Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvernig stöndum við okkur í þjónustu við eldri íbúa?
Föstudagur 15. apríl 2022 kl. 09:40

Hvernig stöndum við okkur í þjónustu við eldri íbúa?

Helga Jóhanna Oddsdóttir,
skipar þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 14. maí næstkomandi.


Fjölbreytt þjónusta byggð á fagmennsku er sjálfsögð krafa eldri íbúa Reykjanesbæjar sem eiga að eiga kost á áhyggjulausu ævikvöldi í sínum heimabæ. Hvort sem um er að ræða fjölbreytta búsetukosti, sérsniðna heilsueflingu, félagsstarf eða heilbrigðisþjónustu, eigum við að vera einna fremst sveitarfélaga í þjónustu fyrir eldri íbúa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Berum virðingu fyrir þeim sem ruddu brautina

Mér var kennt í æsku að bera virðingu fyrir mér eldra og lífsreyndara fólki. Fólki, sem hafði lagt grunninn að þeim lífsgæðum sem ég naut sem barn og unglingur í Reykjanesbæ, hvort sem var í þroskandi skólaumhverfi, öruggu bæjarfélagi þar sem næga atvinnu var að fá eða öflugu menningar- og íþróttastarfi. Innviðir sveitarfélagsins þróuðust nefnilega ekki af sjálfu sér á þessum árum frekar en í dag. Þar liggur að baki ævistarf, mikilvægt framlag allra þeirra sem nú nálgast eða hafa náð eftirlaunaaldri, eldri íbúa Reykjanesbæjar.

Þarf hópurinn að vera hávær til að gleymast ekki?

Við sem njótum nú afraksturs ævistarfs eldri íbúa eigum að hlúa vel að hagsmunum þessa hóps, þó hann sé ekki alltaf háværastur. Við, sem bjóðum okkur fram til starfa fyrir sveitarfélagið, eigum að vera öflugur málsvari íbúa þegar kemur að samskiptum við þá aðila sem veita velferðarþjónustu á svæðinu, t.d. HSS og hjúkrunarheimilin. Þar eigum við að leggja áherslu á gott aðgengi að öldrunarþjónustu sem veita á í nánu samstarfi við velferðarsvið sveitarfélagsins. Við, fulltrúar sveitarfélagsins, eigum að vera samtaka, sterk rödd, sem talar fyrir hagsmunum íbúa.

Er hjúkrunarheimili eini valkosturinn?

Eldri íbúar Reykjanesbæjar eiga að geta valið að búa heima sem lengst, með stuðningi öflugrar heimaþjónustu ef og þegar hennar er þörf. Eins eigum við að bjóða fjölbreyttari búsetukosti, til að mynda þjónustukjarna, þar sem eldri íbúar geta fengið þjónustu við athafnir daglegs lífs, án þess að dvöl á hjúkrunarheimili sé tímabær.

Íbúðir fyrir eldri borgara eigum við að skipuleggja í nágrenni við helstu innviði og þjónustu í sveitarfélaginu.

Við eigum að horfa til þess að færa félagsstarf eldri íbúa út í hverfin, nær þátttakendum. Þannig má nýta betur húsnæði sveitarfélagsins, fjölga þátttakendum í félagsstarfi og eiga náið samstarf við eldri íbúa um það framboð og fyrirkomulag sem þeir kjósa í félagsstarfi.

Góð heilsa, gulli betri

Góð líkamleg og andleg heilsa á efri árum er lykilatriði í lífsgæðum. Þar eigum við sem bæjarfélag að leggja áherslu á öflugan stuðning og eiga frumkvæði að framboði heilsueflandi verkefna. Eitt af þeim verkefnum sem eldri íbúar hafa tekið virkan þátt í og notið undanfarin ár er heilsuefling sem sniðin er að þeirra þörfum og veitt á mjög faglegan hátt. Það er sorglegt til þess að hugsa að núverandi meirihluti, sem gengur frá hverjum samningnum á fætur öðrum þessar vikurnar, telur sig ekki geta gert áframhaldandi samning um heilsueflingu eldri íbúa Reykjanesbæjar. Verkefni sem hefur notið mikilla vinsælda og árangurs. Ekki virðist eiga sér stað samtal við þátttakendur um framhaldið sem er ótækt. Þessu vil ég breyta.