Hvernig fannst þér skaupið?
Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur
Ég er týpan sem klökkna í hvert sinn sem ég heyri „Happy New Year“ með Abba - jafnvel þó að ég sé ekki ofurviðkvæm svona alla jafna. Það er eitthvað við áramót sem gerir mig svona, maður fer ósjálfrátt að gera gamla árið upp og strengja heit fyrir það nýja. Sorgir og sigrar ársins, hvað stóð upp úr og hvað mætti betur fara?
Ég er mjög sátt við að 2018 sé liðið og tek nýju ári fagnandi. Það var auðvitað margt ágætt við nýliðið ár og fyrir mig persónulega stendur auðvitað upp úr að á árinu fæddist okkur barnabarn sem dásamlegt er að fylgjast með vaxa og dafna. Og svo er þetta auðvitað árið sem við fjölskyldan fórum í hundana og fengum Lubba, þann mikla gleðigjafa.
Fyrir okkur Suðurnesjamenn var þetta árið þar sem við vorum enn á ný minnt á mikilvægi þess að hér sé byggt upp fjölbreytt atvinnulíf. Væringar á flugmarkaði höfðu strax áhrif hér á svæðinu og sýndu okkur hversu nauðsynlegt það er að byggja á fleiri en einni atvinnustoð. Og 2018 var líka árið þegar Sundhallarbaráttan tapaðist og skammsýni bæjaryfirvalda, skortur á metnaði og virðingarleysi fyrir menningarverðmætum og starfi genginna kynslóða hafði betur. Höllin stendur reyndar enn og því kannski ennþá von á kraftaverki, hver veit? Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim fjölmörgu sem tóku þátt í þessari baráttu með okkur.
Nú er 2019 framundan með öll sín fyrirheit. Ég hef góða tilfinningu fyrir því og finn á mér að þetta verði súper ár. Ég hef ekki verið góð í áramótaheitunum hingað til, held meira að segja að ég hafi játað það hér á þessum vettvangi fyrir tveimur árum að áramótaheitin mín væru frekar hefðbundin. Ég á dáldið erfitt með að breyta mikið frá því hefðbundna, en ég skal lofa að vera næstum því alltaf stillt og prúð, sinna fólkinu mínu vel, vera góð við börn og dýr og þá sem á vegi mínum verða. Ég er líka að hugsa um að láta loksins verða af því að læra skriðsund og þreyta kappsund í árslok við yngri son minn sem æfir sund af miklum móði. Er það ekki nokkuð óhefðbundið?
Og skaupið? Mér fannst það frábært, hárbeitt og fyndið og grín gert að breiðari hópi en oft áður, svona í pólitískum skilningi. Ég gæti hafa misst af einhverju, en mér sýnist þetta vera fyrsta skaupið í örugglega áratug þar sem Bjarni Ben kemur ekki fyrir. Það er líka frekar óhefðbundið. En sem stjórnarformaður Fríhafnarinnar er ég auðvitað sérstaklega ánægð með Fríhafnaratriðið!
Ég óska lesendum gleðilegs árs og vona að 2019 verði ykkur gott og gjöfult.