Hvernig samfélag vilt þú?
Í kosningum til Alþingis þann 25. apríl nk. tökum við kosningabærir Íslendingar eina af okkar stærstu pólitísku ákvörðunum. Við verðum að horfast í augu við okkur sjálf og svara spurningunni: Hvernig samfélag vil ég? Sú er nefnilega raunin að eftir 18 ára setu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, taumlausa einkavinavæðingu og óráðsíu í fjármálum ríkisins, höfum við kjósendur tækifæri til að snúa við blaðinu, taka völdin í okkar hendur og leggja grunn að uppbyggingu nýs og betra samfélags. Við okkur blasir vorhreingerning heillar þjóðar þar sem við verðum að leggja áherslu á grunngildin sem týnst hafa í spillingu síðastliðinna ára.
Velferðin er aðalmálið
Í hugum okkar vinstri grænna eru velferðarmálin aðalmálin. Félagslegur jöfnuður og réttlæti á að ná til allra landsmanna, burtséð frá búsetu, efnahag eða öðrum þáttum. Landsbyggðin kemur til með að spila stórt hlutverk í upprisu samfélagsins úr rústum nýfrjálshyggjunnar sem blindaði stjórnvöld svo lengi. Lykilhlutverk í þessari upprisu kemur þó til með að verða í höndum þeirra sem við taumunum taka að loknum kosningum í vor. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur öll að sú stjórn sem þá verður mynduð sé velferðarstjórn, sem í einu og öllu beri fyrst og fremst hag þjóðar sinnar fyrir brjósti. Í slíkri stjórn eiga vinstri græn vel heima.
Hvað vilja vinstri græn gera?
Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur öðrum flokkum framar barist fyrir jöfnuði í þjóðfélaginu og eflingu grunnþjónustunnar. Samneyslan verður að vera tryggð til að unnt sé að halda uppi sjálfsagðri þjónustu við alla landsmenn. Endurskoðun málefna almannatrygginga, efling menntakerfisins, bættar samgöngur og jafn aðgangur landsmanna allra að góðum fjarskiptum eru meðal þeirra atriða sem vinstri græn leggja áherslu á til að leggja grunn að betra samfélagi. Það er þó alveg ljóst að eftir það hrun sem nú hefur orðið, verður eitthvað eftir að láta og hagræðing að fara fram í opinberum rekstri. Í þeirri endurskipulagningu sem þegar er hafin, verður þó umfram allt að standa vörð um velferðina og minnka bilið sem nú er milli þeirra sem mest hafa og þeirra sem minnst hafa. Niðurskurður hvorki á né má bitna á örykjum, öldruðum og börnum. Tiltektina verður að vinna vel og skipulega og gæta þess að þeir sem ekki tóku þátt í góðærissukkinu, sitji ekki uppi með reikninginn. Þessa tiltekt er vel hægt að vinna, þessi tiltekt hefst með vinstri gænum.
Guðrún Axfjörð Elínardóttir
5. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi