér, iðandi mannlíf, blómlegt íþrótta- og tómstundastarf, stríður straumur ferðamanna, næg atvinnutækifæri og þétt og öflugt stuðningsnet fyrir fjölskyldur.
En hvernig er staðan í dag? Staðreyndin er sú að í íþrótta- og tómstundastarfi er lítið um val fyrir ungt fólk. Við skiljum það ekki að það skuli ekki vera enn komnir á frístunda- og tómstundastyrkir. N listinn lagði fram tillögu um það haustið 2011 og var henni hafnað með þeim rökum að börnum og unglingum í Garðinum væri gert auðvelt með að sækja íþróttir og aðra menningastarfsemi í nágrannasveitarfélögunum, með fríum strætóferðum. Það er ekki raunin þegar t.d. almenningssamgöngur ná ekki í Út-Garðinn.
Við erum þess fullviss að ef boðið yrði uppá frístunda- og tómstundarstyrki myndu fleiri börn og ungmenni geta nýtt sér það sem í boði er í nærliggjandi sveitarfélögum, án þess að það yrði mikið fjárhagslegt högg fyrir foreldra og forráðamenn. Við vitum að íþrótta og tómstundastarf er í raun mjög öflugt forvarnarstarf þar sem unnið er með viðhorf og atferli ungmenna í átt að heilbrigðari lífstíl. Mannlegt atferli verður nefnilega til í samleik persónunnar og þeim aðstæðum sem hún elst upp við. Hver vill það ekki fyrir börnin sín?
Öll erum við ólík og höfum við öll okkar mismunandi áhugamál en við eigum að fá jöfn tækifæri til að stunda þau af fullum krafti. En hér er það ekki endilega til boða, bæði vantar uppá aðstöðuna og mannauðinn til að sinna þessu, svo það á að vera í lagi að vera í samvinnu við nágrannasveitarfélögin þegar um fjölbreytt tómstundastarf er að ræða.
Það er mikilvægt að börn og unglingar geti notið sín og fengið að stunda áhugamál sín af kappi, það eykur hamingju þeirra og eykur vellíðan. Það er þetta sem við viljum sjá eftir 30 ár, hamingjusamt fólk sem hefur fengið það tækifæri í samfélaginu að geta blómstrað, fólk sem kann að vinna saman að sameiginlegu markmiði fyrir heildina og stuðlar að jöfnuði í sátt við nærumhverfið.
Ólafur Ágúst Hlíðarsson
skipar 4. sæti N listans
Heiðrún Tara Stefánsdóttir
skipar 5. sæti N listans