Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Föstudagur 27. febrúar 2004 kl. 08:52

Hvernig er að eldast í Reykjanesbæ?

Ég er fædd og uppalin í miðbæ Njarðvíkur.  Foreldrar mínir byggðu sitt hús í Njarðvík og þar ólu þau okkur systurnar fimm upp.  Alltaf var líf og fjör á þeim bæ þar sem móðir okkar var mjög virk í félagsmálum Njarðvíkur.  Hélt hún m.a. utan um starfsemi skátahreyfingarinnar, sem var mjög blómleg á þeim tíma.  Nú erum við systurnar fimm komnar með okkar eigin fjölskyldur og fluttar að heiman.  Aðeins ein okkar býr í Njarðvík með sína fjölskyldu, en við hinar búum m.a. á höfuðborgarsvæðinu.  Eins og gengur þá eltist móðir okkar.  Fyrir nokkrum árum síðan veiktist hún og er með alvarlegan minnissjúkóm, og dvelst núna á Elli- og hjúkrunarheimilinu Víðihlíð í Grindavík.  Það er afskaplega vel hugsað um hana í Víðihlíð, en hún er bara svo langt frá heimahögum sínum.  Faðir okkar býr enn á æskuheimili okkar í Njarðvíkum.

Hvernig stendur á því að ekki hefur enn verið hlúð almennilega að öldrunarmálum í Reykjanesbæ þannig að öllum öldruðum sé sinnt af sóma og með virðingu ?  Margt er gert vel í málum aldraðra í Reykjanesbæ, en framsækið bæjarfélag eins og Reykjanesbær getur gert betur.  Frumbyggjar Njarðvíkur og Keflavíkur eru að eldast, börn þeirra flytjast mörg hver annað tímabundið, hluti þeirra skilar sér heim aftur en önnur ekki.  Við verðum að muna að þessir frumbyggjar, mínir foreldrar og margra ykkar sem lesa þessi orð, byggðu upp þetta annars ágæta bæjarfélag og skiluðu sínu lífsstarfi þar, og það er því skylda okkar að sýna þeim þann sóma og kærleika að þau geti notið elliáranna í bæjarfélaginu sem þau byggðu.  Með því sínum við þeim einnig þakklæti fyrir vel unnin störf í þágu bæjarfélagsins. 

Með þetta í huga á ég erfitt með að átta mig á af hverju veikustu einstaklingarnir eru sendir ýmist til Grindavíkur eða í Garðinn - þurfa að flytjast burt úr bænum sínum.

Er ekki kominn tími til að axla þessa ábyrgð í okkar heimabæ ?  Er ekki kominn tími til að reisa okkar fyrsta sérhannaða elli-og hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ og koma til móts við óskir okkar aðstandenda og með virðingu fyrir þeim ?  Þar gætu okkar aðstandendum liðið vel og yrði auðveldara fyrir maka, ættingja og vini að koma í heimsókn og deila ævikvöldinu með þeim.

Hverjir marka stefnu í öldrunarmálum í Reykjanesbæ - og hverra er ábyrgðin ? 

Reykjanesbær getur gert betur.

Dóttir sem á frábæra, aldraða og minnissjúka móður.

S.A.G.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024